Þá er komið að leiknum sem enginn er að hugsa um. Eftir einn skemmtilegasta og mikilvægasta sigur United í nokkur ár um síðastliðna helgi gegn góðvinum okkar í Arsenal fóru allir strax að huga að risaleik næstu helgar þegar ekki svo góðir vinir okkar í Manchester City koma í heimsókn. Þar verður allt undir, á morgun þurfum við bara að hvíla alla og ekki tapa 7:0.
United þarf eitt stig á morgun gegn CSKA Moskvu til að tryggja fyrsta sæti riðilsins en í raun þurfum við einfaldlega að forðast sjö marka tap til að vera öruggir áfram og við munum vinna riðilinn svo lengi sem við fáum ekki á okkur fimm mörk á heimavelli. Gestirnir frá Rússlandi eru sjálfir í bullandi baráttu um að komast áfram og þurfa að sækja fleiri stig en Basel (sem heimsækir Benfica á sama tíma) til að vera öruggir um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.