United liðið heimsækir Aston Villa á Villa Park í Birmingham á morgun, sunnudag, klukkan 16:30 að íslenskum tíma. Aston Villa liðið er sex stigum á undan rauðu djöflunum og situr í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á meðan United er í sætinu fyrir neðan. Það þarf því ekkert að útskýra í þaula afhverju leikurinn á morgun er gríðarlega mikilvægur fyrir United, ef að liðið ætlar að eiga einhvern séns á því að blanda sér í baráttuna um meistaradeildarsæti þá verður liðið að gjöra svo vel og vinna Villa.
United hefur verið á ágætis skriði á nýju ári, liðið er ósigrað árið 2024 og hefur unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli. Það verður þó að taka fram að tveir af þessum sigurleikjum komu gegn Newport County og Wigan Athletic en við veljum ekki mótherjana. Aðra sögu er að segja af Aston Villa sem hefur aðeins verið að fatast flugið að undanförnu. Liðinu hefur gengið ótrúlega vel á tímabilinu og hápressa og háa lína Unai Emery hefur leikið marga andstæðingana grátt á þessu tímabili. Svo virtist ætla að vera raunin þegar að þessi lið mættust á annan í jólum á Old Trafford en þrátt fyrir að hafa lent 0-2 undir, rifu djöflarnir sig í gang og unnu að lokum 3-2 með sigurmarki frá Rasmus Hojlund sem var hans fyrsta í úrvalsdeildinni. Síðasti leikur United var sigurleikur á heimavelli gegn West Ham 3-0 (loksins þægilegur sigur). Aston Villa sigraði lánlaust lið Sheffield United auðveldlega í síðasta leik Birmingham liðisins í úrvalsdeildinni 0-5. Villa átti þó leik gegn Chelsea í FA bikarnum í miðri viku þar sem fyrri leikurinn fór 0-0 en Chelsea fór með sigur af hólmi frá Birmingham 1-3.
Bæði lið hafa verið að glíma við talsverð meiðsli að undanförnu en svo virtist sem farið væri að sjá til sólar hjá United, þegar að liðið mætti Wolves 1. febrúar og Ten Hag gat stillt upp sínu besta liði líklegast í fyrsta sinn á tímabilinu. Adam var þó ekki lengi í paradís því Lisandro Martinez meiddist í síðasta leik gegn West Ham og lítur út fyrir að hann verði frá í u.þ.b. sex vikur ef ekki lengur. Varane og Maguire ættu þó vonandi að geta staðið í vörninni á meðan, en maður sá þó um leið og Martinez koma aftur inn í lið United þá breytist hellingur til hins betra.
Aston Villa er í álíka brasi í vörninni sinni, Konsa meiddist í síðasta leik, Mings er meiddur sem þýðir að Clement Lenglet hefur þurft að spila mikið að undanförnu sem er slæmt fyrir Villa en væri gott fyrir United. Það eru þó einhverjar sögusagnir um það að Pau Torres verði tilbúinn um helgina og gæti byrjað. Hann er þó búinn að vera lengi frá og það gæti þótt áhættusamt að henda honum strax í byrjunarliðið.
Þetta gæti orðið mjög áhugaverður leikur, United voru mjög góðir í síðasta leik liðanna og áttu ekki skilið að lenda 0-2 undir. Það verður áhugavert að sjá hvort Unai Emery muni þráast við og ríghalda í þessa gríðarlega háu varnarlínu sem hann hefur gert með Aston Villa. United leikmennirnir nýttu sér það trekk í trekk í leik liðanna í desember. Þrátt fyrir það þá eru Aston Villa alltaf beinskeyttir og hættulegir fram á við og þó að United takist að skora þá getur þetta Villa lið alveg „out-score“-að United.
Líklegt byrjunarlið:
Við þurfum ekkert að reyna að vera sniðug varðandi líklegt byrjunarlið, þetta er besta byrjunarlið sem völ er á þegar Martinez er meiddur þannig ef ekkert annað kemur í ljós á morgun þá held ég að þetta verði alveg örugglega liðið.
Dómari leiksins er Robert Jones
Stuðullinn á bet365 er Aston Villa – 2,15 / Jafntefli – 3,75 / United – 3,10