Í desember voru tvö ár liðin frá því Ole Gunnar Solskjær tók fyrst við Manchester United, daginn eftir að José Mourinho var rekinn. Með leiknum gegn Burnley voru búnir 17 leikir, jafnmargir og þegar Mourinho hætti. Og næsti andstæðingur, Liverpool var sá síðasti hjá Portúgalanum. Staðan nú er hins vegar að United fer inn í helgina í efsta sæti meðan liðið var í því sjötta þegar loks var komið nóg hjá Jose.
Þetta er því viðeigandi tímapunktur til að fara yfir genginn veg Ole Gunnars og því djöfluðust Rauðu djöflarnir, Björn, Halldór, Gunnar, Daníel og Þorsteinn á rökstólunum.
Hvernig leið ykkur þegar Mourinho var rekinn?
Enginn sér eftir Mourinho, ljóst að sambönd hans við alla voru komin á endastöð, þótt það hafi komið einhverjum á óvart að stjórnendur liðsins væru tilbúnir að taka erfiðu ákvörðunina, kannski líka því innst inni vonuðu menn eftir að honum tæki að snúa genginu við auk þess sem gagnrýni hans væri oft rétt þótt hún væri óþægileg. Þá var heldur ekki ljóst hvern United gæti fengið í staðinn. „Fyrst og fremst feginn. Þetta var blanda sem virkaði aldrei fullkomlega,“ segir Daníel.
Hvernig leið ykkur þegar Ole Gunnar var tilkynntur sem nýr þjálfari?
Hér má skipta tilfinningum Rauðu djöflanna í tvennt. Annars vegar undrun, hins vegar alveg sama svo framarlega sem nýr maður bjargaði því sem bjargað yrði. Þeir bjuggust þó ekki við að hann yrði mikið lengur en út tímabilið. „Ég var hissa, þetta var ekki stjórinn sem búist var við. Síðan varð ég enn meira hissa þegar fór að ganga vel og liðið spilaði skemmtilegan og góðan bolta,“ segir Björn
„Þetta kom svo fljótt eftir að Mourinho var kvaddur og maður var eiginlega ánægður með alla sem ekki voru José,“ segir Daníel. „Það var ekki ljóst hver tæki við, ég man að Mark Hughes var á lausu. Ég hugsaði með mér að hann þekkti félagið og sagt strákunum að hafa gaman. Ég var sem sagt svo örvæntingafullur að ég hefði þegið Mark Hughes!“ segir Gunnar.
Besti leikurinn undir stjórn Solskjær?
Tveir leikir standa upp úr, báðir úr Meistaradeildinni. Annars vegar sigurinn í París sem Þorsteinn talar réttilega um sem „kraftaverk“ fremur en einstaklega góðan leik. Þar virðist 5-0 sigurinn á Leipzig frekar hafa vinninginn. Dæmi um aðra leiki eru 4-0 gegn Chelsea heima haustið 2019, fyrsti leikurinn gegn Cardiff, 2-0 gegn City fyrir Covid og 6-2 gegn Leeds.
Versti leikurinn undir stjórn Solskjær?
Hér eru afar skiptar skoðanir. Engir tveir nefna sama leikinn sem þann versta, en tveir minnast á 0-2 tapið gegn Burnley f. Br. (fyrir Bruno), 1-6 tapið gegn Tottenham í haust og ósigurinn gegn Leipzig. Aðrir leikir sem nefndir voru eru 4-0 gegn Everton og 0-0 gegn Cardiff vorið 2019, Sevilla í undanúrslitum Evrópudeildarinnar og 2-1 gegn Basaksehir í haust.
Hver er mesti styrkleiki Ole Gunnar?
Hann þekkir Manchester og félagið. Solskjær er viðkunnanlegri en flestir og fær því bæði stuðningsmenn og leikmenn með sér. Flestir þeirra leikmanna sem komið hafa til liðsins hafa reynst vel, hann leitar að sterkum persónuleikum og honum hefur tekist að selja menn stórátakalaust. Þá hefur honum tekist að þjálfa upp gott skyndisóknalið.
Hver er mesti veikleiki Ole Gunnar?
Stærsta gagnrýnin snýr að því að ekki sé nógu skýrt hvers konar leikkerfi eða bolta hann vill spila. „Það er ágætt að vera sveigjanlegur en öllu má ofgera. United þarf að minnsta kosti eitt fast leikkerfi sem að allir kunna uppá tíu,“ bendir Daníel á.
Einnig er bent á þjálfunina, liðið fái á sig of mikið af ódýrum mörkum, einkum úr föstum leikatriðum, sem ætti að vera hægt að koma í veg fyrir og að Solskjær kunni að vera of þægur gagnvart yfirstjórninni.
Og að lokum er það stóra spurningin: Samningur Solskjær gildir út næstu leiktíð en fyrr en seinna þarf að huga að framtíðinni. Hvað þarf hann að afreka til að verðskulda nýjan samning eða hvenær forsendurnar fyrir störfum hans bresti?
Djöflarnir eru sammála að heilt yfir hafi hlutirnir þróast í rétta átt hjá Solskjær og ljóst að sæti hans sé öruggt, nema botninn detti algjörlega úr leik liðsins þannig það tapi fjölda leikja í röð. „Mér finnst hann sá stjóri eftir Sir Alex sem hefur náð að bæta hópinn og einstaklinga yfirburða mest,“ segir Þorsteinn.
En stuðningurinn er ekki skilyrðislaus, Solskjær verður að sanna að liðið sé í framför. „Ef hann kemur með dollu í hús eða nær öruggu Meistaradeildarsæti þá má hann líklega vera áfram. Ef hvorugt af því tekst þá þyrfti eitthvað sérstakt að koma til svo ég sæi hann fá sénsinn lengur,“ segir Halldór og bætir við að liðið hafi nokkrum sinnum klikkað á ögurstundu, undanúrslitaleikjum og lokaleik Meistaradeildarriðilsins. „Hann þarf að sýna að hann geti tekið næsta skref.“
Hvað finnst þér? Láttu okkur heyra það í athugasemdum hér fyrir neðan eða samfélagsmiðlum.