Í dag mætti topplið Liverpool í heimsókn á Old Trafford í næstsíðasta leik 9. umferðar ensku Úrvalsdeildarinnar en viðureignum þessara liða hefur yfirleitt verið beðið með mikilli eftirvæntingu og leikurinn í dag engin undantekning.
Mikil óvissa var fyrir leik um hvaða leikmenn liðanna yrðu klárir í leikinn en mikið var um meiðsl, þá sérstaklega hjá heimamönnum. Alex Tuanzebe var óvænt í liðinu en Ole Gunnar Solskjær stillti upp í fimm manna varnarlínu með hann ásamt Harry Maguire og Victor Lindelöf í miðvarðarstöðunum.
En Tuanzebe meiddist í upphitun og var þar af leiðandi ekki með í dag en í hans stað kom Marcos Rojo inn en það átti eftir draga dilk á eftir sér. Sá argentíski kostaði landslið Argentínu tvö mörk í leik gegn Þýskalandi í nýafstöðnu landsleikjahléi og þótti ekki líta vel út þar og var tekinn útaf í hálfleik.
Leikurinn fór heldur rólega af stað en mörg mistök litu dagsins ljós og greinilegt að mikill skjálfti var í mönnum. Mikill kraftur í báðum liðum en nákvæmni sendinga og einbeiting leikmanna langt frá því að vera skörp. Bæði lið pressuðu hátt á vellinum og varð það til þess að mistök á báða bóga voru tíð í upphafi leiks.
Ólíkt því sem margir höfðu spá þá voru United mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og var boltinn mun meira á vallarhelming gestanna. Pereira var duglegur að koma sér í álitlegar stöður en var helst til of frekur á boltann og hefði ef til vill átt að dreifa boltanum í stað þess að eiga skot í nokkur skipti.
Korter inn í leikinn áttu Liverpool fyrstu hættulegu sóknina sína þegar Wjinaldum fór illa með miðjumenn United og tókst að koma skoti á markið en það olli David de Gea engum vandræðum.
Í kjölfarið komu nokkrar sóknir frá gestunum þegar skipulag United raskaðist örlítið en heilt yfir hélt liðið skipulaginu mjög vel í gegnum leikinn. Bakverðir Liverpool fengu fjölmörg færi til að koma með fyrirgjafir en þær voru flestar hættulausar og slakar og þær sem ekki voru það var komið auðveldlega frá marki United.
Eftir 37 mínútur var komið að United, þegar Lindelöf náði boltanum af Divock Origi, renndi boltanum á Daniel James sem geystist upp hægri kantinn með boltann. Þegar hann kom að vítateignum átti hann glæsilega fyrirgjöf fyrir markið þar sem Marcus Rashford átti gott hlaup, plataði Joel Matip með hlaupi sínu og potaði boltanum framhjá Alisson Beker í markinu.
VARsjáin tók atvikið til athugunar en dæmdi markið gilt við litla hrifningu gestanna og stuðningsmanna þeirra.
1-0 og Jurgen Klopp var langt frá því að vera sáttur við fjórða dómarann og það átti ekki eftir að vera í síðasta skiptið í þessum leik því rétt fyrir lok fyrri hálfleiks kom há sending inn fyrir hjá United þar sem Sadio Mané tók boltann niður með Lindelöf í bakinu.
Sá sænski vildi greinilega fá de Gea út úr markinu og reyndi að halda Mané frá sem endaði ekki betur en svo að sá síðarnefndi skoraði. Aftur var leitað í VARsjána þar sem heimamenn vildu meina að boltinn hefði komið við höndina á Mané í aðdraganda marksins.
Aftur var VARSjáin hliðholl United og markið dæmt af við ENN minni hrifningu gestanna.
Síðari hálfleikur
Í fyrri hálfleik var United sókndjarft en taflið snérist við í þeim síðari. Liverpool voru mun meira með boltann og réðu oft á köflum ferðinni. Hins vegar vantaði mikið upp á þeirra leik og greinilegt að liðið var ekki að keyra á öllum sílendrum. Á 63. mínútu kom Alex Oxlade-Chamberlain inn á fyrir gestina og á sama tíma var pressan frá Liverpool farin að aukast.
Daniel James fékk frekar óblíðar móttökur frá leikmönnum Liverpool í gegnum allan leikinn en sá velski var í nokkur skipti keyrður niður í grasið. Ekki gott fyrir leikmann sem var rotaður í landsleikjahléinu og spurning hvort ekki hefði átt að skipta honum út fyrir Anthony Martial þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum.
Á þessum tíma var United búið að leggja rútunni en sem betur fer fyrir þá var sóknarlína Liverpool langt frá sínu besta og leikmennirnir virtust ekki vera á tánum. Oft á tíðum voru þeir heilllengi með boltann en þegar kom að lokasendingunni var hún oftast mjög slæm eða misskilningur átti sér stað milli leikmanna.
Hinu megin á vellinum átti James svo laglega sendingu á Rashford, enn einu sinni, sem kom boltanum á Fred en sá stutti tók viðstöðulaust skot sem skapaði enga hættu. Í næstu sókn kom Trent Alexander-Arnold með gullfallega fyrirgjöf en eins og var gegnum gangandi í leiknum fyrir Liverpool var enginn til að taka við boltanum.
Lallana kom inn á fyrir gestina þegar 20 mínútur voru eftir og átti eftir að setja mark sitt á leikinn. Því þegar lítið var búið að ganga hjá þeim í 85. mín og eftir þrjár skiptingar, kom loksins mark þegar enn ein fyrirgjöfin frá bakvörðum Liverpool rataði inn fyrir vörn United en að þessu sinni var Lallana mættur til að klára færið.
Í markinu leit Marcos Rojo mjög illa út, var að dekka Lallana, lítur af honum og hleypur í svæði fyrir framan de Gea þar sem enginn var, sleppir boltanum framhjá sér og horfir upp á Lallana skora framhjá varnarlausum de Gea í markinu. 1-1 eftir augnabliks einbeitingarskort frá liði sem hafði haft ágætis tak á einu lang öflugasta sóknarliði Evrópu í 85. mínútur.
En þannig lauk leiknum og United situr í 13. sæti deildarinnar eftir eina skárstu frammistöðu tímabilsins. Margir stuðningsmenn liðsins hefðu eflaust tekið jafnteflinu fegins hendi fyrir leik en ekki hins vegar orðum ofaukið að segja að stigin þrjú hefðu verið ljúf.
Hins vegar enn margt sem enn má bæta en vonandi verður þetta einhvers konar vendipunktur fyrir liðið, a.m.k. að einhverju leyti en það eru umræður fyrir næsta djöflavarp! Glory, glory!