*uppfært 12. júní kl 14:08*
Það er orðið langt síðan að fyrsti orðrómurinn um að United ætlaði sér að kaupa Daniel James, 21 árs leikmann Swansea. Þessi orðrómur virtist alltaf nokkuð traustur, þó dregist hafi á langinn að ganga frá þessu og ýmis önnur lið nefnd í tengslum við drenginn.
Ein ástæða þess var sú að faðir James lést í síðasta mánuði og skiljanlega setti það strik í reikninginn.
Nú hefur United hins vegar tilkynnt að samningar hafi náðst við James og Swansea og að frekari tilkynningar sé að vænta í næstu viku þegar alþjóðlegi félagaskiptaglugginn opnar. James stóðst læknisskoðun í gær.
James var næstum farinn til Leeds í lok janúar, en glugginn skellti í lás meðan hann beið á skrifstofum Leeds eftir að Swansea staðfesti söluna. Það gerðist ekki, að því er sagt var vegna deilna eiganda og framkvæmdastjóra Swansea. James átti þá að kosta 10 milljónir punda, en nú er sagt að United borgi Swansea 15 milljónir og að þrjár milljónir að auki í viðbótargreiðslur svo sem venja er.
James er framherji, getur spilað í öllum stöðum þar en var oftast vinstra megin hjá Swansea. Líklegt má telja að hann fái helst tækifæri hægra megin hjá United. Hann hefur leikið tvo landsleiki fyrir Wales og skorað eitt mark og auðvitað hefur United ráðfært sig við stjóra Wales, Ryan Giggs áður en ákveðið var að kaupa James. James er öskufljótur svo sem sjá má hér.