Eftir góðu fréttirnar um fastráðningu Ole Gunnar Solskjær sem knattspyrnustjóra Manchester United hélt liðið upp á það með lélegri frammistöðu gegn Watford sem þó skilaði sigri. Nú er komið að því að mæta Úlfunum aftur. Það var heldur betur svekkjandi að horfa upp á liðið henda frá sér afskaplega öflugum bikarsigrum á útivöllum gegn Arsenal og Chelsea með því að tapa verðskuldað fyrir Úlfunum í fjórðungsúrslitum. En nú er tækifæri til að bæta fyrir báðar þessar frammistöður og sýna úr hverju liðið er gert.
Það er kominn sumartími á Bretlandi svo þessi þriðjudagsleikur hefst klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Flautuleikari verður konsertmeistarinn Mike „drop the mic“ Dean.
Úlfarnir
Wolves eru sem stendur í sjöunda sæti deildarinnar, með 44 stig eftir 31 leik. Liðið hefur unnið 12 leiki, tapað 11 leikjum og gert 8 jafntefli. Markatalan þeirra stendur á sléttu, 38 mörk skoruð og fengin á sig. Þeirra markahæsti leikmaður í deild er Raúl Jiménez með 12 mörk og á eftir honum koma Diogo Jota með 6 mörk og svo fjórir leikmenn með 3 mörk hver. Stoðsendingahæstur er João Moutinho með 7 stoðsendingar og fyrrnefndur Raúl Jiménez kemur þar á eftir með 6 stoðsendingar. Mexíkóinn Jiménez er okkar mönnum kunnugur eftir að hafa skorað fyrra mark Wolves í bikarsigrinum á United um daginn.
Wolves er ansi sérstakt lið og hefur átt mjög sveiflukennt tímabil, þótt það sé heilt yfir búið að vera gott hjá liðinu eins og 7. sæti í deild og undanúrslit í bikar gefa til kynna. Wolves hefur á þessu tímabili náð að sigra Chelsea, Tottenham, Liverpool og Manchester United auk þess að ná jafnteflum gegn Manchester City, Arsenal, Chelsea og Manchester United. En á móti hefur liðið á einhvern hátt náð að tapa báðum deildarleikjunum gegn Huddersfield (Huddersfield er með einn annan sigurleik á tímabilinu, í öllum keppnum, gegn Fulham) og tapaði gegn Huddersfield og Cardiff City í sömu vikunni. Í síðustu þremur leikjum náði Wolves jafntefli við Chelsea í deild, vann svo United í bikar áður en liðið steinlá gegn Burnley í síðasta deildarleik.
Það er einn leikmaður frá hjá Wolves í þessum leik, miðvörðurinn Ryan Bennett tekur út seinni leik sinn í leikbanni. Að öðru leyti getur Nuno Espírito Santo stillt upp sínu sterkasta liði. Sem er líklega eitthvað í þessa áttina:
Djöflarnir
Hinn nýbakaði faðir Victor Lindelöf missti af síðasta leik og munaði ansi mikið um það þegar kom að öryggi liðsins í varnarleiknum. Svíinn knái hefur sannarlega komið sterkur inn á þessu tímabili, sér í lagi eftir að Solskjær tók við, þótt hann hafi verið orðinn besti varnarmaður liðsins töluvert fyrir þann tíma. Solskjær gaf honum frí í síðasta leik, hann var ekki meiddur, og eru því góðar líkur á að hann snúi aftur í liðið í þessum leik. Sem er vel. Hann þarf að vera í toppformi í næstu viku þegar fyrri leikur 8-liða úrslita Meistaradeildarinnar verður spilaður. Say no more.
Anthony Martial tók eitthvað hnjask með sér úr sigrinum gegn Watford en ætti þó að vera klár í að spila þennan leik. Við gætum því mögulega séð byrjunarlið í þessa áttina:
Þó er spurning hvort Solskjær vilji frekar nota Lukaku eða hafi lært eitthvað af bikarleiknum sem kallar á breytingar frá liðinu hér að ofan. Miðað við hvernig Matic hefur verið að spila þá væri það langt í frá hræðileg tilhugsun að sjá Scott McTominay koma inn á miðjuna í staðinn fyrir Serbann. En við sjáum hvað verður. Í það minnsta þarf ekki að hugsa um að hvíla menn fyrir helgina því United á frí næstu helgi vegna leikja í enska bikarnum.