Eftir leikinn gegn Brighton
Eftir 3:2 tapið gegn Brighton í annarri umferð þá var mikið talað um letilegan og leiðinlega fótbolta af hálfu Manchester United. Einnig var talað um að José Mourinho væri búinn að tapa klefanum og að leikmenn væru hættir að spila fyrir stjórann sinn. Tvíeykið Eric Bailly og Victor Lindelöf voru sérstaklega gagnrýndir ásamt Paul Pogba sem hafði verið með dylgjur í fjölmiðlum um að hann mætti ekki segja það sem hann mætti segja.
Leikurinn gegn Tottenham
Spólum svo áfram til leiksins gegn Tottenham á Old Trafford. Miðvarðaparið missti sætið sitt í byrjunarliðinu og Bailly komst ekki í hóp. Liðið spilaði fljótandi og skemmtilegan fótbolta í fyrri hálfleiknum og á einhvern óútskýranlegan hátt mistókst liðinu að skora mark. Það virtist sem að stjórinn væri ekki búinn að tapa klefanum og þegar flautað var til hálfleiks þá vorum við bjartsýn fyrir seinni hálfleikinn. Á fyrstu sjö mínútum seinni hálfleiksins skoraði svo Tottenham tvisvar og hafði svo gott sem klárað leikinn eftir slakan varnarleik United, ótrúlegt en satt. Gestirnir skoruðu svo þriðja markið sitt nokkrum mínútum fyrir leikslok og 0:3 tap staðreynd.
Hver ber ábyrgðina?
Mikil umræða er nú um að reki eigi Mourinho því þetta sé óásættanlegt. Ég vil taka það fram að ég er enginn Mourinho klappstýra þó svo ég búi yfir ákveðnum eiginleika sem kallast almenn skynsemi. Ég er mjög viss um það að reka Mourinho núna sé fáránlegt því að í fyrsta lagi ber hann ekki alla sökina á þessu ástandi. Ed Woodward neitaði honum um leikmann sem hefði 100 prósent bætt liðið og það er fáránlegt að halda öðru fram. Toby Alderweireld var frábær í vörn Tottenham og hann myndi vera okkar besti miðvörður en ekki fimmti besti eins og Woody á að hafa haldið fram.
Ed Woodward bauð José Mourinho nýjan samning í janúar sem að sá síðarnefndi skrifaði undir en það var framlenging til ársins 2020. Það væri hægt að afsaka það að túlka það sem stuðning við störf stjórans og vilja til að hjálpa honum við að byggja upp lið sem gæti barist um titla. En þessi nýliðni sumargluggi var eitt fíaskó. Leikmennirnir sem komu inn voru Lee Grant, 35 ára þriðji markvörður. Diogo Dalot kornungur hægri bakvörður og Fred. Sem hluti af innkaupum voru þetta ekki slæm viðskipti en sú staðreynd að þetta séu einu kaupin eru það.
Ég veit ekki hversu oft var talað um það hér að það sem þyrfti væri miðvörður, jafnvel tveir þar sem núverandi leikmenn væru ekki nógu góðir. Þetta er enn staðan í dag. Woodward sagði að hann hefði gefið leyfi til að kaupa Rafael Varane sem var aldrei nokkurn tíma að fara að gerast. En þetta gerist þegar maður með enga knattspyrnuþekkingu er í þessari stöðu. Hann hefur sýnt að hann vilji bara kaupa einhverjar stjörnur með endursölumöguleika frekar en leikmenn sem myndu styrkja liðið í dag og næstu ár.
Vissulega keypti Mourinho þá Lindelöf og Bailly til liðsins á samtals 60 milljónir punda sem í nútímafótboltanum er ekki það mikill peningur. Þeir eru báðir bara 24 ára og hafa þurft að læra af Marcos „brennt brauð“ Rojo, Mike Smalling og Phil „alltaf með hækjur“ Jones. Það væri almenn skynsem að fá topp miðvörð með þeim tveimur sem hefur meiri reynslu ásamt því að vera frábær varnarmaður. Liðin í kringum okkur hafa eytt betur. Klopp fékk að kaupa Van Dijk þó svo að hann hafi keypt Matip. Guardiola fékk að kaupa helminginn af öllum varnarmönnum í heiminum þangað til að hann fann það sem hann vildi. En sumir vilja ekki að Mourinho fái að kaupa þriðja miðvörðinn.
José Mourinho er ekki að þjálfa lið eins Newcastle eða Burnley sem þurfa virkilega að vera skynsöm á markaðnum. Þegar lið á nægan pening til innkaupa er óhjákvæmilegt að sumir leikmenn verði ekki stjörnur, sérstaklega ef ekki má kaupa fullreynda leikmenn nema að takmörkuðu leyti. Samkvæmt Woodward þá á United helling af pening til að eyða. Vandamálið er að hann á lokaorðið.
Leyfi þessu að fylgja með, til að sýna nákvæmlega hversu miklar áhyggjur eigendurnir hafa líklega af stöðunni.
https://twitter.com/KieranMaguire/status/1034184454795915269