Jólagjöfin sem stuðningsmenn fengu í dag var ein sú súrasta sem sést hefur og vonir hljóta að standa til að sem flest ykkar hafi nýtt tímann í jólaundirbúning og útréttingar frekar en að horfa á þennan leik. Spáin fyrir leik að þessi gæti orðið vesen var alltof góð.
Eftir að hafa misst af nær öllu tímabilinu var Paul Pogba loksins kominn í næga æfingu til að sitja á bekknum gegn botnliði Watford.
Varamenn: Romero, Mata, Matic, Pogba, Pereira, Greenwood, Young
Lið heimamanna var svona
Fyrstu tíu mínúturnar einkenndust fyrst og fremst af þreifingum, og lítið markvert var að gerast. Watford menn voru ekkert hræddir við að sækja og vörnin hjá United var eins og oft áður ekkert alltof traust. Watford var búið að fá fleiri horn en United og úr einu slíku komu þeir boltanum í netið en til allrar hamingju var það eftir að brotið hafði verið á De Gea, í þetta skiptið var hann með hendur á boltanum þannig að dómarinn gat ekki komist hjá því að dæma, ólikt Everton markinu um síðustu helgi.
Þetta hélt áfram og fyrsta hálftímann var nákvæmlega ekkert að frétta hjá okkar mönnum, miðjan réði engu, ekkert kom upp frá bakvörðunum og sóknin var bitlaus. Loksins kom færi þegar Martial stakk vel inn á Jesse Lingard sem hafði nógan tíma til að leika upp að teig og þegar Ben Foster kom út á móti honum ákvað Lingard að vippa yfir markmanninn en alltof hátt og yfir. Ekki rétta ákvörðunin hjá manni sem hefur ekki skorað frá því á annan í jólum í fyrra.
Það var ef eitthvað var meiri ógn í Watford, þeir komu boltanum inn í teig og reyndu að finna glufur og fengu reyndar ágætt færi þegar Doucoure skallaði framhjá. Engin stór ógn í því samt.
Það var hreinlega léttir þegar dómarinn flautaði til hálfleiks og þessi leiðindi tóku enda. Hvorugt lið átti skot a mark í fyrri hálfleik sem segir sitthvað, United var miklu meira með boltann en gerði ekkert með hann sem máli skipti.
Ole Gunnar gerði engar breytingar í hálfleik og ef fyrri hálfleikur hafði verið slakur, byrjaði sá seinni hroðalega.
Á innan við fimm mínútum var Watford búið að ná forystunni í fyrsa skipti á heimavelli í vetur og það var alfarið David De Gea að þakka.
Watford fékk aukaspyrnu og gaf inn á teiginn, X skallaði og Sarr tók laust og slakt skot sem fór í jörðina og upp og beint á De Gea en á óskiljanlegan hátt fór það milli handanna á honum og inn. Einhver skelfilegstu markmannsmistök sem sést hefur í síðari tíð.
Það voru ekki liðnar tvær mínútur þegar þetta versnaði enn, sending upp völlinn, og Aaron Wan-Bissaka tók óskiljanlega ákvörðun að fara alltof seint í Sarr og brá honum. Víti dæmt, VAR sammála og Troy Deeney gerði engin mistök. 2-0 fyrir Watford á 54. mínútu.
United átti loksins skot á mark þegar Scott McTominay reyndi sig utan teigs, Foster varði ágætlega og þegar boltinn kom aftur á McTominay skaut hann himinhátt yfir.
Það var kominn tími til að líta til Mason Greenwood og hann kom inná fyrir Dan James. Það breyttist ekkert við það, í það minnsta ekki strax og Paul Pogba kom inná fyrir Jesse Lingard á 63. mínútu.
Tæpar tíu mínútur af bitleysi fylgdu og síðasta tilraunin til að breyta leiknum var að senda Juan Mata inná fyrir Scott McTominay. Það fóru aðeins að sjást batamerki á leik United og það var helst Pogba að þakka. Hann átti sextíu metra sendingu fram á Mason Greenwood sem reyndi eins og Lingard í fyrri hálfleik að vippa en aftur fór boltinn yfir.
Loksins kom færi á 89. mínútu, Martial gaf inn í teiginn á Rashford sem fékk nægan tíma, sneri og tók skotið en ekki alveg nógu gott og Foster varði vel. Aukaspyrna Mata framhjá var svo síðasti krampakippurinn áður en þessari martröð lauk.
Þetta var United liðið eins og við vorum vön að sjá það áður en sigrarnir á City og Spurs gáfu von, en það er sem fyrr ekki nokkur von til þess að United ráði við að skora þegar liðið er meira með boltann. Það er svo mikið að í þessu liði, of marga leikmenn vantar herslumuninn uppá að vera í toppklassa, það vantar alla baráttu og það er hreinlega ekki nógu mikið spil í þessu liði.
Það verður kannske reynt að gera eitthvað í janúarglugganum en með hverjum svona leik verður spurningin hvort gera eigi einföldustu breytinguna, hvort sem hún er sú sem er líklegust til árangurs eða ekki. Það er nær útilokað að hlutirnir versni. Manchester United á ekki að tapa fyrir neðsta liðinu, liði sem hefur unnið einn leik á vetrinum og hefur skipt tvisvar um þjálfara.
Auðvitað er kýrskýrt að það þarf skapandi miðjumann í þetta lið og helst líka annan til sem getur verið hvort tveggja sterkur og nægilega vel spilandi. En ef það fæst ekki í janúarglugganum eins og verið er að ýja að hlýtur að þurfa að reyna að breyta einhverju á æfingasvæðinu.
Næstu sex vikur mun draga til tíðinda.