Síðast þegar þessi tvö lið mættust á þessum velli vöru úrslitin ekki uppá marga fiska og undirritaður einnig á þeirri skýrslu. Þau úrslit voru kornið sem fyllti mælinn hjá stuðningsmönnum United sem vildu leyfa David Moyes að fá tíma til að gera eitthvað af viti. Þetta var einmitt alræmdi fyrirgjafaleikurinn.
Eins og allir vita þá hefur þetta tímabil verið ansi dapurt hjá okkur mönnum og velgengni City og Liverpool er ekkert að hjálpa. Eins og fram kom í upphitun skipti Fulham um stjóra fyrir stuttu í von um að halda sér í efstu deild. Það kom svo sem ekki mjög á óvart að Paul Pogba byrjaði annan leikinn í röð á bekknum en Romelu Lukaku fékk að byrja. Það var mjög ánægjulegt að sjá Diogo Dalot byrja í fyrsta sinn í deildarleik en Luke Shaw var ekki með vegna meiðsla. Chris Smalling og Phil Jones ásamt Ashley Young fullkomnuðu svo fjögurra manna varnarlínuna. Mourinho ákvað að stilla upp þriggja manna miðju en hana skipuðu þeir Nemanja Matic, Juan Mata og Ander Herrera. Fyrir framan þá voru þeir Jesse Lingard, Marcus Rashford og Lukaku.
United byrjaði leikinn nokkuð vel og virkaði liðið sprækt. Það varð ansi fljótt ljóst að Fulham er ekki neðsta sætinu án ástæðu. Á þrettándu mínútu sólaði Young sig í gegnum vörn gestanna og skoraði laglega framhjá vesalings Rico í markinu. Kortéri síðar lagði Rashford upp mark fyrir Mata sem átti góðan leik í dag. Fjórtán mínútum eftir markið átti Mata svo sjálfur sendingu fyrir markið á Lukaku sem að kláraði auðveldlega. Þetta var fyrsta mark Lukaku á Old Trafford síðan í mars. Staðan var því 3:0 þegar flautað var til hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn var langt því jafn skemmtilegur og sá fyrri. United slakaði of mikið á og gáfu Fulham fullt af sénsum til að komast aftur inn í leikinn. Um miðjan hálfleikinn kom loks að því. Herrera braut á Kamara inni í teig og vítaspyrna var dæmd sem að Kamara skoraði sjálfur örugglega úr. Fulham voru enn að fagna markinu þegar Anguissa fékk sitt annað gula spjald og gestirnir því einum manni færri restina af leiknum. Tíu mínútum fyrir leikslok innsiglaði Rashord 4:1 sigur með laglegu skoti en markvörður Fulham hefði nú líklega átt að gera betur.
Næst á dagskrá er leikur sem skiptir nánast engu máli þann 12. desember gegn Valencia. En sunnudaginn í næstu viku mætir United á Anfield og gætu úrslit þar haft mikil áhrif á stöðu José Mourinho.
Varamenn: S.Romero, Marcos Rojo (Smalling 59′), A.Pereira, Fellaini, Fred (Lingard 73′), McTominay (Rashford 84′), Pogba