Paul Pogba og Ander Herrera gerðu nóg í leiknum gegn Bournemouth til að tryggja sér sæti í liðinu í dag. Alexis Sánchez var síðan treyst til að vera á vinstri kantinum. Vörnin var eins og spáð var, sú sama og í leiknum slæma í janúar.
Varamenn: Joel Pereira, Lindelöf, Mata, Martial, Rashford (83.), Fellaini (93), Darmian (79.)
Lið Tottenham var næstum eins og spáð var nema að Michael Vorm var í markinu í stað Hugo Lloris
Tottenham byrjaði leikinn af krafti og fékk tvo horn á fyrstu tveim mínútunum.Kieran Trippier braut illa á Sánchez sem hélt áfram en ekkert varð úr, endursýning sýndi að Trippier traðkaði á kálfa Sánchez og hefði átt að vera klárt rautt.
United hrinti samt þessari leiftursókn og þeir fengu fljótlega tvö horn sjálfir. Romelu Lukaku skallaði yfir á 10. mínútu en fram að því höfðu ekki nein færi að ráði verið. Það kom hins vegar mínútu síðar þegar Tottenham sótti hratt, Eriksen stakk Pogba af Young var týndur á vallarhelmingi Spurs, Eriksen gaf fyrir og Dele Alli var kominn langt fram úr Smalling og skoraði auðveldlega. Hrikalega lélegt þarna.
Sóknir Spurs héldu áfram og vörn United virkaði hrikalega brothætt, sérstaklega ef leikmenn United höfðu vogað sér að sækja fram. En líkt og fyrir markið náðu United að vinna sig aftur inn í spilið. Í sókn United fékk Dembélé boltann úti við hliðarlínu vinstra megin, en Pogba óð í hann og hirti boltann af honum með hreinni frekju og líkamlegum yfirburðum. Pogba sendi síðan glæsilega inn á teiginn þar sem Sánchez var einn með tvo varnarmenn aðeins of langt frá sér. Minnsti maðurinn á vellinum skallaði þá boltann fallega þvert á markið og inn. United komið aftur inn í leikinn á 24. mínútu.
Valencia fékk skömmu síðar gult spjald fyrir hrikalega tæklingu á Dele Alli, stökk með báða fætur í boltann, en fór yfir hann og í leggina á Dele. Hefði jafnvel getað fengið rautt.
En United var mun sterkari aðilinn það sem af var hálfleik, og sótti vel, án þess þó að skapa opin færi en á síðustu mínútum hálfleiksins kom skot upp úr þurru frá Dier sem fór í gegnum vörnina, breytti um stefnu af Smalling og small í stönginni án þess að De Gea hreyfði sig.
Fyrri hálfleik var þannig nokkuð jafnt skipt milli liða og staðan sanngjörn.
United byrjaði síðan seinni hálfleik betur og og áttu að fá víti á 53. mínútu þegar Vertonghen hrinti Lingard en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma. Síðan einmitt þegar Spurs var farið að sækja kom United í skyndisókn, Sánchez vann boltann við teiginn, gaf þvert fyrir. Lukaku snerti boltann en breytti varla um stefnu hans, Lingard lét boltann fara þar sem hann sneri baki í mark og Ander Herrera kom á fullri ferð og skellti boltanum í mark. 2-1!
Eins og við var að búast komust Tottenham menn inn í leikinn eftir þetta, og United bakkaði. United varðist vel og átti stöku sókn. Tottenham hafði gert eina breytingu, Lucas Moura kom inná fyrir Davies, en síðan kom Wanyama inná fyrir Dembélé sem hafði verið mjög slakur. Fyrsta skipting United kom á 79. mínútu þegar Valencia meiddist og var að auki með gult á bakinu og hann fór útaf fyrir Matteo Darmian. Nokkrum mí´nutum síðar kom Rashford inná fyrir Lingard.
Rashford fékk gult spjald fyrir að hoppa upp úr tæklingu frá Davinson Sánchez, og detta, harkalegur dómur, en besta færi Tottenham í langan tíma kom þegar Wanyama fékk frían skalla eftir aukaspyrnu en hátt yfir.
Fimm mínútum var bætt við leiktímann og Rashford hefði getað gert betur í viðbótartímanum einn í skyndisókn en Dier bjargaði vel með að tækla Rashford. United varðist og varðist og nelgid fram þegar þurfti og Lukaku var næstum búinn að vinna boltann þegar Vorm kom út á miðjan vallarhelming Spurs en ekki alveg.
En leiktíminn rann út og United er komið í bikarúrslitin!
Þetta var frábær leikur af hálfu United. Leikmenn á borð við Ander Herrera, Jesse Lingard, Paul Pogba og síðast en ekki síst maður leiksins, Alexis Sánchez áttu allir gríðar góðan leik. Smalling o Jones voru sterki í vörninni þrátt fyrir að hafa byrjað nokkuð illa, og það var helst að Young og Valencia væru ekki að skila sínu.
Mourinho lagði þennan leik mjög vel upp og leikmenn fóru eftir því. Það var ekki fyrr en eftir seinna markið að leikmenn drógu sig til baka eins og yfirleitt verður alltaf í svoleiðis stöðu, en jafnvel þá vor þeir oft að sækja vel framávið þegar hægt var.
Verðskuldaður sigur, Pochettino er enn bikarlaus eftir fjögur ár hjá Tottenham og þetta er áttundi bikarundanúrslitaleikurinn í röð sem Tottenham tapar.
Lads, it’s Tottenham!