Erik ten Hag stillti upp óbreytt lið frá síðustu helgi og var ekkert að flækja hlutina.
Á bekknum voru þeir : Bayindir, Evans, de Ligt, Eriksen, McTominay, Garnacho, Antony og Zirkzee.
Heimamenn stilltu upp upp í 4-2-3-1:
Á tréverkinu: Rushworth, Webster, Igor, Lamptey, Baleba, Rutter, Enciso, Ayari og Adingra.
Fyrri hálfleikur
Bæði lið voru að þreifa fyrir sér fyrstu mínúturnar en pressa okkar manna var góð framan af og setti varnarlínu heimamanna oft í vesen. Fyrsta skotið kom þó frá heimamönnum þegar boltinn barst til Joao Pedro nokkuð fyrir utan vítateigsbogann en skotið var laust og svolítið framhjá markinu. Hins vegar fengu gestirnir gott tækifæri eftir útspark frá Onana. Diogo Dalot vann skallaboltann og fleytti boltanum upp vinstri kantinn og náði boltanum sjálfur og kom með ágætis fyrirgjöf á Amad Diallo en skot hans var ónákvæmt og framhjá markinu.
Kobbie Mainoo komst í hálffæri eftir að hann vann sjálfur boltann hátt á vellinum eftir að Billy Gilmour átti slaka sendingu þökk sé Mason Mount. En boltinn virtist eitthvað flækjast í löppunum á táningnum og honum tókst ekki að koma skotinu af og Steele í markinu handsamaði boltann auðveldlega.
Annars voru fyrstu 20 mínúturnar rólegar en á 21. mínútu opnaðist svæði fyrir aftan Dalot og Pedro var að nálgast vítateiginn en Mainoo kom fyrir aftan hann og átti frábæra tæklingu og kom hættunni frá. United fékk aukaspyrnu í næstu sókn eftir að Veltman ruglaðist og hélt hann væri í körfubolta og handlék boltann á vinstri kantinum.
Amad Diallo tók spyrnuna og átti góða fyrirgjöf sem rataði á kollinn á Casemiro sem skallaði yfir markið. Fyrirtaks tækifæri en Brassanum brást bogalistin. Aftur fengu United hornspyrnu en heimamönnum tókst að koma boltanum frá en ekki lengra en á Mazraoui sem húrraði boltanum inn í teiginn. Þar stóð Maguire og skallaði boltann niður fyrir Dalot sem reið á vaðið en skotið hans fór svolítið yfir markið.
Aftur fengum við skyndisókn, þegar United vann boltann í vörninn og boltinn barst á Amad sem var með Bruno og Rashford með sér gegn tveimur varnarmönnum. En sá ungi var óákveðinn og átti afleita sendingu á Rashford og færið rann út í sandinn. Það reyndist dýrkeypt þar sem heimamenn komust í sókn örstuttu síðar.
Minteh átti fyrirgjöf fyrir aftan vörn United og Maguire og Mazraoui leyfðu boltanum að fara. Mitoma beið eins og gammur hinu meginn og renndi boltanum fyrir markið og beint á Welbeck sem skoraði sitt 100. úrvalsdeildarmark. 1-0 fyrir heimamenn. Þarna hefðu menn þurft að vera ákveðnari í vörninni.
United brunuðu hins vegar í sókn strax í kjölfarið og komu boltanum á Rashford vinstra megin í teignum. Hann átti skot sem Steele varði en fór ekki betur en svo að boltinn fór af höndinni á Steele í hælinn á Rashford sem lá á maganum og þaðan í netið! En flaggið fór á loft og furðumarkið réttilega dæmt af.
Aftur komu United í sókn og Bruno stakk sér inn fyrir vörnina á 37. mínútu og renndi boltanum út fyrir teiginn á Mount en skotið hans fór beint á Steele sem þó þurfti tvær tilraunir til að ná boltanum. Síðustu mínútur hálfleiksins báru þess merki að bæði lið vildu bara komast inn í klefa úr rigningunni.
Síðari hálfleikur
Erik ten Hag virtist ekki nógu sáttur með gang leiks í fyrri hálfleik og gerði breytingu. Mount fór útaf og í hans stað mætti Joshua Zirkzee. Heimamenn fengu skotfæri á fyrstu sekúndunum en annars voru fyrstu fimm mínúturnar rólegar eða alveg þar til James Milner komst einn inn og setti boltann framhjá Onana í markinu en Martinez bjargaði á marklínu.
Við fengum líka okkar færi enda var leikurinn mun opnari í síðari hálfleik. Bruno mistókst að setja almennilegt skot á markið úr upplögðu færi en hinu megin fékk Welbeck skallafæri sem fór beint á Onana. Aftur fengu heimamenn skallafæri og aftur var það Welbeck sem að þessu sinni hitti slánna. Brighton komu mun grimmari út í síðari hálfleikinn og United máttu vel við una að vera bara 1-0 undir.
Hins vegar kom næsta mark gegn gangi leiksins, rétt eins og markið í fyrri hálfleik. United spiluðu sig í gegnum vörnina og Amad tók á rás upp hægri kantinn og brunaði inn í teiginn. Þar snéri hann varnarmann af sér og skaut á markið en boltinn hrökk af van Hecke og inn í netið. 1-1 og vel við hæfi að Fílabeinsstrendingurinn hefði skorað markið.
Rétt eftir að 60. mínútur voru dottnar á klukkuna kippti ten Hag Rashford útaf og í hans stað kom Alejandro Garnacho. Það átti eftir að draga til tíðinda með hann eins og svo oft. Bruno komst inn í teig í skyndsókn með Garnacho og Zirkzee með sér og renndi boltanum yfir á Argentínumanninn sem skaut úr þröngu færi en Zirkzee hafði rennt sér inn í markið og fær snertinguna og boltinn í tómt netið. Agaleg óheppni en réttur dómur.
Brighton fengu því næst aukaspyrnu á vítateigslínunni eftir slaka tæklingu hjá Amad en skot frá Gilmour beint í vegginn. Þá ákvað ten Hag að gera tvær breytingar og henti McTominay og de Ligt inn á í staðinn fyrir Bruno Fernandes og Harry Maguire. Óvanalegt svo ekki sé mikið sagt.
Heimamenn voru ívið sterkari þegar hér var komið við sögu og fengu nokkrar hornspyrnun og kantmennirnir, Minteh og Mitoma voru fjörugir og líflegir. Varnarlína þeirra var líka mjög vel á verði og hélt línunni hátt og vel og voru okkar menn oftar en ekki gripnir í landhelgi, röngu megin við hana. Þegar nokkrar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var augljóst að leikmenn voru orðinir vel þreyttir og margir með tóman tankinn.
Síðasta skiptin ten Hag kom svo á 90. mínútu þegar Antony fékk að reima á sig takkaskóna og halda út á völlinn til að klára uppbótartímann í stað Amad Diallo. Hann var ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn og komst inn í teig upp að endalínu og sendi boltann fyrir markið. Þar tókst okkar mönnum að koma skoti á markið í tvígang en það fyrra fór í varnarmann og hitt endaði í lúkunum á Steele.
Uppbótartíminn reyndist vera sjö mínútur og voru heimamenn líklegri til afreka framan af og eftir langa sókn fengu þeir hornspyrnu. Upp úr henni kom svo annað mark Brighton eftir fyrirgjöf frá Adingra á fjærstöngina þar sem Joao Pedro var einn og óvaldaður og stangaði boltann í hitt hornið frmahjá Onana. 2-1.
Þær 90 sekúndur sem eftir lifðu leiks dugðu skammt til að jafna og leiknum lauk með heimasigri.
Pælingar eftir leik
Liðið virkar ekki í leikformi. Það dettur niður krafturinn þegar líða tekur á fyrri hálfleik og í síðari virkaði liðið þreytt og þunglamalegt. Spilamennskan út frá aftasta manni var mjög góð framan af en eftir því sem leikmenn þreyttust varð meira um að boltanum væri húrrað fram og við unnum ekki marga af þeim boltum. Há varnarlína Brighton var til fyrirmyndar en sendingar inn fyrir vörnina virkuðu ekki í takt við hlaupi, ólíkt því sem var til staðar í Fulham leiknum.
Varnarlínan virkar eins og hún hafi ekki spilað lengi saman enda er sú raunin en kæruleysi og skortur á einbeitingu öllum stundum verður þess valdandi að við fáum á okkur þessi tvö mörk. Þó voru Dalot og Mazraoui flottir gegn Mitoma og Minteh í dag.
Vissulega var óheppni að við setjum boltann tvívegis í netið en mörkin dæmd af vegna rangstöðu. Skiptingarnar í leiknum í dag fannst mér ekki breyta miklu en ég skal samt leyfa mér að draga það í efa að við sjáum óbreytt lið gegn Liverpool.
3 stig eftir tvo leiki er enginn heimsendir en ef leiknum hefði lokið með jafntefli hefði staðan verið allt önnur. Þá hefði verið hægt að tala um betri árangur en í fyrra þar sem United tapaði stigum gegn Fulham og Brighton á síðustu leiktíð. En næsti leikur er gegn Liverpool oá Old Trafford áður en pín og kvöl landsleikjahlésins tekur við.