í dag mætti United til Huddersfield þar sem heimamenn tóku á móti okkar mönnum á stórglæsilegum velli sínum. Huddersfield var fyrir löngu fallið úr deildinni og höfðu einungis upp á stoltið að spila en liðið hafði einungis tekist að krækja í 4 stig af síðustu 69 mögulegum og á blaði hefði þessi leikur átt að vera borðleggjandi sigur fyrir United. En annað kom á daginn.
Fyrri hálfleikur
Fyrstu fimm mínúturnar voru heldur rólegar þar sem liðin voru að þreifa fyrir sér en á 6. mínútu fengum við aukaspyrnu af um 28 metra færi sem Rashford setti fast beint á markið. Næstu aukaspyrnu krækti Scott McTominay í á okkar eigin vallarhelming eftir að Huddersfield voru búnir að pressa gestina í smá stund.
Upp úr aukaspyrnunni kom laglegt spil frá United sem endaði með því að skotinn komst inn í vítateig og lét vaða á markið. Skotið var ekkert sérstakt og nálægt Jonas Lössl í markinu en honum tókst samt einhvern veginn að missa boltann framhjá sér og staðan orðin 0-1 fyrir United.
Góð byrjun á leiknum og svo virtist á svip gestanna að þeir væru rétt að byrja. Næsta hættulega færi kom þegar Alexis Sanchez gerði vel og vann boltann af varnarmanni Huddersfield upp við endalínu og átti sendingu á Rashford sem átti skot sem fór af varnarmanni og aftur fyrir.
Fyrsta skiptið sem David de Gea kom í mynd var á 24. mínútu þegar Bacuna átti skot framhjá eftir slæma sendingu frá Juan Mata. Strax í kjölfarið kom falleg sókn frá United þar sem endaði með því að Mata fékk boltann einn og óvaldaður rétt fyrir utan vítateigs en honum tókst ekki að snúa boltann framhjá Lössl heldur rakleiðis útaf.
Í næstu sókn átti Pogba góða stungusendingu inn fyrir vörn heimamanna og fann þar Sanchez sem hékk örlítið á boltanum og kom svo með sendingu fyrir sem reyndist aðeins of há fyrir Pogba sem var mættur á fjærstöngina.
Pogba var svo aftur á ferðinni en að þessu sinni á okkar vallarhelming þegar hann gaf aukaspyrnu á hættulegum stað en sem betur fer tók varnarveggurinn spyrnuna sem var á leiðinni á markið.
Næsta færi okkar kom ekki fyrr en á 37. mín þegar Mata laumaði boltanum inn í teig í hlaupaleið fyrir Rashford sem náði ekki nógu snemma til boltans og Lössl rétt náði að kasta sér fyrir og boltinn af Rashford og aftur fyrir.
Kæruleysisleg sending frá Phil Jones kostaði okkur svo næstum því mark þegar heimamenn komust inn í sendinguna hans og náðu að komast inn fyrir vörnina en de Gea varði vel í stöðunni maður á mann og kom í veg fyrir að við misstum forskotið. Afleit mistök hjá Jones en vel varið hjá þeim spænska.
Stuttu seinna átti United flotta fyrirgjöf af vinstri vængnum sem rataði á kollinn á Pogba en skalli hans endaði í þverslánni, lukkan ekki með honum að þessu sinni en United farnir að stíga hressilega á bensíngjöfina.
Síðari hálfleikur
Seinni hálfleikur fór rólega af stað en fyrsta færið kom þegar nr16 átti skot rétt yfir markið en beint eftir það bað Sanchez um skiptingu sökum meiðsla. Nemanja Matic var tekinn útaf um leið en í þeirra stað komu Ander Herrera og Tahith Chong. Táningurinn að fá mikilvægar mínútur hér og gaman að sjá unga og ferska fætur á vellinum.
Sá hollenski var greinilega ákveðinn í að setja mark sitt á leikinn og var duglegur í pressunni. Stuttu eftir skiptingarnar átti Herrera vonlaust skot og strax í sókninni á eftir átti Pogba skot yfir markið en ekki mikil hætta sem skapaðist.
Í næsta horni sem við fengum átti Scott McTominay skalla sem Lössl greip og þrumaði boltanum fram völlinn þar sem Luke Shaw misreiknaði boltann og öllum á óvörum endaði boltinn hjá Isaac Mbenza sem var kominn einn á móti de Gea og í þetta skipti brást honum ekki bogalistin heldur renndi hann boltanum á milli lappa spænska landsliðsmarkvarðarins og jafnaði metin.
1-1 gegn liði sem var fallið og hafði ekki að neinu að keppa. Vörn United leit alls ekki vel út þarna og sérstaklega ekki Shaw. Leikurinn var mjög lengi að byrja aftur en hornfáninn var skemmdur í fagnaðarlátunum og því leikurinn stöðvaður á meðan.
United virtist eiga fá svör, sóknirnar runnu flestar út í sandinn eftir slæmar sendingar eða samskiptaleysi milli leikmanna, menn voru á hælunum. Nokkrum sinnum komumst við í álitleg færi, fyrst Jones eftir aukaspyrnu af vinstri vængnum en skóflaði boltanum yfir markið. Næst komst Rashford inn eftir flotta sendingu frá Mata en hann setti boltann framhjá.
Á 88. mínútu átti Chong færi en Lössl varði vel, stuttu síðar setti Pogba aftur boltann í slánna. Beint í kjölfarið fengu Huddersfield færi þegar Dalot, sem var nýkominn inná, tölti í mestu makindum heim en de Gea varði vel.
Pælingar að leik loknum
Á sama tíma og okkar var ekki að takast að brjóta niður lélegasta lið deildarinnar voru Chelsea að slátra Watford á heimavelli og setja níu fingur á Meistaradeildarsætið. Það að við gætum ekki valtað yfir lið sem á ekki heima í deildinni endurspeglar mjög vel hverstu langt við erum frá því að vera í toppbaráttu.
Við eigum ekkert heima í Meistaradeildinni á næsta ári og bjartsýnustu menn geta leyft sér að dreyma um 4. sætið á næsta tímabili. Enginn efast um einstaklingshæfileikana í liðinu en andlega eigum við heima í League 1. Ég leyfi mér að efast um að 250 milljónir punda geti bjargað því í sumar.
Phil Jones gerði aragrúa af mistökum í dag og klúðraði dauðafæri. Luke Shaw var skugginn af sjálfum sér og kostaði okkur jöfnunarmarkið. Paul Pogba er löngu farinn í sumarfrí og farinn að hugsa um ALLT annað en fótbolta.
Diogo dalot kom inn á fyrir Victor Lindelöf og var verri en enginn. Juan Mata átti ágætissendingar en gerði lítið annað á vellinum og týndist á köflum. Alexis Sanchez er eflaust með hærri laun er Huddersfield hópurinn allur til samans en hann skapaði ekki neina hættu frekar en fyrri daginn og sýndi það og sannaði að hann hefur ekkert að gera í byrjunarliðinu.
Huddersfield átti fyllilega skilið að fá stig út úr þessum leik, sama þó við höfum verið óheppnir með sláarskot þá var ENGIN ákveðni eða drápseðli sem kviknaði hjá okkar mönnum… jafnvel þótt Meistaradeildarsætið væri enn möguleiki þar sem Tottenham tapaði í gær.
Ég á bágt með að trúa að leikmenn liðsins skammist sín ekki fyrir gengi liðsins undanfarið en það er greinilega eitthvað rotið í innviðjum liðsins sem smitast inn á völlinn. Það að kaupa gæði og stjörnuleikmenn í sumar er ekkert endilega að fara að breyta því. Það er langt í land og nú er það komið á hreint að við spilum á fimmtudögum og sunnudögum á næsta tímabili og getum prísað okkur sæla fyrir þó að vera í einhvers konar Evrópukeppni.