Nottingham Forest í bikarnum
Manchester United spilar gegn Nottingham Forest í 16 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar annað kvöld. United á góðar minningar úr Nottingham í bikarnum.
Sagan er að reka hafi átt Alex Ferguson ef hann ynni ekki Nottingham Forest í þriðju umferð keppninnar árið 1990. United bjargaði sér með marki Mark Robins, vann síðan bikarinn, Ferguson hélt sínu starfi og skrifaði síðan söguna.
Forest liðið var þá var á öllu betri stað, öflugt lið undir stjórn goðsagnarinnar Brian Clough. Í dag er liðið á fallsvæði ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa aðeins komist þangað aftur árið 2022 eftir rúmlega 20 ára fjarveru.
En hvorki staðan né leikurinn frá 1990 skipta máli á morgun. Um er að ræða bikarleik sem getur farið hvernig sem er og United hefur átt fullt í fangi með Forest á leiktíðinni, rétt marði heimaleikinn í haust og tapaði útileiknum um áramótin.
Tapið á heimavelli gegn Fulham í deildinni um síðustu helgi kippti United niður á jörðina eftir fjóra sigurleiki í röð og taplausan tíma frá Forest-leiknum. Nýr stjóri virðist ekki fremstur í forgangsröðuninni hjá hinum nýju stjórnendum United, en bikartitill myndi að minnsta kosti hjálpa arfleifð Ten Hag og til þess er nauðsynlegt að vinna á morgun.
Casemiro klár
Meiðslalistinn hefur lengst hratt síðustu tvær vikur eftir að hafa verið tekinn að styttast í byrjun febrúar. Casemiro er þó blessunarlega ekki á honum þrátt fyrir að hafa þurft að fara út af vankaður og með skurð á höfði á laugardag.
Rasmus Höjlund, Luke Shaw, Aaron Wan-Bissaka, Tyrrell Malacia, Lisandro Martinez og Anthony Martial eru allir meiddir. Mason Mount er mættur til æfinga og spurst hefur út að hann verði fljótt í leikmannahópi United, þó varla á morgun.
Ten Hag þarf því að finna út hvernig hann stillir upp sóknarlínunni. Marcus Rashford var bitlaus og þjónustulaus sem fremsti maður. Ekki að hann hafi átt góðan vetur en hann hefur í það minnsta átt spretti á vinstri vængnum og liðið spilað betur með hann þar. Omari Forson fékk tækifærið á hægri kantinum og Amad Diallo átti ágæta innkomu.
Það segir sitt um stöðu Brasilíumannsins Anthony að hann var síðasti varmaður United gegn Fulham, aðeins settur inn á þegar Victor Lindelöf haltraði eftir að hafa lent illa. Líklegt er að Lindelöf verði áfram í vinstri bakverði.
Forest hefur verið án þeirra Ola Aina, Willy Boly og Ibrahim Sangare þennan mánuð en þeir töldust ekki í nógu góðu leikformi eftir Afríkukeppnina. Nuno Tavares og Chris Woods eru einnig meiddir.
Leikurinn hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma.
Manchester United 1:2 Fulham
Fyrsta tap United gegn Fulham á Old Trafford í háa herrans tíð staðreynd. Það er ekki hægt að segja að sigur Fulham hafi ekki verið fullkomlega verðskuldaður. Marco Silva setti upp fullkomið leikplan gegn Höjlundlausu United liði. Það er eiginlega lygilegt hversu afskaplega lélegir United voru nánast allan leikinn. Langbesti leikmaður United í dag Andre Onana var eina ástæðan fyrir því að United héldu hreinu í fyrri hálfleiknum. Fengum að sjá betur af hverju hann var fenginn til liðsins. Sama er ekki hægt að segja um marga aðra leikmenn liðsins. Trekk í trekk fengu Fulham leikmenn að dunda sér með boltann í og við markteig United, menn náðu oftar en ekki 3-4 snertingum með boltann algjörlega pressulausir. Augljóst að vörnin saknar Lisandro Martínez. Harry Maguire átti þó ágætan leik og skoraði mark liðsins en hefði átt að vera búinn að skora fyrr þegar hann skallaði framhjá í dauðafæri. Miðjan var rosalega lek í dag. Fulham léku alltof auðveldlega framhjá Mainoo og Casemiro. Omari Forson fékk óvænt tækifæri í byrjunarliðinu og átti frekar gleymanlega frammistöðu en hann átti mikið af feilsendingum og virkaði mjög taukaóstyrkur í flestum aðgerðum sínum. Alejandro Garnacho ásamt Onana voru framan af einu leikmennirnir sem voru að reyna eitthvað. Marcus Rashford var einfaldlega skelfilegur í dag og virtist engan áhuga hafa á að gera eitt né neitt. Það er nánast hægt að segja United hafi verið einum færri í dag. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum lentu Casemiro og Reed í því að skalla hvorn annan óvart. Stöðva þurfti leikinn í nokkrar mínútur og gerði Ten Hag tvöfalda skiptingu strax í kjölfarið og henti McTominay og Eriksen inná til að reyna að þétta miðjuna og stöðva snarpar sóknir gestanna. Það skilaði þó ekki miklu og Fulham náði forystu eftir hornspyrnu en Calvin Bassey fékk tvö tækifæri til að koma boltann á markið og skoraði í síðara tilraun sinni. United tók aðeins við sér eftir markið sem kom á 65′ mínútu en allar tilraunir og tilburðir liðsins voru ómarkvissar og fyrirsjáanlegar. Áðurnefndur Maguire náði þó að jafna leikinn eftir fínt einstaklingsframtak á 89′ mínútu og loksins virtist United vakna til lífsins og eftir að dómarinn gaf upp að uppbótartíminn yrði 9+ mínútur var allt í einu komið mómentum í leik liðsins og nægur tími til að sækja öll þrjú stigin. Það voru þó gestirnir sem gerðu útum vonir heimamanna eftir að Alex Iwobi af öllum mönnum skoraði sigurmarkið eftir flott sprett frá Traoré.
Antony kom inná á síðusta andartökum leiksins en rándýri einfætlingurinn virðist vera 3-4 valkostur á hægri kantinn á eftir þeim Garnacho, Forson og Amad.
Skelfileg úrslit í dag staðreynd og án Rasmusar Höjlund næstu vikur er erfitt að sjá fyrir sér einhverja sigra.
Upphitun: Manchester United – Fulham
Meiðsladjöfullinn er mættur á ný í herbúðir Manchester United fyrir leikinn gegn Fulham á Old Trafford á morgun og hefur lokkað til sín Rasmus Höjlund og Luke Shaw. Við því mátti United vart þar sem varamenn þeirra eru ýmist meiddir, ekki til eða óharðnaðir unglingar.
Höjlund verður frá næstu tvær vikurnar og Shaw trúlega út tímabilið eftir að hafa verið skipt út af í uppbótartíma fyrri hálfleiks í sigrinum á Luton á sunnudag.
United á ekki marga kosti fyrir Höjlund. Anthony Martial er meiddur eins og venjulega. Síðdegis í dag hafa miðlar greint frá því að Omari Forson kunni að fá stóra tækifærið. Hann er fyrst og fremst kantmaður en var settur fram þegar Höjlund var búinn á því gegn Wolves og fékk skráða á sig stoðsendingu í sigurmarki Kobbie Mainoo.
Marcus Rashford hefur oft spilað frammi en uppskeran hjá honum þar var engin í byrjun tímabils. Þótt hann hafi hvorki raðað inn mörkum né stoðsendingum af vinstri kantinum þá hefur liðinu vegnað vel með hann þar að undanförnu. Fari hann fram þá stendur baráttan um kantstöðuna milli Amad Diallo, Anthony og Forsons.
Réttfættur leikmaður í vinstri bakverði
Viktor Lindelöf og Sofyan Amrabat hafa hlaupið í skarðið í vinstri bakvarðastöðunni sem og Diego Dalot. Að spila Portúgalanum þar gæti komist næst því að fylla upp í sendingagetu Shaw en gæti skapað ný vandamál í hægri bakverðinum þar sem Dalot hefur spilað sérlega vel að undanförnu.
Í báðum tilfellum er spurningin hversu miklar breytingar Erik Ten Hag er tilbúinn að gera á liði sem erfitt er að segja að hafi spilað vel að undanförnu en það hefur að minnsta kosti skorað mörk og unnið leiki. Tyrrell Malacia og Aaron-Wan Bissaka ættu undir eðlilegum kringumstæðum að létta undir í bakvarðastöðunum en ekkert spurðist til þeirra, frekar en Mason Mount, á fréttamannafundi Ten Hag í morgun. Vefsíðan Premier League Injuries telur þá líklega til baka um miðjan mars, sem er alltof langur tími.
Athyglin á fundinum í morgun var á fyrirætlunum nýrra stjórnenda United og sagðist Ten Hag eiga afar góð samskipti við þá. Öll vitum við þó að á endanum eru það úrslit leikjanna og staðan í deildinni sem ræður og þar grafa síendurtekin meiðsli undan stjóranum.
Hver er staðan gagnvart Fulham?
United vann Fulham 1-0 í október 2023 þegar Bruno Fernandes þrykkti inn marki rétt í blálokin. Fulham tapaði gegn Aston Villa í síðustu viku en hafði þar áður lagt Bournemouth. Það er eini deildarsigur liðsins síðan það vann Arsenal á gamlársdag en á þeim tíma hefur það unnið einn, gert þrjú jafntefli og tapað tveimur þannig að liðið er í tólfta sæti deildarinnar. Sigurgangan að undanförnu hefur skilað United í Evrópubaráttu, þrjú stig eru í Tottenham í fimmta sætinu og sex í Villa, sem þarf að fara að átta sig á að jólin eru löngu búin og rétt að hypja sig niður töfluna.
Hjá Fulham er Joao Palhinha í banni, Raul Jimenez meiddur og þeir Willian og Armando Broja tæpir.
Leikurinn hefst klukkan 15:00 á morgun laugardag. Er þetta fyrsti laugardagsleikur United síðan gegn Nottingham Forest í fyrra.
Sir Jim Ratcliffe er minnihlutaeigandi Manchester United
…the beginning of our journey to take Manchester United back to the top of English, European and world football, with world-class facilities for our fans.
Síðla í gær var staðfest að kaupum Sir Jim Ratcliffe á 25% af hlutabréfum Manchester United væri lokið og því síðasta skrefið stigið og hann er því formlega orðinn eigandi 27,7% hluta í félaginu. Þetta skýrist af því að hann, eða formlega séð, félag að fullu í eigu hans, Trawlers Limited, kaupir 25% af öllum hlutum í félaginu, bæði A hlutum sem eru almennu hlutirnir sem verslað er með á opnum markaði, og B hlutum sem hingað til hafa eingöngu verið í eigu Glazer systkinanna og bera tífalt atkvæðavægi. Síðan lagði Sir Jim inn tvöhundruð milljónir inn í félagið í formi nýs hlutafjár og skiptist það líka jafnt milli A og B hluta. Í desember koma svo hundrað milljónir að auki og þá ætti Sir Jim að eiga um 29%.
Verð á hlut var þrjátíu og þrír dollarar, en hæst fór gengi hluta í rúma tuttugu og fjóra dollara í júní síðastliðinn þegar líkur voru á fullri yfirtöku og sjeiksslúðrið fór sem hæst. Í dag er það sautján dollarar og Sir Jim því að yfirborga rækilega.
En hvað fær hann fyrir peninginn sinn?
Stjórn knattspyrnulegra mála
Þegar yfirtakan var kynnt kom það mest á óvart að formlega var staðfest að Sir Jim myndi fara með alla stjórn knattspyrnulegra málefna þrátt fyrir að eiga mikinn minnihluta í félaginu. Þetta skýrir meira en annað hvers vegna hann hefur tekið í mál að verða minnihlutaeigandi, því eftir allt saman er erfitt að sjá hvernig félag undir stjórn Glazera ætti að gera þær gloríu inni á velli sem stæðu undir yfirborguninni.
Þó það sé ekki fyrr en nú að formlegheitunum hafi verið fullnægt, staðfestingar komnar frá úrvalsdeildinni og enska knattspyrnusambandinu var það ljóst að frá því að tilkynningin um væntanleg kaup kom að engum tíma var eytt í að koma fótunum undir borðið á Old Trafford. Sir Jim og Sir Dave Brailsford, hægri hönd hans í íþróttamálefnum, mættu og hafa sett í gang fullkomna yfirferð á öllum knattspyrnutengdum málum í félaginu. Síðasta slúður er að þeir sjái möguleika á að taka rækilega til og fækka starfsfólki svo um munar, jafnvel allt að 300 manns.
Ráðningar
Það er ólíklegt að milljónirnar tvöhundruð fari í leikmannakaup þannig stóru fréttirnar sem hafa fylgt kaupum Sir Jim hafa verið utan vallar. Í janúar réði United til sín Omar Berrada frá Manchester City til að gegna starfi framkvæmdastjóra. Berrada er nú að rækta garðinn sinn og tekur við starfinu í sumar. Hann er með ansi fína starfsskrá eftir að hafa unnið í tæp þrettán ár hjá Manchester City. Þetta leit út eins of fullkomlega undan rifjum Ratcliffe runnið en Glazerar fullyrða að þeir hafi komið að málum og samþykkt. Það er nú gott.
Næsta mál á dagskrá er að ráða undirmenn Berrada. Dan Ashworth er íþróttalegur stjórnandi Newcastle United en er núna eins og Berrada kominn í frí, því United vill fá hann, er búið að fá samþykki frá Ashworth og bíður nú bara eftir að semja við Newcastle. Newcastle vill tuttugu milljónir punda en United ætti ekki að samþykkja það.
Þó mikið hafi verið talað um hvaða leikmenn Ashworth hafi átt þátt í að kaupa hjá Newcastle og Brighton (og stundum nefndir þeir sem hann kom engan veginn að) virðist á hreinu að yfirmaður leikmannakaupa verði ráðinn til að starfa undir stjórn Ashworth og hefur nafn Jason Wilcox sem nú starfar hjá Southampton. Nýjasta nýtt kemur frá Daily Mail og það er að Wilcox verði yfir „árangurmálum“ og vinna m.a. með Brailsford með nýjustu íþróttavísindi í huga. Svo eigi líka að ráða þann sem verði yfir innkaupagreiningu. Báðir þessir myndu vinna undir Ashworth sem aftur væri undir Berrada.
Ofar í skipuritinu er auðvitað stjórn félagsins, og það hefur verið nokkuð ljóst frá upphafi að Sir Dave Brailsford og Jean-Claude Blanc muni taka sæti þar fyrir hönd nýrra eiganda. Einnig mun Berrada sitja í stjórn.
Formlegheitum lokið, öll vinnan eftir
Í yfirlýsingu Ineos í gær sagði Sir Jim:
„To become co-owner of Manchester United is a great honour and comes with great responsibility. This marks the completion of the transaction, but just the beginning of our journey to take Manchester United back to the top of English, European and world football, with world-class facilities for our fans. Work to achieve those objectives will accelerate from today.“
Þetta eru stór orð. Nú þarf að standa við þau. Ef síðustu tíu ár hafa kennt okkur eitthvað er það að skuldirnar sem yfirtaka Glazera hlóð á félagið hafði líklega bara jafn slæm áhrif ef ekki minni en arfaslök stjórnun þeirra. Nú er komin ný hönd á plóg, og miðað við fyrstu verk er allt í lagi að vera svolítið bjartsýn á framtíðin.