Donny van de Beek er orðinn leikmaður Manchester United og þar með eru fyrstu kaup sumarsins dottin í hús. Talið er að kaupverð sé um 40 millj. evra (35,7 millj. punda) fyrir þennan 23 ára Hollending og klásúlur upp á fimm milljónir evra að auki. Donny van de Beek er fæddur þann 18. apríl á því herrans ári 1997 í smábænum Nijkerkerveen en árið 2008 hóf hann að æfa með yngri liðum Veensche Boys en gekk árið 2012 til liðs við Ajax enda faðir hans var mikill stuðningsmaður liðsins.
https://twitter.com/ManUtd/status/1301195227022196737
Árið 2015 braust Donny van de Beek inn í byrjunarlið Jong Ajax, sem er varalið Ajax og spilar í næstefstu deild þar í landi, þar sem hann spilaði 35 leiki og gerði í þeim átta mörk. Til að kóróna þá frammistöðu hlaut hann svo Ajax Talent of the Future verðlaunin í lok leiktíðarinnar. Samhliða ört vaxandi orðspori innan Ajax Akademíunnar og síðar með varaliðinu var hann valinn í landsliðsverkefni með yngri landsliðunum og hefur van de Beek spilað með U17, U19, U20 og U21 landsliðum Hollands og á 41 leik að baki með þeim öllum samanlagt.
Sama ár kallaði Frank de Boer hann inn í liðið með aðalliði Ajax og í nóvember spilaði hann sinn fyrsta Evrópudeildarleik gegn Celtic, þá aðeins 18 ára gamall. Síðan þá hefur hann leikið 118 leiki með liðinu og skorað í þeim 28 mörk og rækilega stimplað sig inn sem fastamaður í liðinu. Á þessari leiktíð lék hann 23 leiki af 25 og skoraði 8 mörk fyrir Ajax en eins og flestum er kunnugt þá var hætt við hollensku Erdievisie deildina COVID-19 og ákveðið að byrja nýtt tímabil án þess að ljúka síðasta tímabil. Tímabilin tvö þar áður spilaði hann hins vegar alla 34 leikina í deildinni fyrir liðið.
Þessir 2 leikir í deild sem hann missti af vegna smávægilegra meiðsla eru því þeir einu síðustu þrjú tímabil og hann hefur ekki verið í vandræðum með meiðsli, nokkuð sem ætti að gleðja stuðningsmenn United.
Van de Beek er mjög fjölhæfur leikmaður sem leikur yfirleitt á miðjunni hjá Ajax en á síðustu leiktíð spilaði hann 20 leiki sem hrein sexa, þrjá leiki í holunni og sex leiki sem varnarsinnaður miðjumaður. Hann er samt sem áður ekki talinn efniviður í sterkan afturliggjandi miðjumann en sexan virðist vera hans sterkasta staða ef marka má fyrrum þjálfara hans, Frank de Boer. En United er nú þegar með einn hæfileikaríkasta miðjumann heims í þeirri stöðu, Paul Pogba og ekki mun hann ýta Bruno Fernandes úr liðinu og því ekki úr vegi að velta fyrir sér hvernig leikmaður eins og van de Beek mun henta United ef hann á ekki að spila sem varnarsinnaður miðjumaður.
Fyrst ber að skoða helstu styrkleika hans og leikstíl en hann er mjög ólíkur bæði Pogba og Bruno þar sem hann býður ekki upp á sömu líkamlegu yfirburði og Pogba né heldur er hann sami leikstjórnandi og Bruno heldur liggja hans gæði annars staðar. Hann er mjög kraftmikill og duglegur miðjumaður sem hentar einstaklega vel í að pressa andstæðinginn eins og pressukerfi Erik den Haag gengur út á og til marks um það þá voru fáir leikmenn sem hlupu meira per 90 mín. en van de Beek í Meistaradeildinni fyrir ári síðan.
Hann er útsjónarsamur og með góða svæðisvitund sem sést vel þegar liðið er með boltann, þar sem hann er duglegur að skapar svæði fyrir sig eða samherja sína. Þá er hann einnig naskur þegar kemur að því að koma auga á stungur bakvið varnarlínu andstæðinganna sem virkar einstaklega vel þegar vængmennirnir spila nálægt hliðarlínunni og teygja vel á línunni eins og Jadon Sancho er duglegur að gera *hóst*. Hann kýs þó yfirleitt að spila boltanum stutt og takar frekar sjálfur hlaup inn í svæði og verður stundum að auka framherja í sókninni en hefur þó bæði hraðann og getuna til að vinna til baka þegar boltinn tapast.
Þá er hann einnig með góða fyrstu snertingu á boltanum, á auðvelt með að snúa og búa til svæði og athafna sig með boltann og mun eflaust ekki eiga í miklu vandræðum með að aðlagast hraðanum í enska boltanum eins og margir erlendir leikmenn. Þótt fyrirferðin á honum sé ekki sambærileg við Pogba þá er hann engu að síður 183 cm á hæð og engin písl og andstæðingum reynist oftar en ekki snúið að ná af honum tuðrunni. Þá á hann einnig auðvelt með að tímasetja hlaupin hjá sér og hvenær hann þarf að halda aftur af sér sem verður til þess að hann finnur oft þau pláss sem verða til þegar varnar- og miðjumenn andstæðinganna fara úr stöðu.
Hann nýtist langtum best þegar hann þarf ekki að vera aftasti miðjumaðurinn, enda voru þeir Lasse Schöne og Frenkie de Jong sem skiptust á að spila fyrir aftan hann til að gefa honum frjálsara hlutverk á vellinum. Sóknartilburðir hans eru mun íburðarmeiri en varnarvinnan þó hann sé hörkugóður þegar kemur að tæklingum og pressu, enda var hann með 0,61 aðkomu að marki í leik (mörk + stoðsendingar á 90 mín að undanskildum vítum) á nýafstöðnu tímabili og 0,70 í fyrra.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1300197921024073734
Engu að síður er varasamt að fara í hreinan samanburð á tölfræði við aðra leikmenn United, hvort sem um ræðir Fred, Pogba, Bruno, Pereira, McTominay, Mata eða Lingard. Í fljótu bragði virðist hér vera kominn leikmaður sem býður upp á eitthvað af öllu, altmuligmand, sem getur gert það sem Ole Gunnar Solskjær treysti ekki neinum til að gera vel á síðustu leiktíð, þ.e. leysa Bruno og Pogba af án þess að liðið missi dampinn í leikjum. Donny van de Beek er að öllum líkindum hugsaður sem varamaður (að minnsta kosti til að byrja með) sem getur komið inn á af bekknum og boðið upp á breytingar sem geta skilað sér þegar krydda þarf upp á sóknarleik liðsins.
Hér er líka kominn leikmaður sem gæti fengið liðið til að virka í 4-4-2 tígulmiðju leikkerfið sem Solskjær reyndi að nota gegn Everton. Þá væri Matic dýpstur, Pogba og van de Beek á miðjunni og Bruno í holunni fyrir aftan tvo framherja, Rashford og Martial líklegast. Þá veitir van de Beek okkur líka ákveðið öryggi því eins og glöggir stuðningsmenn muna þá var Pogba varla með okkur á síðustu leiktíð og eflaust einhverjir sem tóku líka eftir því hve þreyttur Bruno virtist vera eftir að hafa spilað nánast hvern einasta leik síðan í janúar. Hér er líka um að ræða ungan, hungraðan leikmann með Meistaradeildarreynslu sem hefur brennandi áhuga á því að koma í ensku deildina og þarf vart að efast um gæði hans þegar hann virtist vera Plan B fyrir Real Madrid þegar ljóst var að Pogba færi ekki fet. Ásamt Real var hann einnig eftirsóttur af Bayern, Barcelona og fleiri stórliðum og hugsanlega hefði United ekki mátt bíða mikið lengur með kaupin áður en R. Koeman hefði náð að lokka hann til Katalóníu.
En það sem er ef til vill einna skemmtilegast við þessi kaup er einmitt það hvernig þeim var háttað, United hafði verið þrálátlega orðað við Jack Grealish frá Aston Villa á sirka 80 millj. punda en svo á mettíma, að því er virðist, er United búið að klófesta Donny van de Beek á klink miðað við verðmiðann á Grealish. Það er allt ó-Unitedlegt við þessi kaup; lítið sem ekkert umtal þótt vissulega hafi hann verið orðaður við United þá virkaði það bara sem enn ein tilraunin til að hækka á honum verðmiðann. Samningar tóku enga stund og United virðist ekki hafa dregið þær á langinn. United þurfti ekki að borga United-tollinn eins og af flestum öðrum leikmönnum. Það læðist að mér sá grunur að góðvinur okkar Edwin van der Saar hafi átt þátt í því að hlutirnir gengu svona smurt fyrir sig og boðar mjög gott ef United og Ajax viðhalda þessu góða samstarfi í nánustu framtíð.
Núna er sumarið hafið hjá Manchester United og verður að viðurkennast að þetta er spennandi byrjun á sumar/haustkaupum Solskjær. Betur má ef duga skal sagði einhver og nú þarf stjórnin að nýta skriðþungann til að klára nokkra leikmenn í viðbót til að Solskjær standi ekki eftir eins og fiskur á þurru landi á næsta tímabili. Miðvörður og hægri kantmaður ættu að vera í forgangi en vinstri bakvörður eða djúpur miðjumaður kæmu sér einnig vel, meira að segja hefðum við pláss fyrir annan framherja. Háværasta slúðrið í sumar hefur snúið að þeim Jadon Sancho(RW), Benoit Badiashile(CB), Thiago Alcantara(CDM), Moussa Dembele(ST) og Dayot Upamecano(CB) en glugginn lokar núna í október.