Sumir sunnudagar eru einfaldlega meira spennandi en aðrir sunnudagar. Þannig er það einmitt með þennan sunnudag fyrir okkur sem höldum með Manchester United. Þá eigum við ekki bara eitt heldur tvö lið sem eru að berjast á toppnum í sínum deildum. Bæði karla- og kvennalið Manchester United munu þá eiga leik á útivöllum gegn liðum sem eru ríkjandi meistari og í 2. sæti í deildunum. Þvílík djöfulsins spenna og fjör!
Við byrjum á Kingsmeadow vellinum í London klukkan 14:30 þar sem kvennalið Chelsea tekur á móti kvennaliði Manchester United. Hægt verður að horfa á leikinn á netinu í gegnum streymisþjónustu deildarinnar eða á Viaplay. Eða á BT Sport 1 ef þú ert í útlöndum.
Strax á eftir þeim leik, klukkan 16:30, hefst svo leikur Liverpool gegn Manchester United á Anfield. Topp, toppslagur af bestu gerð. Sá leikur verður í góðum höndum hér á Íslandi hjá Síminn Sport en Sky Sports sér um hann ef þið eruð í útlöndum.
Helstu upplýsingar (TL;DR hlutinn)
Ég minni á að við hittumst í vikunni til að taka upp Djöflavarp sem var ágætis upphitun fyrir þessa helgi. Þið getið hlustað á þáttinn hérna:
En þá að helstu upplýsingum um leikina sjálfa.
Karlarnir
Liverpool mætir Manchester United á Anfield í Liverpool.
Toppslagur í úrvalsdeild karla í knattspyrnu á Englandi.
18. umferð, sunnudaginn 17. janúar 2021, klukkan 16:30.
Staðan í deildinni áður en umferðin hófst:
Dómari: Paul Tierney
Mögulegt byrjunarlið:
Ég stilli þessu upp sem 4-2-3-1 en býst samt frekar við að þetta verði nær því að vera 4-4-2 demantur eða jafnvel wonky 4-2-2-2.
- Myndir þú vilja sjá byrjunarliðið einhver veginn öðruvísi? Settu það þá endilega í komment hér fyrir neðan
Konurnar
Chelsea tekur á móti Manchester United á Kingsmeadow vellinum í London.
Þetta verður 11. leikur United, 10. leikur Chelsea, í úrvalsdeild kvennaliða í knattspyrnu á Englandi.
Sunnudaginn 17. janúar 2021, klukkan 14:30.
Staðan í deildinni áður en umferðin hófst:
Dómari: Rebecca Welch
Mögulegt byrjunarlið:
Stoney hefur oftast látið liðið spila 4-2-3-1 en þurft að rótera mikið á leikmönnum vegna meiðsla og veikinda. Síðustu tveir leikir hafa verið spilaðir í 4-3-3 en mér finnst samt líklegra að liðið fari aftur í 4-2-3-1 í þessum leik.
- Hefurðu skoðun á byrjunarliðinu í þessum leik? Hentu því endilega í komment hér fyrir neðan.
Fyrir þau sem vilja langlokuna
Það er bara of langt í þetta ennþá. Af hverju gat þessi veisla ekki bara verið á laugardegi? Það er langt síðan undirritaður hefur verið jafn peppaður í fótboltaleik eins og hann er í þessa tvo leiki. Förum aðeins nánar yfir þetta allt saman. Byrjum á körlunum.
Liverpool gegn Manchester United
Við sjáum þetta ekki á hverju ári, að þessir miklu erkifjendur séu báðir á toppi deildarinnar þegar liðin mætast.
Manchester United hefur verið á betra skriði að undanförnu en Liverpool er hættulegt lið sem er sérstaklega öflugt á heimavelli. Manchester United hefur hins vegar verið öflugt á útivöllum í deildinni. Síðasta tap Manchester United í deildinni kom einmitt á Anfield, síðan eru liðnir 15 leikir sem liðið hefur spilað á útivöllum í deildinni án þess að tapa. 12 þeirra hafa verið sigurleikir.
Það er þó enn lengra síðan Liverpool tapaði síðast deildarleik á Anfield. Liðið hefur ekki tapað á Anfield í deildinni síðan Sam Allardyce mætti með Crystal Palace á Anfield í apríl 2017 og hirti öll 3 stigin með sér heim í stóru bjórglasi.
Andstæðingurinn
Liverpool er, því miður, ríkjandi Englandsmeistari. Því miður.
Liðið hefur fengið rólegar vikur að undanförnu, miðað við mörg önnur lið á Englandi. Þeir undirbjuggu jólin vel með því að detta út úr deildarbikarnum í október og þurftu því hvorki að spila deildarbikarleik á Þorláksmessu né í byrjun árs. Að auki fengu þeir ríflegan tíma upp úr áramótum þar sem þeir þurftu ekki að spila fyrr en 4. janúar. Til að bæta ofan á þessa chilluðu jóladagskrá hjá Liverpool þá fengu þeir krakkalið Aston Villa í léttum æfingaleik í enska bikarnum og þurftu svo ekki að taka aukaleik í deildinni í vikunni fyrir þennan leik.
Samt tókst þeim að tapa stigum og leik. Og kvörtuðu yfir álagi. Og reyndu að beina fókus á dómara og VAR fyrir leikinn gegn Manchester United. Vonum að sálfræðitaktíkin/vælið virki ekki hjá þeim.
Liverpool hefur verið á leiðinlega miklu skriði undanfarin 2-3 ár en hafa verið að hiksta undanfarnar vikur. Þeir steinlágu gegn Aston Villa í haust og töpuðu svo verðskuldað gegn Southampton í síðustu umferð. Þar fyrir utan hafa þeir gert jafntefli við Everton, Manchester City, Brighton, Fulham og Newcastle á útivöllum í vetur og Sam Allardyce og félögum í WBA á heimavelli.
Það er eitthvað smávegis um meiðsli hjá þeim. Munar líklega eitthvað aðeins um Virgil van Dijk í vörninni. Joe Gomez er líka meiddur, Diogo Jota, Naby Keita og Joel Matip. Matip gæti þó mögulega náð þessum leik.
WhoScored.com spáir þessu byrjunarliði hjá Liverpool:
Þetta verður 200. deildarleikur Jurgen Klopp við stjórnina hjá Liverpool. Við viljum endilega gera okkar besta til að hann geti ekki haldið almennilega upp á það.
Markahæstu leikmenn Liverpool í deildinni eru Mo Salah (13 mörk), Sadio Mané (6 mörk), Roberto Firmino (5 mörk) og Diogo Jota (5 mörk). Stoðsendingahæstir eru Andy Robertson með 5 stoðsendingar og svo eru Mo Salah og Roberto Firmino báðir með 3 stoðsendingar.
Trent Alexander-Arnold var einn besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili en hefur ekki verið eins góður á þessu tímabili. Hann fékk Covid fyrr í vetur og það hefur mögulega verið að angra hann eitthvað eftir að hann jafnaði sig formlega af þeim veikindum. Hann getur þó alltaf poppað upp sem hætta í sóknarleik Liverpool og er kominn með 2 stoðsendingar í deildinni til þessa.
Okkar lið
Ég ætla að byrja á að setja aftur inn mögulegt byrjunarlið fyrir leikinn:
Það er þó spurning hvort Solskjær reyni að koma eitthvað á óvart í uppstillingunni, t.d. með þremur miðvörðum eða breyttum áherslum einhvers staðar á vellinum. Eins er spurning hvort Matic verði akkeri á miðjunni, hvort Martial sé tilbúinn í leikinn og byrji og hvort Solskjær vilji frekar nota Lindelöf í miðri vörninni en Bailly.
Á blaðamannafundi fyrir leikinn vildi Solskjær bara staðfesta meiðsli hjá Phil Jones og Brandon Williams. Hvorugur þeirra hefði nokkurn tímann komið til greina í byrjunarliðið í þessum leik hvort sem er svo það skiptir engu máli, þeir hefðu líklega aldrei náð einu sinni á bekkinn.
Victor Lindelöf missti af síðasta leik vegna meiðsla. Martial fór meiddur af velli gegn Burnley og Matic virtist líka meiðast undir lokin. Það er spurning hvort þeir geti tekið einhvern þátt í þessum leik.
Markahæstur okkar manna í deildinni er meistari Bruno Fernandes, með 11 mörk. Á eftir honum kemur Dr. Marcus Rashford með 7 mörk. El Matador Cavani er síðan þriðji með 3 mörk í deildinni. Bruno Fernandes er líka bestur þegar kemur að stoðsendingum, með sjö slíkar sendingar í deildinni. Sir Marcus Rashford kemur einnig þar á eftir, með 5 stoðsendingar. Hann hefur verið sérstaklega afkastamikill á útivöllum í vetur. Í þriðja sæti kemur svo Anthnoy Martial. Frakkinn hefur ekki skorað eins mikið og í fyrra, ekki eins mikið og við hefðum viljað, en hann er þó búinn að leggja upp 3 mörk til viðbótar við þau tvö sem hann hefur skorað.
Paul Pogba er ekki kominn með stoðsendingu í deildinni. Það er ansi magnað miðað við hvað hann hefur oft verið mikill lykill í þeim sóknum Manchester United sem hafa skilað mörkum. Oftar en ekki gefur hann sendinguna sem splundrar vörninni, næstu sendingu á undan stoðsendingunni. Eða sendinguna sem startar sókninni. Hann er búinn að vera heilt yfir flottur og þegar hann er virkilega on þá eru fáir betri en hann.
Bruno Fernandes
Bruno Fernandes er ansi góð auglýsing fyrir það að það getur verið sniðugt að henda í eins og ein góð janúarkaup við og við. Frammistaða hans á árinu 2020 var gjörsamlega stórkostleg. Það var ekki betri fótboltaleikmaður í öllu Englandi og jafnvel þótt víðar væri leitað.
Hann kláraði árið líka á meti með því að vera valinn leikmaður mánaðarins í desember. Það hefur enginn annar leikmaður fengið þessa útnefningu fjórum sinnum á sama árinu áður. Hann er þar að auki búinn að jafna Cristiano Ronaldo, Thierry Henry, Dennis Bergkamp, Paul Scholes, Alan Shearer og Frank Lampard í fjölda skipta sem þeir voru valdir leikmenn mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Aðeins 5 leikmenn í sögu úrvalsdeildarinnar hafa oftar verið valinn leikmaður mánaðarins. Hvílíkur leikmaður!
https://twitter.com/ManUtd/status/1350050296718880769?s=20
Bruno hefur verið heldur daufari en vanalega í síðustu tveimur leikjum sem hann spilaði, gegn Manchester City í deildarbikarnum og svo gegn Burnley. Það er vonandi að hann sé bara búinn að taka það út og mæti ferskur á Anfield.
Dómarinn
Paul Tierney er jólabarn, fæddur á sjálfan jóladag árið 1980. Hann kemur frá Wigan og hefur dæmt í úrvalsdeildinni frá árinu 2014. Hann fékk þó fyrstu úrvalsdeildarreynsluna sem aðstoðardómari tímabilið 2008-09.
Á árinu 2020 dæmdi Tierney þrjá leiki með Manchester United og 5 leiki með Liverpool. Í þessum leikjum dæmdi hann sitt hvora vítaspyrnuna gegn þessum liðum en enga þeim í hag. Leikirnir sem hann dæmdi hjá United voru:
- Manchester United 0:0 Wolves (frumsýning á Bruno)
- Manchester United 1:1 West Ham (West Ham fékk VAR-víti, hendi á Pogba)
- Everton 1:3 Manchester United
Í leikjunum fimm sem Tierney dæmdi hjá Liverpool á árinu 2020 þá vann Liverpool 3 þeirra, gerði eitt jafntefli og tapaði einum.
Chelsea gegn Manchester United
Áður en karlarnir mæta til leiks er þó stórleikur í kvennaboltanum þar sem okkar konur fara í heimsókn til Chelsea. Mælum með að sem flest ykkar fylgist með okkar frábæra kvennaliði en þær hafa verið á góðu skriði í vetur.
Covid hefur farið heldur verr með kvennadeildina en karladeildina það sem af er vetri. Tveimur leikjum hjá Chelsea var frestað fyrir áramót vegna Covid og um síðustu helgi þurfti að fresta 5 af 6 leikjum í úrvalsdeildinni vegna Covid-smita. Eini leikurinn sem var spilaður var leikur Chelsea gegn Reading, sem Chelsea vann með 5 mörkum gegn engu. Chelsea komst þar með í annað sæti deildarinnar, þremur stigum frá Manchester United, en með leik til góða.
Andstæðingurinn
Chelsea er ríkjandi Englandsmeistari í fótbolta. Liðið vann deildina á síðasta tímabili á meðalfjölda stiga á leik þar sem tímabilið var flautað af vegna Covid. Chelsea hefur þar að auki verið eitt besta lið Englands síðustu ár.
Liðið hefur þrisvar unnið úrvalsdeildina á síðustu árum, fyrst árið 2015, svo veturinn 2017-18 og nú síðasta tímabil. Þær unnu líka enska bikarinn 2015 og 2018, deildarbikarinn 2020 og samfélagsskjöldinn fyrir þetta tímabil. Þær eru núna að taka þátt í Meistaradeild Evrópu í fimmta skiptið. Í síðustu tvö skipti komust þær alla leið í undanúrslit. 2018 mættu þær Söru Björk og félögum í Wolfsburg og töpuðu því einvígi samtals 1-5. Chelsea skoraði fyrsta markið en eftir að Sara Björk jafnaði leit Wolfsburg aldrei um öxl og kláraði dæmið. Árið 2019 mættu þær verðandi félögum Söru Bjarkar í Lyon í undanúrslitum og töpuðu því einvígi 2-3.
Pernille Harder
Fyrir þetta tímabil fékk Chelsea til sín Pernille Harder, sem af mörgum er talinn besti leikmaður heims, frá Wolfsburg. Í Þýskalandi hafði Harder átt stóran þátt í að Wolfsburg varð deildar- og bikarmeistari fjögur tímabil í röð, auk þess að komast tvisvar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Harder var fyrir jól útnefnd á toppnum á lista Guardian yfir 100 bestu leikmennina í kvennafótboltanum. Það var í annað skipti sem Harder toppaði þann lista en hún var einnig á toppnum árið 2018. World Soccer tímaritið valdi hana leikmann ársins 2020, UEFA valdi hana leikmann tímabilsins 2017-18 og 2019-20 auk þess sem hún hefur oftsinnis verið valin í úrvalslið heims og Evrópu. Algjör kanóna og akkur af því að fá slíkan leikmann í enska boltann, jafnvel þótt hún sé í vitlausu liði.
María Þórisdóttir
María Þórisdóttir hefur spilað með Chelsea frá árinu 2017. Hún kom þangað frá Klepp í norsku úrvalsdeildinni og hefur unnið deildina tvisvar með Chelsea.
Hún er öflugur miðvörður sem getur leyst bakvarðastöðuna líka. Hún hefur þó ekki verið fastamaður í byrjunarliði Chelsea frá því hún kom þangað. Hún spilaði mest fyrsta tímabilið sitt en þá var hún sjö sinnum í byrjunarliði Chelsea og spilaði samtals í 10 leikjum. Síðan þá hefur hún samtals tekið þátt í 12 deildarleikjum með Chelsea, þar af 4 í byrjunarliðinu. Á síðasta tímabili var hún t.d. aldrei í byrjunarliðinu, tók þátt í 5 leikjum en spilaði aðeins 76 mínútur samtals. Hún nýtti þessar mínútur þó í að skora eitt mark, hennar eina í úrvalsdeildinni til þessa. Það var samt heldur betur mikilvægt mark því það var stórglæsilegt sigurmark gegn Arsenal, einum helsta mótherjanum í baráttunni um deildaritilinn.
Fyrir utan leikina 22 í úrvalsdeildinni hefur María spilað 10 Meistaradeildarleiki fyrir Chelsea (skorað 1 mark), 3 bikarleiki og 12 deildarbikarleiki. Hún spilaði þar á undan 78 leiki fyrir Klepp IL í Noregi (10 mörk) og á einnig 46 A-landsleiki að baki fyrir Noreg (2 mörk). Með Noregi fór hún á HM 2015 og HM 2019.
Í gær komu fréttir um að María Þórisdóttir væri á leið frá Chelsea til Manchester United.
https://twitter.com/M0lly_Writes/status/1350050144541143040?s=20
Það væri svo sannarlega áhugavert að fá íslenskan leikmann í Manchester United. Þótt hún hafi ekki verið í miklu aðalhlutverki hjá Chelsea upp á síðkastið þá er hún samt reynslumikill leikmaður sem gæti komið með ákveðin gæði í hópinn. Hún þyrfti alltaf að sanna sig rækilega áður en hún færi að hóta því að taka stöðu af Amy eða Millie Turner, í versta falli væri hún þó alltaf góður kostur í afleysingarnar. Þar sem Manchester United stefnir á að vera með í Meistaradeild Evrópu á næstu tímabilum þá borgar sig að vera með öflugan hóp og góða breidd.
Okkar lið
Minni á mögulegt byrjunarlið sem ég setti inn hér að ofan:
Það eru þó ýmsir möguleikar í stöðunni, Stoney hefur verið að spila á 4-3-3 í síðustu 2 leikjum og gæti viljað vinna meira með það. Hins vegar var 4-2-3-1 uppleggið framan af tímabili og hefur verið það í öðrum stórleikjum tímabilsins, fyrri leiknum gegn Chelsea og leikjunum gegn Arsenal og Manchester City.
Christen Press missti af desember vegna veikinda. Það er vonandi að hún sé komin á gott skrið aftur en það gæti verið að Stoney myndi vilja láta hana byrja á bekknum og frekar þá nýta hana sem kröftugan varamann. Allt spurning um hversu gott formið er orðið eftir veikindin. Hópurinn er þó stór og öflugur, eins og hefur sýnt sig á tímabilinu.
Leah Galton og Casey Stoney
Bruno Fernandes er ekki sá eini frá Manchester United sem átti frábæran desembermánuð. Leah Galton var valinn leikmaður desembermánaðar í úrvalsdeildinni kvennamegin og Casey Stoney var valinn stjóri mánaðarins.
Þær hafa báðar staðið sig með mikilli prýði það sem af er tímabils. Galton er markahæst hjá Manchester United, hefur skorað 5 mörk og lagt upp 2 til viðbótar. Hún er ein af aðeins þremur sem hafa byrjað alla 10 leikina fyrir Manchester United í deildinni á tímabilinu. Hinar eru markvörðurinn Mary Earps og varnarjaxlinn Millie Turner.
Galton er örvfætt, snögg og áræðin. Hún hefur verið að spila á vinstri kantinum, í vinstri bakverði og jafnvel verið vinstra megin í þriggja manna miðju.
https://twitter.com/ManUtdWomen/status/1350063433777991681?s=20
Casey Stoney hefur þurft að vera á tánum með leikmannahópinn á tímabilinu og mikið þurft að rótera í hinum ýmsu stöðum. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að úrslit hafi náðst. Fyrirfram bjóst undirritaður við að liðið færi inn í þetta tímabil með það markmið að ná Meistaradeildarsæti en Stoney og félagar hafa sett markið hærra en það og eru núna verðskuldað í efsta sæti deildarinnar, taplausar.
Stoney hefur enda verið valinn stjóri mánaðarins tvo mánuði í röð, bæði fyrir nóvember og desember. Hún er að sanna sig sem virkilega flottur stjóri og gaman að sjá hvað leikmenn eins og Leah Galton gefa henni mikið kredit sem þjálfara og knattspyrnustjóra.
https://twitter.com/hunter_mufc/status/1350008002976178177?s=20
Christen Press og Tobin Heath
Það vakti mikla athygli þegar Manchester United fékk tvo reynslumikla leikmenn frá Bandaríkjunum í liðið fyrir tímabilið. Þær Christen Press og Tobin Heath hafa komið mjög vel inn í liðið og hjálpað því að taka ekki bara skref upp á við heldur stökk.
Press hefur ekki náð að spila eins mikið, aðeins náð 3 leikjum í byrjunarliði og 2 öðrum sem varamaður. Hún hefur skorað eitt mark en á mikið inn og vonandi að veikindin aftri henni ekki meira.
Tobin Heath hefur skilað meiru inni á vellinum, hún hefur spilað 8 leiki af 10, þar af 7 í byrjunarliðinu. Hún hefur skorað 4 mörk í þessum leikjum og lagt upp 2.
Þá er alveg ljóst að reynslan og sigurhugarfarið sem þær hafa báðar komið með inn í hópinn hefur skilað sér til hinna leikmannanna. Leah Galton minntist sérstaklega á það í viðtali við The Guardian.
https://twitter.com/MUWomenXtra/status/1350012959339274240?s=20
Dómarinn
Rebecca Welch er 36 ára gömul og með 10 ára reynslu af því að dæma fótboltaleiki. Hún hefur dæmt í úrvalsdeildinni í 3 ár, hefur dæmt 6 leiki í Meistaradeildinni auk þess að hafa dæmt leiki í undankeppnum EM og HM landsliða.
Hún hefur dæmt einn leik áður hjá Manchester United, það var í Manchester slagnum í byrjun síðasta tímabils. Þá vann City leikinn á heimavelli sínum 1-0 en við vonum að það gangi betur hjá okkar konum í þessum leik.