Í kvöld fór fram næst seinasti deildarleikur Manchester United á þessari óvenjulegu leiktíð. David Moyes mætti með sína menn í West Ham á Old Trafford, völl sem hann hefur aldrei unnið á með gestaliði.
Solskjær stillti upp frekar fyrirsjáanlegu liði að undanskildum bakvörðunum. Hann hefur greinilega ekki treyst því að Luke Shaw sé orðinn 100% og þá var Aaron Wan-Bissaka hvíldur.
Bekkur: Romero, Dalot, Wan-Bissaka(’46), Fred, James, Lingard, Mata, McTominay, Ighalo(’85).
David Moyes stillti upp sínu sterkasta mögulega liði, a.m.k. miðað við leikform leikmanna Hamranna.
Bekkur: Randolph, Balbuena, Masuaku(’75), Wilshere, Lanzini, Coventry, Yarmolenko(’90), Anderson, Haller(’78).
Leikmenn Manchester United virtust ætla sér stóra hluti í þessum leik miðað við upphafsmínúturnar og áttu nokkur færi framan af en Lukas Fabianski í marki gestanna sá við skotum frá Anthony Martial og Mason Greenwood. West Ham lágu djúpt á vellinum og leyfðu United að koma ofarlega á völlinn og freistuðu þess að vera þéttir og vel skipulagðir. Þeir áttu fyrstu alvöru sókn sína eftir um tíu mínútna leik.
Þegar korter var liðið af leiknum fékk Bruno ágætis sendingu frá Marcus Rashford en fyrsta snertingin brást honum og ekkert varð úr færinu. Portúgalinn hefði verið kominn í gráupplagt færi ef hann hefði náð stjórn á boltanum. Hinu meginn á vellinum tókst Angelo Ogbonna að komast í færi en skalli hans framhjá markinu.
Næstu tíu mínútur gerðist lítið sem ekkert og í rauninni einkenndist þessi leikur mikið af miðjumoði og ekki mikið um opin færi. Rashford átti ágætt skot þar sem boltinn flökkti í loftinu á leið til Fabianski sem gerði vel og kom boltanum frá. Fyrsta dauðafærið kom á 39. mínútu þegar Rashford stakk boltanum inn í vítateiginn fyrir Brandon Williams sem sendi varnarmann gestanna útaf vellinum með góðri gagnhreyfingu og setti boltann fyrir markið þar sem Martial átti skot en skotið hans fór beint í vörnina.
Michael Antonio, sem hefur verið funheitur og skorað mest allra eftir pásuna (ásamt Sterling), fékk annars ágætisfæri þegar Ben Johnson setti boltann fyrir markið eftir góða sendingu frá Declan Rice. Antonio tókst hins vegar bara að stjaka við Lindelöf í baráttunni um boltann en fékk boltann í sig um leið og beint í fangið á David de Gea í markinu.
En síðan fór að draga til tíðinda. Timothy Fosu-Mensah fékk fyrsta gula spjaldið fyrir skrautlega tæklingu nokkra metra fyrir utan teig. Rice átti fast skot í átt að markinu sem hafnaði að því að er virtist í andlitinu á Paul Pogba en eftir að VAR-sjáin hafði skoðað atvikið betur sást að sá franski bar hendurnar fyrir andlitið og því dæmd vítaspyrna.
Það var einsog það væri skrifað í skýin, á punktinn steig hinn funheiti Antonio sem renndi boltanum í hitt hornið eftir að hann gabbaði de Gea með stuttu tilhlaupi. 0-1 og David Moyes og hans menn fóru inn í klefann í hálfleik með bros á vör en þyngra var yfir þjálfarateymi United.
Fram að þessu var leikurinn búinn að vera ansi mikil einstefna í hina áttina, þó án þess að mikil hætta hefði skapast fyrir framan mark gestanna og því áhugavert að sjá hvernig liðið myndi bregðast við þessum mótvind.
Síðari hálfleikur
Solskjær var greinilega nóg boðið í hálfleik og tók Timothy Fosu-Mensah útaf og setti Wan-Bissaka inn á í hans stað. Það virðist eitthvað hafa skilað sér úr hálfleiksræðu Solskjær þar sem leikmenn United mættu hungraðir til leiks. Einstefnan hélt áfram og skilaði sér fljótlega eftir að Pogba kom boltanum á Anthony Martial rétt fyrir utan vítateig. Sá franski kom boltanum fljótt á Mason Greenwood og spiluðu þeir tveir lagleg þríhyrningaspil sín í milli þar til Greenwood fékk nóg pláss fyrir miðju marki og hamraði boltann framhjá Fabianski og jafnaði þar með metin. 1-1 og nægur tími til stefnu til að klára leikinn.
Jarod Bowen átti fyrsta tækifæri gestanna í síðari hálfleik með skot sem fór af Williams en de Gea gerði gífurlega vel í að blaka boltanum yfir markið og koma í veg fyrir að West Ham tæki forystuna að nýju. Stuttu síðar var Martial nálægt því að komast einn inn fyrir en mistókst að klobba aftasta varnarmann gestanna og færið rann út í sandinn.
United hélt áfram að stjórna leiknum en án þess að vera mjög beinskeyttir og alls ekki hættulegir. Mason Greenwood var reyndar sífellt að valda varnarmönnum West Ham vandræðum og fór illa með Masuaku á hægri kantinum eftir að sá síðarnefndi kom inn á í stað Cresswell. Greenwood bar boltann upp að endalínunni og átti frábæra sendingu á Odion Ighalo sem var núkominn inn á fyrir Rashford en sá nígeríski hitti boltann ferlega illa og ekkert varð úr færinu.
Í raun var lítið annað sem gerðist í hálfleiknum sem vert er að segja frá, West Ham virtust sáttir við stigið og United virtust orkulitlir eftir stíft leikjaprógram og erfiðan „úrslitaleik“ framundan við Leicester. Bæði lið settu í rólega gírinn og niðurstaðan 1-1 jafntefli sem kemur sér líklega ágætlega fyrir bæði lið, West Ham eru núna tölfræðilega öruggir og United fer upp í 3. sætið að minnsta kosti í smástund.
Eftir leikinn…
Þegar þetta er skrifað er Chelsea 3-1 undir gegn Liverpool og ef þetta verða úrslitin í þeim leik situr United áfram í 3. sætinu fyrir lokaumferðina en annars er hætta á að United detti í 4. sætið. Hins vegar er það deginum ljósara og hefur verið um nokkra hríð að síðasti leikur liðsins, sem er gegn Leicester City á King Power vellinum um helgina, mun hafa úrslitaáhrif á það hvaða lið fara í Meistaradeildina í haust ásamt Liverpool og Man City.
Chelsea á leik við Wolves á heimavelli og verður þá að ná úrslitum þar til að eiga möguleika á að komast í 3. sætið en þeir eru ekki öruggir í top4 ef þeim mistekst að fá stigúr síðasta leiknum. Sama má segja um Leicester. þeir verða að sækja sigur ef þær ætla ekki að veðja á að Chelsea tapi gegn Liverpool og Wolves. En Leicester hafa lent í miklum meiðslum undanfarið og þá asnaðist Soyuncu til að fá beint rautt spjald gegn Bournemouth og verður ekki með. Ben Chilwell og Ricardo Pereira eru frá vegna meiðsla og því líklegt að varnarlína Leicester verið algjör plan B, þar sem Wes Morgan og Johnny Evans eru í hjarta varnarinnar með Ryan Bennett, ungum líttreyndum strák, með Luke Thomas og James Justin í bakvarðarstöðunum.
Það ætti því að vera nóg pláss fyrir M-in okkar þrjú til að setja nokkur á lærlinga Brendan Rodgers og tryggja okkur Meistaradeildarsæti. Sá leikur er á sunnudaginn kl. 15:00.