Á morgun mætir Manchester United á erfiðan útivöll í Leicester þar sem meistararnir frá því 2016 taka á móti okkur. Eins og flestum er kunnugt tók United sitt fyrsta feilspor í miðri vikunni þegar liðið lenti 0-2 undir gegn Burnley á Old Trafford. Liðinu tókst þó að bjarga andlitinu með tveimur síðbúnum mörkum en engu að síður 2 töpuð stig í baráttunni um Meistaradeilarsæti.
En slagurinn um 4. sætið er orðin ansi spennandi og á United ágætis möguleika að skáka bæði Arsenal og Chelsea, nokkuð sem margir (þar á meðal síðasti stjóri) töldu ógerlegt á þeim tíma sem Ole Gunnar tók við. Eins og staðan er í dag er United einungis 2 stigum á eftir Lundúnarliðunum og vantar einungis fjögur mörk.
Með sigri í næsta leik gæti United því komist upp fyrir bæði þessi lið en það verður að teljast ólíklegt því þá þyrfti Chelsea að tapa á heimavell fyrir botnliðinu sem hefur einungis náð í eitt jafntefli í síðustu TÓLF leikjum, hinir hafa allir tapast. Það sem er hins vegar mun líklegra er að Arsenal tapi stigum en skytturnar ferðast til Manchesterborgar og keppa við ríkjandi meistara en Arsenal hefur ekki tekist að sigra útileik gegn einu af stóru liðunum í deildinni í lengri tíma.
https://twitter.com/realkevinpalmer/status/1091636089889189888?s=21
Leicester City
En þá skulum við huga að mótherjunum okkar og einbeita okkur að þeim frekar en að gleyma okkur í EF og HEFÐI því að gestgjafarnir í Leicester City eru sko sannarlega sýnd veiði en ekki gefin. Refirnir, eins og þeir eru gjarnan kallaðir, sitja í 11. sæti deildarinnar með 32 stig en geta með sigrinum skotist upp að hlið Wolves sem er næsta lið á eftir United á töflunni.
Refirnir hafa verið að gera fína hluti inn á milli en hafa engan veginn fundið stöðugleika á þessu tímabili. Liðið tapaði fyrir Newport í FA-bikarnum snemma í janúar, þrátt fyrir að hafa verið með tiltölulega sterkt byrjunarlið og lágu einnig á heimavelli fyrir Cardiff rétt fyrir áramót. En í leiknum á undan því sigruðu þeir Manchester City og í síðustu umferð tókst þeim að taka stig frá Anfield. Þeir sem sáu líka 4-3 leikinn gegn Wolves í síðustu viku vita að Leicester er fullfært um að skapa sér góð færi og spila skemmtilegan fótbolta en liðið virðist bara vera mjög misvel stemmt í leiki.
Það er því spurning hvort að nýjasti leikmaðurinn í hópnum, Youri Tielemans, hafi verið fenginn til þess að reyna að ná fram einhverjum stöðugleika í liðið. Belgíski landsliðsmaðurinn kemur á láni frá AS Mónakó frá Frakklandi en Mónakó er í bullandi vandræðum og er 1 stig frá botninum. Miðjumaðurinn hefur því líklegast viljað flýja sökkvandi skip og stokkið á tækifærið til að spila í ensku deildinni en það má telja næsta víst að ef Mónakó fellur um deild þá fari Tielemans alfarið frá liðinu enda þykir þessi 21 árs gamli leikmaður gríðarlegt efni.
James Maddison kom til liðsins í sumar glugganum en þessi 22 ára gamli sóknarmiðjumaður var lykilleikmaður hjá Norwich á síðustu leiktíð og var í kjölfarið orðaður við mörg af stóru liðunum í Evrópu. Maddison hefur náð að halda uppteknum hætti í Úrvalsdeildinni og hefur verið einn af bestu mönnum Leicester í vetur en englendingurinn er með 5 mörk og 4 stoðsendingar á tímabilinu.
Rachid Ghezzal er annar leikmaður sem gékk til liðs við refina í sumar en hann átti að vera arftaki Riyad Mahrez en hefur engan veginn staðið undir væntingum og hafa margir stuðningsmenn liðsins gagnrýnt hann eftir frammistöðu hans í Carabao bikarnum þegar liðið datt út gegn Manchester City. Alsíringurinn hefur einungis skorað 1 mark og virðist ekki vera að ná að fóta sig í deild þeirra bestu á Englandi og hefur þurft að verma bekkinn ítrekað núna upp á síðkastið.
Leicester fékk enga aðra leikmenn í janúarglugganum en þeir Adrian Silva, Callum Elder, Vincente Iborra, Fousseni Diabate, Yohan Benalouane og Andy King fóru frá liðinu, ýmist á láni eða voru keyptir.
Claude Puel, stjóri refanna, hefur náð ágætis samheldni í hópnum og sagði fyrir leikinn að þeir ættu góða möguleika þar sem leikmenn liðsins væru fullir sjálfstrausts eftir leikinn við Liverpool. Reyndar er ekki langt síðan verið var að ræða hvort Puel yrði næsti stjóri til að fjúka og einhverjir vilja meina að hann sé undir pressu en liðið hefur einungis náð í 11 stig úr síðustu 10 leikjum sínum. Það verður að teljast ólíklegt að hann verði látinn taka pokann sinn, sérstaklega eftir að liðið hefur náð jafntefli við toppliðið og sigrað ríkjandi meistara með stuttu millibili.
En fyrir leikinn á morgun má reikna með að Claude Puel stilli upp sínu sterkasta liði og þar verða fastamenn eins og Harry Maguire, Jamie Vardy og James Maddison ásamt Ricardo Pereira sem er fantastuði þessa dagana. Annars gæti liðið litið svona út:
Manchester United
Eins og þorrinn af stuðningsmönnum United vita þá hefur gengi liðsins eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við verið draumi líkast. En það hlaut að koma að því að United menn og konur vöknuðu upp af þeim draumi en fæstir áttu kannski von á því að það yrði gegn Burnley á Old Trafford eins og hann Magnús Þór kom inn á eftir leikinn á þriðjudaginn. En eins og Solskjær sagði eftir leikinn þá var mjög gott að sjá liðið sýna karakter og þrautseigju eftir að hafa lent 0-2 undir. „Núna höfum við svarið við spurningunni hvort liðið geti komið til baka eftir að hafa lent einu marki undir eða jafnvel tveimur mörkum undir“ – Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Burnley.
En stærstu fréttir úr herbúðum United eru líklegast þær að Anthony Martial var að skrifa undir nýjan fimm ára samning en margir voru farnir að óttast það að sá franski myndi fara í sumar en svo virðist sem „feel-good-factor“-inn sem fylgir Solskjær hafi auðveldað undirskriftina og við vonum bara að penninn léttist hjá öðrum leikmönnum liðsins eins og David de Gea en viðræður við hann um nýjan samning eru búnar að dragast á langinn.
Það er líka að sjá á leikmönnum liðsins að þeir eru að njóta þess að spila enda hefur gengi liðsins (WWWWWWWWD) verið eftir því. Solskjær hefur tekist að finna sitt sterkasta lið á örfáum vikum nokkuð sem fyrri stjóra tókst ekki á tæpum 3 tímabilum við stjórn. Eftir mislukkaðar róteringar á miðjunni í síðasta leik verður að teljast líklegt að Solskjær fari aftur í Herrera-Pogba-Matic miðjuna enda hefur miðjan hjá okkur verið afskaplega sterk og traust á Solskjær tímabilinu. Liðið verður að öllum líkindum eitthvað á þennan veg:
Enginn Marouane Fellaini verður í hópnum enda fór kappinn til Kína undir lok gluggans en svo virðist sem hann hafi ekki hent leikstíl Solskjær sem vill byggja upp á hröðu spili og stöðugri skyndisóknarógn, nokkuð sem belginn var kannski minna þekktur fyrir.
Chris Smalling er aftur orðinn heill og gæti byrjað leikinn og Martial ætti að vera það sömuleiðis en líklega munu Juan Mata, Romelu Lukaku og Andreas Pereira allir missa sæti sitt í liðinu eftir slaka frammistöðu gegn Burnley. Nú er bara að bíða og sjá hvort liðinu takist að snúa aftur á sigurbraut og setja pressu á Arsenal og Chelsea í baráttunni um þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
United hefur gengið nokkuð vel gegn refunum en í síðustu 21 viðureign liðanna (bikar og deild) hefur Leicester einungis tekist að sigra eina þeirra meðan United hefur unnið 16! Reyndar hafa Claude Puel og hans menn bara sigrað 4 leiki á heimavelli það sem af er af leiktíðinni svo nú er um að gera að hamra járnið á meðan það er heitt og ná í 3 stig á morgun. Glory, glory!