Loksins jákvæð knattspyrnuhelgi fyrir okkur United-stuðningsmenn. Það var alveg frábært að að sjá Ryan Giggs stýra liðinu til sigurs í leiknum gegn Norwich og í kjölfarið hefur maður séð álitsgjafa tala og skrifa um að hann ætti að taka við liðinu til frambúðar. Eins og það væri nú alveg gjörsamlega fullkomið að hafa sigursælasta, leikjahæsta og besta leikmann í sögu félagsins stýra skipinu þá er auðvitað það of snemmt. Við vitum ekkert um hann sem stjóra og það verður erfitt að dæma hann af þessum þremur leikjum sem eftir eru, þeir skipta jú auðvitað engu máli og pressan er engin.
Lesefni
Stjóralausir djöflar lesa
Nú streyma inn á alnetið greinar um hitt og þetta tengt stjóraleitinni hjá United. Við tókum saman þær helstu:
Traustvekjandi fréttir frá Manchester Evening News. Þó að þjálfarar eins og Klopp og Guardiola hafi sagt að þeir ætli að vera áfram hjá sínum félögum ætli stjórn United ekki að gefast upp á þeim þrátt fyrir það. Jafnframt mun Sir Alex Ferguson taka virkan þátt í því að finna næsta stjóra Manchester United ásamt því að Glazerarnir virðast vera að fara að mæta á svæðið til þess að taka þátt í stjóraleitinni. Er ekki hægt að gera einhvern raunveruleikaþátt úr þessu?
15 ár
Ekki nóg með það að hafi verið verulega furðulegt að sjá United eiga fríhelgi í deildinni núna um helgina þá er það auðvitað fullkomlega óþolandi að þurfa að fylgjast með einhverjum öðrum liðum vera að spila leikina sem ráða úrslitum í deildinni. Megi þetta aldrei gerast aftur.
En hvað um það, í dag eru akkúrat 15 ár síðan Ryan Giggs skoraði sitt besta mark á ferlinum og hélt þar með lífi í besta tímabili sem nokkurt lið á Englandi hefur átt þegar United varð fyrsta og eina liðið frá Englandi til þess að vinna deildina, FA-bikarinn og Meistaradeildina á sama tímabili. Ég er auðvitað að tala um draumatímabilið 1998/1999.
Mánudagur til mæðu
Ef einhver var ekki búinn að hoppa á #MoyesOut vagninn fyrir gærdaginn fer hver að verða síðastur til þess að ná sér í miða enda vagninn að verða pakkfullur eftir að David Moyes sat aðgerðarlaus þegar erkifjendurnir í Liverpool mættu á Old Trafford og rasskelltu Mancheser United. Á Old Trafford.
Það var athyglisvert að hlusta á Gary Neville lýsa leiknum á Sky. Það var ekki liðið korter af leiknum þegar hann fór að tala um að Moyes yrði að gera einhverjar breytingar á leikskipulaginu því að leikur liðsins væri ekki að virka. Hann endurtók þetta aftur og aftur og varð verulega hissa þegar engu var breytt í hálfleik. Undir lok leiksins var kominn algjör uppgjafatónn í Neville og maður sá hann bara fyrir sér hrista hausinn yfir aðgerðarleysi Moyes. Við treystum því að Neville hafi bjallað á Sir Alex eftir leikinn og gefið honum sitt álit á Moyes. Ég legg jafnframt til að næsti stjóri geri allt sem hann geti til þess að fá Gary Neville í þjálfarateymið.
Rauðu djöflarnir lesa
Eins og gefur að skilja fara blöðin rækilega í saumana á stöðunni á Old Trafford þessa dagana.
Guardian segir
- að Glazerar styði David Moyes til endurbyggingarstarfsins sem framundan er og fer yfir njósnastarfið hans
- að David Moyes hafi engu að tapa nema starfinu og verði að taka sig saman í andlitinu
- að Robin van Persie muni endurskoða framtíð sína í sumar
Independent fer líka yfir njósnastarfið og heldur því fram að framtíð hans sé í hættu .
Í Daily Telegraph segir Paul Hayward sem skrifaði sjálfsævisögu Sir Alex, að hugsanlega sé leikmenn um það bil að gefast upp á Moyes. og Mark Ogden rýnir í ‘hitakortin’ til að sjá hvað sé hæft í ummælum Van Persie um staðsetningar.