Annað árið í röð dregst Manchester United með félagi frá Hollandi í Evrópukeppni. Í ár tekur United hins vegar ekki þátt í Meistaradeild Evrópu heldur hinni víðfrægu Evrópudeild sem við höfum fengið að kynnast fullvel á undanförnum árum.
Klukkan 17:00 á morgun hefst Evrópuævintýri okkar manna í Rotterdam, Hollandi. Þetta er fyrsti leikur United af þremur á útivelli í þremur mismunandi keppnum. Það sem gerir leikinn á morgun ef til vill enn sérstakari er að þetta er völlurinn þar sem United lagði Barcelona í Evrópukeppni Bikarhafa árið 1991.