Í dag tók Old Trafford á móti Duncan Ferguson og lærisveinum hans í Everton en bæði lið hafa verið að glíma við þónokkur meiðsli og
Á bekknum eru svo þeir Sergio Romero, Juan Mata, Ashley Young, Mason Greenwood, Andreas Pereira, Brandon Williams og Alex Tuanzebe.
Bekkurinn: Stekelenburg, Baines, Tosun, Niasse, Kean, Martina og Gordon.
Veikindi héldu bæði Gylfa Þór Sigurðssyni og Sidibé heima í dag og því var Duncan Ferguson neyddur til að breyta liði sínu rétt fyrir leik.
Leikurinn byrjaði skemmtilega, Anthony Martial fékk boltann á vinstri vængnum og kom boltanum á Fred sem bar boltann inn í teiginn. Þar barst boltinn á afmælisbarnið Jesse Lingard sem snéri með bakið í markið en snéri sér í skotinu en boltinn rétt framhjá markinu eftir aðeins 17 sek.
Hinu meginn á vellinum kom fyrsta færi gestanna einungis örfáum sekúndum síðar þegar de Gea þurfti að hafa sig allan við að blaka fyrirgjöf sem stefndi í vinkilinn yfir markið en meiddist um leið er hann lenti á stönginni. Kröftugar upphafssekúndur sem kveiktu verulega upp í áhorfendum.
Næsta hættulega færi kom á tíundu mínútu þegar ekkert virtist vera í gangi hjá Victor Lindelöf ákvað sá sænski að húrra boltanum inn fyrir vörn Everton þar sem Rashford komst í ágætis skotfæri en boltinn fór framhjá markinu.
Strax í kjölfarið fékk Daniel James stungusendingu inn fyrir vörnina og Pickford hikaði og kom ekki út á móti en laust skot hans rúllaði framhjá markinu.
Enn eitt áfallið fyrir Everton kom á 23. mínútu þegar Lucas Digne gaf merki um að hann þyrfti skiptingu. Í hans stað kom hinn reynslumikli og 35 ára gamli Leighton Baines sem hafði fram að þessu einungis spila átta mínútur í deildinni. Erfiðar sjötíu mínútur fyrir hann framundan gegn Daniel James.
Innan skamms fengu rauðu djöflarnir svo aukaspyrnu rétt fyrir utan teig eftir að Tom Davies hafði brotið á Scott McTominay eftir frábæra móttöku skotans. Úr spyrnunni kom fast skot frá Rashford, en aðeins of nálægt Pickford sem náði að koma hönd á boltann.
Þegar hér var komið við sögu hafði United verið með boltann yfir 70% af leiknum en okkar menn hafa hingað til ekki staðið sig neitt húrrandi vel í þeim viðureignum sem við höfum haft svo mikið af boltanum.
https://twitter.com/utdarena/status/1206220384074420229
Skömmu síðar fengu Everton hornspyrnu þar sem Calvert-Lewin náði að trufla David de Gea þegar sá spænski kom út úr búrinu og boltinn fór yfir allan pakkann og endaði í Lindelöf og þaðan í netið. VARsjáin skoðaði atvikið en komst að þeirri niðurstöðu að Calvert-Lewin hefði ekki brotið á markverðinum og markið stóð. 0-1 og Duncan Ferguson fagnaði eins og enginn væri morgundagurinn.
Síðari hálfleikur
Fred átti fyrsta hættulega tækifærið í síðari hálfleik þegar boltinn datt fyrir framan hann í d boganum en skot hans yfir. Aftur fengu heimamenn hættulegt færi þegar Martial sótti aukaspyrnu út við hornfánann en Harry Maguire vantaði svona 7 cm í viðbót til þess að ná fyrirgjöfinni.
Sama sagan virtist vera að endurtaka sig, United meira með boltann en ekki að nýta sér það og fá færi sem sköpuðust.
Eftir um klukkustundarleik komst United í sókn þar sem Luke Shaw átti þrumuskot að marki sem Pickford sló út í teig fyrir framan Daniel James sem hamraði boltann í andlitið á Lingard. Ekki beint afmælisgjöfin sem hann átti von á. En eftir það fór Lingard útaf og inn á í hans stað kom Mason Greenwood þegar um 25 mínútur voru eftir.
Á 70. mínútu fengu United hornspyrnu sem endaði með skoti frá sjálfum Lindelöf en skot hans með vinstri fætinum var hársbreidd frá því að enda í netinu. Mikil pressa frá United þessa stundina en enn og aftur ekki mikil hætta sem henni fylgdi. Þó líflegra en í fyrri hálfleik.
Það var hreinlega EKKERT sem leit út fyrir að United væri að nálgast jöfnunarmarkið þegar James sendi á Greenwood rétt fyrir utan teiginn. Sá ungi smellti boltanum milli lappa varnarmanns og alveg út við stöngina og Pickford átti ekki möguleika á að verja. 1-1 og vonarneistinn kviknaði á ný.
Gestirnir fengu þó nokkur færi en Aaron wan-Bissaka átti enn og aftur stórleik og var með Richarlison í vasanum á lokamínútunum. Alex Iwobi átti svo skot sem de Gea þurfti að hafa sig allan við og varði í horn.
Næsta skipting hjá United kom þegar um fimm mínútur voru til loka venjulegs leiktíma en þá fór Daniel James útaf fyrir spænska töframanninn Juan Mata. Everton menn sigldu þessu svo þægilega í höfn enda búnir að tefja síðasta hálftímann rúmlega.
1-1 var niðurstaðan og alls ekki glæsilegur leikur frá okkar mönnum. Þó að Ole Gunnar Solskjær hafi gert 9 breytingar á liðinu í vikunni var ekki að sjá að menn væru óþreyttir og tilbúnir í 90 mínútna slag. Fred og McTominay virkuðu þreytulegir síðustu tuttugu mínúturnar, James og Rashford voru langt frá sínu besta og þá átti Lingard ekki góðan dag.
Það var rólegt yfir Mason Greenwood fram að markinu hans en hann hefur núna skorað þrjú mörk úr síðustu fjórum skotum sínum. Wan-Bissaka var stórkostlegur að vanda og hélt Richarlison í skefjum allan leikinn. De Gea sinnti öllu sínu en leit ekki vel út í markinu en spurning hvort annar dómari hefði dæmt brot á Calvert-Lewin þegar sá síðarnefndi slengdi höndinni í andlitið á spánverjanum.
Engu að síður heldur Evrópugrýlan áfram að hrella okkur. Það virðist vera ómögulegt fyrir United að sigra eftir evrópuleik í miðri viku. Þá eigum við einnig erfitt með lið sem ætla sér að verjast og beita skyndisóknum.
Það er sama rulla enn og aftur, okkur vantar skapandi miðjumann með töfra einmitt í svona leiki og framherja sem býður upp á aðra eiginleika fyrir framan markið en Martial og Rashford bjóða upp á. Erling Braut Håland og James Maddison í janúar? Ólíklegt en hver veit, það vantar í það minnsta einstaklinga með svipaða hæfileika.
Næsti leikur er bikarleikur gegn Colchester á miðvikudaginn en næsti deildarleikur er gegn neðsta liðinu, Watford, en þeir virðast ekki fyrir sitt litla líf geta unnið fótboltaleik og sitja á botninum með 9 stig. Það verða því mikil vonbrigði ef 3 stig skila sér ekki af Vicarage Road.