Það er ótrúlegt að fyrir nákvæmlega einu ári síðan hafi leikmenn og stuðningsmenn Manchester United verið að fagna meistaratitli nr. 20 eftir glæsilegan sigur á Aston Villa. Allt var eins og það átti að vera. United á toppnum, langt á undan öllum hinum liðunum. Besta liðið, besti stjórinn. Business as usual.
Það er ótrúlegt að ári seinna standi varla steinn yfir steini hjá þessu sama knattspyrnufélagi. Liðið er í 7. sæti og aumasta titilvörn í sögu Englands síðan Manchester City féll tímabilið eftir að hafa unnið titilinn er óumflýjanleg. Við erum stödd í skemmtilegasta hluta tímabilsins, þar sem úrslitin eru að ráðast og öllum keppnum að ljúka. Við erum stödd á heimavelli Manchester United. En Manchester United er ekki í baráttu á neinum vígstöðum og ef félagið myndi sleppa því að senda til leiks í þessum fjórum leikjum myndi það ekki skipta einu einasta máli. Leikirnir sem skipta máli tengjast Manchester United ekki á neinn hátt. Ótrúlegt.