Meiðsladjöfullinn er mættur á ný í herbúðir Manchester United fyrir leikinn gegn Fulham á Old Trafford á morgun og hefur lokkað til sín Rasmus Höjlund og Luke Shaw. Við því mátti United vart þar sem varamenn þeirra eru ýmist meiddir, ekki til eða óharðnaðir unglingar.
Höjlund verður frá næstu tvær vikurnar og Shaw trúlega út tímabilið eftir að hafa verið skipt út af í uppbótartíma fyrri hálfleiks í sigrinum á Luton á sunnudag.
United á ekki marga kosti fyrir Höjlund. Anthony Martial er meiddur eins og venjulega. Síðdegis í dag hafa miðlar greint frá því að Omari Forson kunni að fá stóra tækifærið. Hann er fyrst og fremst kantmaður en var settur fram þegar Höjlund var búinn á því gegn Wolves og fékk skráða á sig stoðsendingu í sigurmarki Kobbie Mainoo.
Marcus Rashford hefur oft spilað frammi en uppskeran hjá honum þar var engin í byrjun tímabils. Þótt hann hafi hvorki raðað inn mörkum né stoðsendingum af vinstri kantinum þá hefur liðinu vegnað vel með hann þar að undanförnu. Fari hann fram þá stendur baráttan um kantstöðuna milli Amad Diallo, Anthony og Forsons.
Réttfættur leikmaður í vinstri bakverði
Viktor Lindelöf og Sofyan Amrabat hafa hlaupið í skarðið í vinstri bakvarðastöðunni sem og Diego Dalot. Að spila Portúgalanum þar gæti komist næst því að fylla upp í sendingagetu Shaw en gæti skapað ný vandamál í hægri bakverðinum þar sem Dalot hefur spilað sérlega vel að undanförnu.
Í báðum tilfellum er spurningin hversu miklar breytingar Erik Ten Hag er tilbúinn að gera á liði sem erfitt er að segja að hafi spilað vel að undanförnu en það hefur að minnsta kosti skorað mörk og unnið leiki. Tyrrell Malacia og Aaron-Wan Bissaka ættu undir eðlilegum kringumstæðum að létta undir í bakvarðastöðunum en ekkert spurðist til þeirra, frekar en Mason Mount, á fréttamannafundi Ten Hag í morgun. Vefsíðan Premier League Injuries telur þá líklega til baka um miðjan mars, sem er alltof langur tími.
Athyglin á fundinum í morgun var á fyrirætlunum nýrra stjórnenda United og sagðist Ten Hag eiga afar góð samskipti við þá. Öll vitum við þó að á endanum eru það úrslit leikjanna og staðan í deildinni sem ræður og þar grafa síendurtekin meiðsli undan stjóranum.
Hver er staðan gagnvart Fulham?
United vann Fulham 1-0 í október 2023 þegar Bruno Fernandes þrykkti inn marki rétt í blálokin. Fulham tapaði gegn Aston Villa í síðustu viku en hafði þar áður lagt Bournemouth. Það er eini deildarsigur liðsins síðan það vann Arsenal á gamlársdag en á þeim tíma hefur það unnið einn, gert þrjú jafntefli og tapað tveimur þannig að liðið er í tólfta sæti deildarinnar. Sigurgangan að undanförnu hefur skilað United í Evrópubaráttu, þrjú stig eru í Tottenham í fimmta sætinu og sex í Villa, sem þarf að fara að átta sig á að jólin eru löngu búin og rétt að hypja sig niður töfluna.
Hjá Fulham er Joao Palhinha í banni, Raul Jimenez meiddur og þeir Willian og Armando Broja tæpir.
Leikurinn hefst klukkan 15:00 á morgun laugardag. Er þetta fyrsti laugardagsleikur United síðan gegn Nottingham Forest í fyrra.