Einn slakasti leikur síðustu ára endaði með hroðalegu tapi í Brighton í dag.
Alexis Sánches meiddist á æfingu á föstudaginn og í stað hans kom Anthony Martial inn í liðið, Ashley Young kom inn fyrri Matteo Darmian og Romelu Lukaku fyrir Marcus Rashford. Að öðru leyti stillti United í sama 4-3-3 leikkerfi og á móti Leicester.
Varamenn: Grant, Smalling, Ander Herrera, Fellaini(60.m), McTominay, Lingard (45.m), Rashford (45.m)
Brighton var að mestu eins og spáð var í upphitun, Gaëtan Bong var í vinstra bakverði.
Leikurinn var frekar tilþrifalítill fyrstu mínúturnar, Brighton var síst verra liðið. Fyrsta alvöru skotið kom á 10. mínútu, Romelu Lukaku skaut framhjá í þokkalegu færi. Annars gekk betur hjá United að halda boltanum upp úr þessu og þeir leystu oftar úr hápressu Brighton en í svipuðum aðstæðum í fyrra. Ashley Young lék mikið upp kantinnn og gerði sig oft líklegan til að ná fyrirgjöfum, þó sjaldan yrði úr þeim.
Fyrsta skipting leiksins kom á 20. mínútu. Lewis Dunk var meiddur og fór útaf fyrir Leon Balogun.
Þó að United hefði haldið boltanum vel og varist ágætlega þá var það vörninni að kenna þegar Brighton náði forystunnu á 25. mínútu. Bong var úti á kanti, Young fór ekki í hann og Bong renndi á March. Bailly reyndi að fara fyrir en sending March fór gegnum klofið á Bailly á Glenn Murray sem fór alltof auðveldlega fram fyrir Lindelöf og skoraði með nettu skoti af markteig. Gríðarlega slakt og ekki var það betra tveimur mínútum síðar. Brighton fékk horn, Duffy sendi boltann þvert gegnum teiginn út á kantinn aftur. Gross gaf út í teiginn, Knockaert gaf á Duffy sem var óvaldaður og skoraði úr teiginum. Hörmulegur varnarleikur.
En það tók United innan við sex mínútur að minnka muninn, Horn Young fór út á Luke Shaw sem skaut í jörðina, boltinn skoppaði hátt og inn á markteig þar sem Lukaku var óvaldaður og skoraði með góðum skalla.
Það dugði ekki lengi. Brighton voru enn betra liðið og þegar þeir unnu boltann af Fred á miðjunni, gáfu fram á Pascal Gross sem var á leið frá marki ákvað Eric Bailly að henda sér í glórulausa tæklingu og taka hann niður. Gross sjálfur skaut á beint markið úr vítinu, boltinn fór í fætur De Gea og beint upp í þaknetið. 3-1 á 43. mínútu.
Eftir þennan hörmulega fyrri hálfleik hlaut Mourinho að gera breytingar og Marcus Rashford kom inná fyrir Juan Mata sem hafði verið hörmulega slakur og Jesse Lingard fyrir Andreas Pereira sem ég tók varla eftir að hefði verið inná.
Það er óhætt að hafa engin orð um fyrsta kortérið því það gerðist ekkert af viti. Fellaini var svo sendur inná á 60. mínútu fyrir Martial. Fellaini var allt í lagi svo sem en það var ekkert að frétta í leik United fyrr en á 75. mínútu þegar Ryan varði langskot Pogba. Þetta var fyrsta skot United á rammann síðan markið kom sem sýnir hversu hörmuleg frammistaða þetta var.
Loks á lokamínútu viðbótartíma fór Duffy í Fellaini inni í teig og Fellaini var heppinn að fá víti sem Paul Pogba skoraði örugglega úr en það breytti engu um úrslitin.
Þaðð er óhætt að segja að þetta hafi verði hrottalega lélegt á allan hátt. Vörnin gerði skelfileg mistök, Miðjan hvarf eftir að Brighton skoraði og það var ekkert að gerast framávið. Einu leikmennirnir sem eitthvað gerðu af viti voru Fellaini og Shaw, og Lukaku skoraði jú. Aðrir þurfa að skammast sín.
Það e rheldur ekki hægt að líta framhjá því að þetta lið lítur út eins og það hafi aldrei leikið saman og viti ekkert hvernig það eigi að leika. Það hlýtur að skrifast á Mourinho og það verður fróðlegt að heyra hvernig hann lætur gamminn geysa eftir leikin þó ég viðurkenni fúlega ég hlakki ekki til þess.
Zinedine Zidane hefur ekki leiðst að horfa á þetta ef rétt er sem slúðrað er að hann hafi áhuga á starfi Mourinho.