Í kvöld tóku nýliðarnir úr Brighton á móti okkar mönnum á fínu föstudagsfótboltakvöldi. Enginn Alexis Sanchez né Romelu Lukaku voru í hópnum í kvöld en framlínuna leiddu þeir Anthony Martial, Marcus Rashford og Juan Mata.
Þá fékk Anthonio Valencia langþráða hvíld og fyllti Matteo Darmian í skarðið fyrir hann en Ashley Young tók við fyrirliðabandinu annars var liðið:
Leikur fór vel af stað og virtust okkar menn vera staðráðnir í að setja mark sem fyrst. United fékk strax aukaspyrnu á stórhættulegum stað rétt fyrir utan teig strax á upphafsmínútum leiksins þegar Rashford tók á rás í átt að teignum og setti boltann snyrtilega á milli lappanna á Anthony Knockaert sem gat ekki annað en brotið á honum. Rashford tók spyrnuna sjálfur og setti stórhættulegan bolta inn í átt að markinu þar sem Fellaini var mættur fyrstur allra og snerti boltann lauflétt með lærinu sem var nóg til að trufla Mat Ryan í markinu. En markið fékk ekki að standa enda var Fellaini fyrir innan varnarlínu Brighton og réttilega dæmdur rangstæður.
United virtist byrja fyrri hálfleikinn mun betur án þess að ná að skapa sér mikið en Brighton unnu sig hægt og bítandi inn í leiki. Eftir þó nokkra pressu barst boltinn til Dale Stephens sem átti gott skot að markinu en boltinn fór rétt framhjá. Örskömmu síðar átti Pascal Gross svo skot sem de Gea var með allan tíma. Enn og aftur áttu Brighton menn skot þegar Glen Murray tók góðan snúning örstutt fyrir utan teig og hamraði boltann þar sem de Gea þurfti að hafa sig allan við að verja í horn.
Hér voru strax komnar blikur á loft enda var United búið að missa tökin á leiknum og heimamenn byrjaðir að taka völdin. Besta færi United kom þó þegar Dunk missti boltann of langt frá sér þegar hann rann og ungstirnið okkar, Rashford, var fljótur að átta sig á aðstæðunum og stal boltanum og keyrði niður endalínuna í átt að marki. Eitthvað virtist hann þó óákveðinn því að hann tapaði boltanum í horn en þess má geta að Martial var einn og óvaldaður beint fyrir framan markmannsteiginn og hreinlega ofar mannlegum skilningi afhverju Rashford renndi ekki boltanum á hann.
Aftur tók við hættulegur kafli hjá heimamönnum þar sem Izquierdo átti gott skot og stuttu síðar kom eitruð stungusending frá Anthony Knockaert inn fyrir vörn United á Gross sem var reyndar kominn í þröngt færi og de Gea var fljótur út að loka á hann.
Í síðari hálfleik bjóst maður við líflegra United liði enda auðséð á svipbrigðum José Mourinho í fyrri hálfleik að stjóranum var ekki skemmt. Þegar sá síðari var ný hafinn átti Glenn Murray groddalega tæklingu á Fellaini og uppskar réttilega fyrsta gula spjald leiksins. Annars var Craig Pawson ansi sparsamur á flautuna og lét leikinn ganga vel. Allt virtist vera á réttri leið og United hélt boltanum meira fyrstu mínúturnar en Anthony Knockaert, sem að mínu mati var sprækasti leikmaðurinn á vellinum, komst í álitlega sókn og þrumaði boltanum í Smalling og rétt yfir markið á 53. mín.
Aftur virtist United vera byrjað að missa tökin á leiknum og einungis fjórum mínútum síðar átti José Izquierdo flotta fyrirgjöf á Pascal Gross sem stangaði boltann af miklu afli í markið. Reyndar virtist Marcos Rojo hafa bjargað á línu en við nánari eftirgrennslan kom í ljós að boltinn fór örfá sentimetra inn í markið. Brighton komið í forystu og kominn tími á breytingar. Þær létu þó standa á sér og virtist Brighton frekar líklegra til að skora annað mark en að United myndi jafna.
Heimamenn vildu svo fá vítaspyrnu þegar Knockaert féll við rétt fyrir innan teig eftir að hafa farið illa með Martial, sem var hreint út sagt skelfilegur í þessum leik, en sem betur fer sparaði Craig Pawson flautuna.
Mourinho gerði loksins breytingar á liðinu á 67. mín þegar hann tók Fellaini og Darmian útaf og Lingard og Shaw komu inná. Litlu síðar kom McTominay inn fyrir Rojo en varamennirnir voru þeir líflegu á vellinum í rauðum skyrtum. Lítið markvisst gerðist þó í kjölfar skiptinganna og heimamenn sigldu sigrinum í höfn og þar með tryggðu þeir sæti sitt í efstu deild fyrir komandi tímabil.
Leikurinn minnir óneitanlega á hryllinginn á móti WBA í síðasta mánuði þar sem United virkaði andlausir, metnaðarlausir, vonlausir og umfram allt áhugalausir á verkefninu sem verður að teljast stórundarlegt miðað við að úrslitaleikurinn í FA-bikarnum er handan við hornið. Enginn útileikmaður sýndi stjóranum neitt sem réttlætir það að vera valinn í þann leik. Þó verður maður að setja spurningu við liðsuppstillinguna en miðjan okkar virkaði mjög stöðnuð, bakverðirnir voru lítið sjáanlegir og fremstu þrír voru allir að spila sitthvorn leikinn. Það var lélegt flæði, lítill ákafi og ekkert tempó sem kostaði okkur þennan leik.
Það var erfitt að kyngja þessum ósigri, sjálfur er ég með óbragð enn í munninum. Þetta lið okkar er eins og yo-yo, við getum áttu brillijant leiki og við getum átt „svona“ leiki. Núna hefur United tapað fyrir Newcastle, Huddersfield og Brighton, semsagt öllum nýliðunum. En á sama tíma hefur United unnið öll liðin í top6 og reyndar með 19 stig af 30 mögulegum þar. Það er greinilegt að Mourinho þarf að fara finna meiri stöðugleika og fá liðið til að mæta með rétt hugarfar inn í þessa „litlu“ leiki, honum er einfaldlega ekki að takast að hvetja leikmennina nógu mikið og kveikja upp nógu mikið hungur hjá þeim til þess að vinna þessa leiki. Sem er einmitt það sem við þurfum ef við ætlum að taka þátt í titilbaráttunni á næstu leiktíð af einhverri alvöru.