Í kvöld fór fram síðari viðureign United og Club Brugge eftir að liðin skildu jöfn 1-1 út í Belgíu. Liðið sem átti að koma United áfram var þannig skipað:
Varamenn: De Gea, Lindelöf, Matic, Lingard (’65), Martial, Greenwood (’72) og Chong (’45).
Gestirnir stilltu upp í 4-3-3.
Bekkur gestanna: Horvath, Mitrovic, Sobol, Diatta, De Ketelaere, Krmencik og Schrijvers
Leikurinn
United setti í fluggír frá fyrstu mínútu og eftir tvær, þrjár góðar sóknir þurfti Mignolet að verja þrumuskot frá Juan Mata strax á þriðju mínútu. Club Brugge snéri strax í sókn og það var smá vandræðagangur á Harry Maguire og Okereke var næstum kominn í færi en miðvörðurinn náði að þvælast fyrir og Bailly kom boltanum í burtu.
United fór beint upp og það var Fred sem átti næsta skot og í þetta skiptið varði Mignolet í horn. Aftur átti United gott skotfæri þegar Ighalo lagði boltann í næstu sókn til baka á Bruno sem átti hörkuskot sem Mignolet varði í stöngina.
Á 11. mínútu kom fyrirgjöf frá gestunum sem David de Gea þurfti að kýla út en boltinn endaði hjá Ricco sem tók hann í fyrsta, innanfótar en yfir markið. United menn stálheppnir því þetta hefði getað gjörbreytt stöðunni og komið gestunum í forystu.
Mikill hraði var í leiknum þessar fyrstu mínútur og skömmu síðar komst Bruno í stórhættulegt færi þegar Wan-Bissaka komst fyrir sendingu hjá varnarmönnum Club Brugge en Simon Mignolet var snöggur út á móti þeim portúgalska og varði vel frá honum.
Eftir þetta syrti í álinn hjá gestunum. Simon Deli ákvað síðan að bregða sér í hlutverk markvarðar á 22. mínútu þegar hann varði skot frá Scott McTominay. Frábært skutla en fáránleg ákvörðun hjá Fílabeinstrendingnum en á punktinn steig Bruno Fernandes gegn Mignolet í markinu.
Eitthvað tafðist þó dómgæslan því þótt dómari leiksins hefði sýnt Deli rauða spjaldið án mikillar umhugsunar þá leið dágóður tími þar til Bruno fékk að taka spyrnuna. En loksins á 27. mínútu flautaði dómarinn og Bruno endurtók leikinn frá því um helgina, tók sitt laglega hopp, villti um fyrir Belganum og sendi hann í vitlaust horn.
1-0 og United manni fleiri á heimavelli og einvígið farið að líta ansi vel út fyrir rauðu djöflana. Eftir markið færðist örlítil ró yfir leikinn þótt United héldu áfram pressunni. Mata og Bruno voru duglegir að finna pláss á milli varnar og miðju gestanna og á 33. mínútu átti McTominay frábæra stungusendingu á Daniel James sem átti því miður arfaslakt skot framhjá úr stórhættulegu færi.
Strax í kjölfarið var Bruno enn eina ferðina kominn með boltann út við vítateigsvinkilinn og fékk að dansa þar og snúa oftar en ég fékk talið, endaði á að stinga inn fyrir vörnina á spænska snillinginn sem náði að senda boltann fyrir markið. Þar var enginn annar en nígeríski prinsinn okkar mættur, Odion Ighalo, sem hefur eflaust sjaldan fengið mark á jafnmiklu silfurfati og í dag. Hann potaði tuðrunni yfir línuna, 2-0 og fyrsta markið frá Nígeríu mætt og vonandi ekki það síðasta á tímabilinu.
Ighalo notaði tækifærið og minntist systur sinnar sem lést í desember, 43 ára að aldri. Örlitlu eftir markið kom Ighalo sér í álitlegt færi með mann á öxlunum en Mignolet var ekki á því að leyfa honum að skora svo fljótt aftur og kastaði sér laglega niður og varði boltann.
Honum tókst þó ekki að halda markinu hreinu mikið lengur en það. United vann boltann hátt upp á vellinum eftir laglega pressu út við hornfánann og boltinn barst til Fred sem bar boltann inn í teiginn, dróg varnarmennina í sig og lagði boltann út fyrir McTominay sem lét boltann svífa í fallegan boga út við stöngina svo boltinn söng í netinu. 3-0 og einvígið svo gott sem búið og tími til að leyfa kjúklingunum að spreyta sig í síðari hálfleik og hvíla lykilleikmenn fyrir erfiðan útileik gegn lærisveinum Ancelotti í Everton.
Síðari hálfleikur
Það var eins og við mátti búast, Tahith Chong kom inn á í hálfleik í stað Daniel James. Lítið marktækt gerðist þar til á áttundu mínútu síðari hálfleiks þegar United fékk aukaspyrnu á stórhættulegum stað en spyrnutækni Bruno brást honum og skot hans langt framhjá markinu.
Í kjölfarið kom ágætispressa frá United, en boltinn barst oft til Chong á vinstri vængnum en lítið kom út úr honum framan af. Tvær skiptingar gestanna komu á 62. mínútu þegar Mata fór út fyrir Matej Mitróvic og Tau fór útaf fyrir Krepin Diatta.
Í næstu sókn United kom löng sending inn fyrir sem Tahith Chong elti framhjá varnarmönnum Brugge, en Mignolet handsamaði knöttinn sirka 2 metrum fyrir ofan hollendinginn sem fékk hnéið á belganum í síðuna og þurfti aðhlynningu í kjölfarið. Á meðan notaði Ole Gunnar Solskjær tímann og gerði sína aðra skiptingu þegar Bruno settist á tréverkið eftir enn eina hágæða frammistöðuna og inn á í hans stað kom Jesse Lingard.
Loksins kom þó að því að Chong næði að skapa hættu þegar hann og Shaw komust samhliða upp vænginn inn í teiginn en skot Chong var auðveldlega varið en boltinn barst til enska bakvarðarins sem átti mun betra skot. Mignolet varði þó aftur og hélt stöðunni í 3-0.
Á 71. minútu var Mason nokkur Greenwood búinn að hita upp og tilbúinn að koma inn á í stað McTominay sem er nýstiginn upp úr meiðslum. Flott innkoma hjá Skotanum og kórónaði frammistöðu sína með fínu marki.
Greenwood tókst að koma sér í skotfæri um ellefu mínútum fyrir leikslok en boltinn rúllaði um meter framhjá stönginni og Mignolet andaði léttar. Örskömmu eftir þá sókn vann Shaw boltann af miðjumanni Brugge og kom boltanum á Lingard sem stakk sér inn í vítateig gestanna og þegar Mignolet mætti honum renndi Lingard boltanum út fyrir miðju vítateigsins þar sem Fred þurfi ekki að gera neitt annað en að stýra boltanum í tómt markið og koma í veg fyrir að 3-0 spá höfundar gengi upp.
4-0 og virkilega gott fyrir Brasilíumanninn að komast á blað og ekki síðra fyrir Lingard að fá skráða á sig stoðsendingu. En Lingard vildi einnig komast á blað og þegar lítið var eftir af leiknum braust United í skyndisókn upp hægri kantinn og boltinn barst á Englendinginn úti við vítapunktinn en enn og aftur tókst Mignolet að verja enda langbesti leikmaður gestanna frá Belgíu.
Því næst átti Chong enn eina tilraunina til að setja mark sitt á leikinn með ágætisskoti sem endaði vitlausu megin við stöngina. Greenwood átti marktilraun örstuttu síðar en inn vildi boltinn ekki. Það vildi boltinn þó gera á síðustu mínútu uppbótartíma þegar Chong brunaði enn eina flugferðina upp vinstri kantinn og renndi boltanum út að d-boganum þar sem Fred kom aðsvífandi á fleygiferð og hamraði boltann eins og heitt stálið. Öllum að óvörum endaði boltinn í netmöskvanum en ekki sem vallarmark í amerískum fótbolta eða í efri stúkunni bakvið markið.
Eftir markið flautaði dómarinn leikinn af og stórsigur United í höfn. Það er því komið á hreint að United er komið áfram í 16 liða úrslit Evrópukeppninnar ásamt Basel, Wolves, Leverkusen, Roma, Istanbul Basaksehir, LASK, Wolfsburg, Getafe, Olympiacos, Shaktar Donetsk, FC Kobenhavn, Inter og Sevilla. Viðureign RB Salzburg og Frankfurt fer fram á morgun.
Arsenal, Ajax, Benfica, Celtic og Sporting eru öll úr leik eftir kvöldið en það er ljós að mótherjar United í næstu umferð verða engir aukvisar. Dregið verður í 16 liða úrslitin í hádeginu á morgun.
Pælingar eftir leikinn
Einkunnir leikmanna.
Sergio Romero (6). Hafði ekkert að gera og komst ekki í mynd í síðari hálfleik. Svo lítið fór fyrir honum að undirritaður mundi vart hvort hann eða sá spænski hefði setið í markinu.
Harry Maguire (7). Stýrði vörninni en hafði óttalega lítið að gera, sérstaklega eftir rauða spjaldið hjá Deli.
Eric Bailly (7). Hefur komið á óvart eftir erfið meiðsl en virðist gera sterka atlögu að byrjunarliðssæti. Ásamt Maguire sá hann til þess að Romero hefði getað sest á bekkinn í síðari hálfleik.
Aron Wan-Bissaka (6). Einfaldlega hafði ekkert að gera en var lítið hætta fram á við.
Luke Shaw (7). Duglegur upp og niður kantinn og tók góðan þátt í sóknarleiknum. Hefur verið stabíll og flottur að undanförnu og hélt uppteknum hætti í kvöld.
Scott McTominay (8). 98% sendingarhlutfall, flestar sendingar á loka þriðjung vallarins (21), 5 unnir boltar og 1 mark á fyrstu 45 mínútum leikmannsins eftir löng og erfið meiðsl, sér til þess að tryggja honum þessa einkunn.
Bruno Fernandes (9). Frábær frá fyrstu mínútu og þar til hann var tekinn útaf. Fær alla í kringum sig til að spila betur og sérstaklega Fred og Mata í þessum leik. Bjó sér stanslaust til pláss á milli varnar og sóknar og tengdi mjög vel við alla þá sem voru nálægt honum. Með tilkomu Portúgalans og vinnusemi hans fá leikmennirnir í kringum hans meira svigrúm til að einbeita sér að sínum leik og það sést augljósast á Fred.
Fred (9,5). Með ólíkindum að þessi leikmaður virtist ekki fyrir sitt litla líf geta komist inn í byrjunarliðið hjá fyrri stjóra liðsins þótt hann hefði borgað með sér en nú rúmu einu og hálfu ári sitja flestallir fótboltaáhugamenn og -konur og klóra sér í höfðinu yfir þeirri staðreynd að Brasilíumaðurinn er búinn að vera okkar besti leikmaður á tímabilinu án nokkurs vafa. Tvö mörk og stoðsending til að kóróna óaðfinnanlega frammistöðu sem djúpur miðjumaður. Maður leiksins.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1233151021431521280
Daniel James (6). Átti ágætisleik en var svolítið í skugganum á öðrum stjörnum kvöldins.
Juan Mata (8). Því hefur oft verið fleygt fram að Mata nýtist best gegn „litlu“ liðunum til að brjóta á bak aftur lið sem liggja djúpt og það má vel vera satt en eitt er víst að þegar Bruno er inn á vellinum virkar Mata eins og hann sé nýr maður. Krafturinn og leikgleðin brýst fram í honum og það sást líka á þeim örskamma tíma eftir að Bruno kom inn á í fyrri viðureign liðanna. Sóknarflæðið með þá tvo er mörgum gæðalevelum hærra en við höfum séð í haust og vetur.
Odion Ighalo (7). Fékk loksins tækifæri í byrjunarliðinu og stóð sig vel, kláraði auðvelt færi eftir góðan undirbúning frá Mata og fékk möguleikann á að bæta við. Virkilega góður með bakið upp að markinu í „link-up play“ og var ekkert að leita út á vængina eins og sést:
https://twitter.com/utdarena/status/1233158394632163328?s=21
Tahith Chong (7). Drengurinn má eiga það að hann reyndi og reyndi allan síðari hálfleikinn og var ef til vill óheppinn að ná ekki að setja mark. Var þó stundum að taka rangar ákvarðanir og full kærulaus á boltanum en vann það upp með krafti.
Jesse Lingard (7). Já, sjö. Hann var settur í þá erfiðu stöðu að koma inn fyrir eflaust heitasta mann Evrópudeildarinnar (sem er með 6 mörk og 3 stoðsendingar) og eflaust margir sem hafa verið ósáttir við að sjá hann hita upp en Englendingurinn var flottur í kvöld og átti meira að segja stoðsendingu, já gott ef Bruno tekst ekki líka að gera menn betri þó hann sitji á bekknum.
Mason Greenwood (ó). Óheppinn að skora ekki í kvöld, þrátt fyrir takmarkaðan tíma á vellinum. Fann þó tíma til að leika varnarmenn Club Brugge grátt og virtist mjög öruggur á boltanum. Erfitt að réttlæta einkunn fyrir ekki lengri tíma.
Það fyrsta sem vert er að benda á eftir þennan leik er að núna hefur liðið haldið marki sínu hreinu í 18 leikjum á tímabilinu í öllum keppnum. Í stóru deildum Evrópu er PSG eina liðið sem státar af fleiri leikjum án þess að fá á sig mark. Næst á eftir okkur er Liverpool með 17. Auðvitað verður að taka mið af því að United er í Evrópudeildinni en engu að síður bendir þetta til þess að sumarkaupin hjá United hafi styrkt okkur verulega.
Þá hefur gengi liðsins upp á síðkastið verið gott en síðan að leikmannaglugganum var lokað hefur United spilað fimm leiki, unnið þrjá og gert tvö jafntefli og með markatöluna 11-1 úr leikjunum. Þetta ætti að gefa United aukið sjálfstraust fyrir leikjahrinuna sem er framundan en United á magnaðan möguleika á að koma sér aftur í Meistaradeildina á næsta tímabili.
Framundan eru leikir við Everton (úti), Derby (úti í FA bikar), Manchester City (heima), Tottenham (úti) og Sheffield United (heima) en deildarleikirnir verða gríðarlega mikilvægir í baráttunni um 4. sætið (eða 5. sæti haldist FFP refsingin gagnvart City).
Þótt hægt sé að rífast og þræta fram og aftur um hvort Ole Gunnar Solskjær sé rétti maðurinn í verkið eða ekki þá verður ekki annað sagt en að þeir leikmenn sem keyptir hafa verið til liðsins í stjóratíð hans hafi smellpassað inn í liðið og bætta það svo um munar.
Ighalo skilar nákvæmlega þeirri vinnu sem við var að búast, er sterkur targetman í og við vítateiginn, Maguire og Wan-Bissaka stoppa ágætlega vel upp í þau gríðarlega stóru göt sem voru á vörninni okkar, Dan James er orkubolti sem lofar góðu en þarf hvíld og Bruno er tannhjólið sem lætur klukkuverkið snúast og hreyfir við öllum hinum þarna framar á vellinum. Hvar værum við ef hann hefði komið í sumar?
Það verður sífellt erfiðara að mótmæla þeirri staðhæfingu Robbie Savage að United vanti einungis þrjá góða leikmenn í hópinn til viðbótar til að geta blandað sér í baráttu við Liverpool og City. Ef höfð eru til hliðsjónar þau úrslit sem United hefur verið að ná gegn stærri liðum deildarinnar; Chelsea (4-0, 2-1, 2-0), Leicester (1-0), Arsenal (1-1), Liverpool (1-1), Manchester City (2-1, 1-0) og Tottenham (2-1) ásamt þeirri staðreynd að liðið er farið að geta skorað 3-4 mörk í leikjum aftur, nokkuð sem varla sást undir Moyes, van Gaal né Mourinho, má sjá að United á ekki eins langt í land og margir eflaust halda.
Hins vegar þarf að halda áfram á sömu braut og breikka hópinn áfram til að falla ekki í sömu gryfjur og við höfum gert á tímabilinu með því að tapa fyrir Newcastle, Burnley og ná ekki að vinna Southampton, Aston Villa og Bornemouth. Vanmat á andstæðingum og hugsanlega ákveðið leiðtogaleysi á fremsta þriðjungnum kann að vera orsökin og því eru leikmenn með leiðtogahæfileika eins Bruno og Grealish eða Maddison væru kærkomin viðbót við liðið.
Hvaða leikmenn vilt þú sjá að komi inn í sumar sem gætu skipt sköpum fyrir næstu leiktíð og telji þið að United nái að krækja í Meistaradeild á næsta tímabili með því að ná 4. eða 5. sætinu eða vinna Evrópudeildina?
Næsti leikur er á sunnudaginn kl 14:00 gegn Everton á Goodson Park. Ancelotti hefur verið að gera frábæra hluti eftir að hann tók við liðinu í fallbaráttu og verður Everton sýnd veiði en ekki gefin, sérstaklega á heimavelli. Til að halda áfram pressunni á fjórða sætið verður United að taka 3 stig heim til Manchesterborgar!