Í dag mættust stórliðin úr Manchesterborg í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni á Etihad vellinum í ljómandi fínu veðri. United var án Paul Pogba auk þess sem Alexis Sanchez og Romelu Lukaku byrjuðu báðir á bekknum eftir nýafstaðin meiðsl. Framlínan okkar var því Anthony Martial á vinstri kantinum og Jesse Lingard á þeim hægri með Marcus Rashford fremstan.
City menn byrjuðu leikinn af kraftinn og gáfu gestunum ekki nein grið og er varla hægt að segja að United menn hafi snert boltann, svo mikil var einstefnan og áræðnin hjá heimamönnum. Sú vinnusemi skilaði sér strax á 12. mínútu þegar David Silva kom boltanum á Sterling sem átti frábæra fyrirgjöf yfir á fjærstöngina þar sem Bernardo Silva lúrði og náði að senda boltann fyrir markið þar sem nafni hans frá Spáni fékk opið marktækifæri og hamraði boltann í netið fram hjá de Gea.