Ef einhver var ekki búinn að hoppa á #MoyesOut vagninn fyrir gærdaginn fer hver að verða síðastur til þess að ná sér í miða enda vagninn að verða pakkfullur eftir að David Moyes sat aðgerðarlaus þegar erkifjendurnir í Liverpool mættu á Old Trafford og rasskelltu Mancheser United. Á Old Trafford.
Það var athyglisvert að hlusta á Gary Neville lýsa leiknum á Sky. Það var ekki liðið korter af leiknum þegar hann fór að tala um að Moyes yrði að gera einhverjar breytingar á leikskipulaginu því að leikur liðsins væri ekki að virka. Hann endurtók þetta aftur og aftur og varð verulega hissa þegar engu var breytt í hálfleik. Undir lok leiksins var kominn algjör uppgjafatónn í Neville og maður sá hann bara fyrir sér hrista hausinn yfir aðgerðarleysi Moyes. Við treystum því að Neville hafi bjallað á Sir Alex eftir leikinn og gefið honum sitt álit á Moyes. Ég legg jafnframt til að næsti stjóri geri allt sem hann geti til þess að fá Gary Neville í þjálfarateymið.