Manchester United vann góðan og öruggan 4-1 sigur á Bournemouth í síðasta leik ensku Úrvalsdeildarinnar á þessu ári. Leikurinn fór rólega af stað en United liðið virtist einstaklega yfirvegað og einbeitingin skein af hverjum leikmanni. Ole Gunnar Solskjær gerði 4 breytingar frá síðasta leik en byrjunarliðið leit svona út:
Strax á 5. mínútu fékk Marcus Rashford boltann út á hægri vængnum, í raun alveg út við hliðarlínuna, meðan Nathan Aké sótti að honum. Rashford setti boltann öfugu megin við Bournemouth-manninn og tók svo flotta gagnhreyfingu og skildi annan varnarmann eftir og komst sér snyrtilega inn í teiginn. Þegar þangað var komið kom fyrirgjöf frá honum sem Paul Pogba náði að pota í markið. Glæsileg byrjun hjá okkar mönnum sem vildu greinilega halda áfram uppteknum hætti og skora snemma í leiknum.
Skömmu síðar var Anthony Martial næstum kominn inn fyrir en Asmir Begovic var vel á verði og var kominn langt út úr markinu til að hreinsa boltann burt. Á næstu mínútum var United mikið með boltann á vallarhelmingi gestanna. Nemanja Matic átti flotta vippu yfir vörnina sem Pogba skallaði niður fyrir fætur Rashford sem hamraði boltann í andlitið á Aké og þaðan í horn.
Næst áttu gestirnir færi eftir að fyrirgjöf, sem virtist reyndar fara í höndina á einum þeirra, datt fyrir fætur Callum Wilson en vörn United stóð sína vakt og komst fyrir skotið. Bournemouth fóru að pressa meira og hærra upp á völlinn en voru ekki nógu skapandi til að valda vörninni miklum vandræðum. Eitt hættulegasta færið kom eftir hornspyrnu þegar Nathan Aké skallaði boltann niður milli lappanna á Ander Herrera og síðan er boltanum komið úr teignum með einhverjum neðri deildaraðferðum
Í næstu sókn heimamanna fékk Ashley Young boltann á hægri vængnum eftir sendingu frá Herrera en sá enski lagði boltann til baka á þann spænska sem átti frábæra fyrirgjöf inn í miðjan vítateig gestanna. Þar virtist einhver vera búinn að koma fyrir trampólíni fyrir Paul Pogba sem sveif um einum og hálfum metra ofar en allir aðrir í teignum og stangaði boltann inn af miklum krafti og tvöfaldaði forystuna.
Matic átti svo enn eina lagega sendingu þegar hann vippaði boltanum yfir vörnina og fyrstur á boltann var enginn annar en Martial sem vippaði sömuleiðis fyrir markið þar sem Rashford náði að stýra boltanum framhjá Begovic í markinu. Staðan orðin 3-0 og okkar menn léku á alls oddi.
Bournemouth menn mega þó eiga það að þeir lögðu ekkert árar í bát og tókst að skora rétt undir lok fyrri hálfleiks með skallamarki frá Nathan Aké eftir hornspyrnu, enn eitt markið sem United fær á sig eftir hornspyrnu og hefur ekkert lið í deildinni fengið fleiri mörk á sig eftir horn.
Síðari hálfleikur var mun rólegri og lítið marktækt sem gerðist fyrstu 10 mínúturnar og hættulegustu færin voru mesta lagi hálffæri og oft dæmd rangstaða á okkar menn. Það var ekki fyrr en á 65. mínútu að Rashford komst einn inn fyrir eftir flotta stungu frá Pogba en Begovic var fljótur út á móti og lokaði á hann.
Bournemouth virtist vakna eftir þetta og gáfu heldur betur í og komust í álitlega sók strax í kjölfarið en Bailly lokaði vel fyrir skotið. Á 70. mín kom fyrsta skiptingin en Rashford fór út fyrir Romelu Lukaku, sem hefur verið í tímabundnu leyfi, en sá belgíski var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Paul Pogba átti þá enn eina heimsklassasendinguna þegar hann sendi boltann á Lukaku, sem var reyndar rangstæður, sem tók boltann inn í teig og lagði boltann fagmannlega framhjá Begovic og breytti stöðunni í 4-1.
Næstur til að koma inn á var Andreas Pereira en hann kom inn fyrir Ander Herrera til að spila síðasta korterið og líklegast hefur Ole Gunnar Solskjær vilja færa ró yfir leikinn. Ole varð ekki alveg að ósk sinni því Eric Bailly sýndi af sér ákaflega mikið dómgreindarleysi örskömmu síðar þegar hann lét reka sig útaf með beint rautt spjald. Síðasta skiptingin varð því Phil Jones inn fyrir Martial.
United héldu vel boltanum það sem eftir lifði leiks og tókst vel að koma í veg fyrir að Bournemouth næði að skapa sér nokkuð eða ógna markinu af ráði fyrir utan eitt skot frá Andrew Surman. Leiknum lauk eins og áður sagði með 4-1 heimasigri United.
Pælingar að leik loknum
Þá er 2018 leikárið á enda og ánægjulegt að fara inn í nýtt ár með þessum brag. Hvern hefði órað fyrir því að Ole Gunnar Solskjær gæti fengið þetta lið til að spila jafn vel jafn hratt og raun bar vitni. Blússandi sóknarleikur sem endurspeglast í tólf mörkum í þremur leikjum undir stjórn Ole. Allir þeir sem fylgst hafa með þessum leikjum hafa eflaust tekið eftir breytingunum á liðinu. Leikmenn eru aftur tilbúnir til að deyja fyrir klúbbinn, gefa sig allan í verkefnið og það sást vel í leiknum áðan, Matic að taka spretti á 92. mínútu, Pogba að sinna varnarvinnu allan leikinn og varnarmenn okkar að fá dæmda á sig rangstöðu.
Pogba virðist líka vera að finna stöðugleika en Ole Gunnar sagði eftir leik að lykillinn að því hefði verið að fá Pogba til að hætta með allar skrautsýningar á vellinum og einbeita sér að því að spila fyrir liðið. Eitthvað virðist það vera búið að hafa áhrif því Pogba hefur verið stórkostlegur í síðustu leikjum og var án nokkurs vafa maður leiksins í dag, með tvö mörk og stoðsendingu. Betri árangur í 3 leikjum undir Ole en í 14 leikjum undir José Mourinho á þessari leiktíð (3 mörk / 3 stoðsendingar hjá Mourinho gegn 4 mörkum / 2 stoðsendingum undir Ole).
Það skín líka leikgleði úr andlitum leikmanna og stuðningsmennirnir hafa líka smitast af jákvæðninni í kjölfarið. Andrúmsloftið á Old Trafford og í búningsklefanum er mun léttara og gleðilegra sem skilar sér í betri spilamennsku og árangri. Það er vonandi að Ole Gunnar Solskjær geti haldið liðinu í þessari sigurvímu fram á næsta ár og haldið skriðþunganum sem fylgir liðinu núna til að gera raunverulega atlögu að meistaradeildarsæti.
Þó svo að mörgum hverjum geti sýnst sem allt sé nú gott þá getum við ekki litið framhjá því að liðið er gersamlega ófært um að halda hreinu og hefur í raun bara tekist það tvisvar sinnum í deildinni, gegn Burnley og Crystal Palace.
Við skulum þó gefa Ole Gunnar lengri tíma til að laga það en það sem hefur kristallast bersýnilega í stjórnartíð Ole er þörf okkar á sönnum hægri kantmanni og heimsklassa akkeri í hjarta varnarinnar með leiðtogahæfileika.
Marcus Rashford klikkaði enn einu sinni einn á móti markmanni en strákurinn hefur vonandi mjög gott af því að fá stjóra sem var heimsklassaframherji og vonandi tekst honum að kenna Rashford eitt og annað sem nýst getur honum í slíkum færum. En leikmannahópurinn hefur fengið auka orku og trú á sjálfa sig og þegar liðið spilar svona vel verða leikmenn að grípa þau tækifæri sem gefast og hungrið eykst.
Ole Gunnar Solskjær sagði við upphaf stjóratíðar sinnar að allir fengju séns og það er ánægjulegt að leikmenn eins og Angel Gomez, Andreas Pereira og Fred virðast vera ofar á blaði en þeir voru hjá José Mourinho. Það er þó mjög mikill hausverkur fyrir Ole að breyta mikið liðinu milli leikja þegar liðið skorar að meðaltali 4 mörk í leik en það skila sér í dag og vonandi tekst þeim norska að halda skútunni á fullri siglingu langt inn í nýja árið. Það sem mestu munar er að nú hlakkar maður til hvers einasta leik, nokkuð sem undirritaður getur ekki sagt að hann hafi gert fyrir stjóraskiptin.
Glory, glory!!