Manchester United er með besta markmann í heimi innanborðs þessa dagana. Hins vegar er þetta and- og kraftleysi farið að vera ansi þreytt. Mourinho þekkir þessa stöðu vissulega, hann veit hvað þarf til að ná árangri í Evrópukeppnum, veit hvað þarf til að vinna útsláttareinvígi. Það er ekki alltaf fallegt að gera það sem þarf. En þrátt fyrir það er eins og það sé mögulega eitthvað meira í gangi, eitthvað meira að. Eru leikmenn að bregðast Mourinho eða er Mourinho að bregðast leikmönnum?
Hvað um það, að leiknum í kvöld.
Byrjunarlið Manchester United var þannig skipað:
Varamenn: Romero, Bailly, Darmian, Pogba, Lingard, Martial, Rashford
Byrjunarlið heimamanna í Sevilla er svona:
Varamenn: Carrico, Ben Yedder, Soria, Pizarro, Nolito, Mesa, Ramirez
Í hinum leik kvöldsins vann Shakhtar Donetsk 2-1 sigur á Roma eftir að ítalska liðið hafði komist yfir í leiknum.
Leikurinn sjálfur
Heimamenn byrjuðu betur og virtust ætla að reyna að ná marki snemma. Voru töluvert mikið meira með boltann fyrstu mínúturnar og sýndu ákafa í sínum leik sem Manchester United sýndi lítið af í öllum leiknum. Framan af náði Sevilla þó ekki að nýta það til að búa til neitt að ráði. Á móti vantaði ákveðni og áræðni í lið Manchester United þegar það fékk boltann. Sóknaruppbygging var ómarkviss, hvort sem liðið stillti upp í sókn eða fékk möguleika á skyndisókn. Lukaku fékk tækifæri á 14. mínútu til að valda usla í teignum þar sem hann sýndi styrk sinn inni í teig Sevilla í baráttu við þrjá varnarmenn. Hann náði að koma boltanum frá sér en sendingin var laus og náði ekki alveg til Juan Mata sem lúrði aleinn og gapandi frír nálægt markinu.
Á 16. mínútu meiddist Ander Herrera. Væntanlega tognun aftan í læri en hann var að reyna afar erfiða hælsendingu þar sem hann kom á ferðinni og þurfti að taka boltann á lofti. Mjög slæmt með núverandi meiðslastöðu á hópnum, sérstaklega fyrir erfiða lokatörn. Paul Pogba kom inn á í hans stað.
Þegar leikurinn var að verða 25 mínútna gamall náði Alexis Sánchez að finna Lukaku með góðri sendingu yfir varnarlínu Sevilla. Lukaku ákvað að taka boltann viðstöðulaust á lofti en dúndraði honum hátt yfir. Þarna hefði Lukaku getað tekið boltann niður, hann hafði aðeins meiri tíma en hann virtist átta sig á. Besta færi United í leiknum, það segir ýmislegt.
Sevilla hélt áfram að reyna að skapa sér færi og halda boltanum. Banega á miðjunni spilaði vel og Correa á vinstri vængnum átti skínandi dag, allt fram að því þegar hann átti að koma boltanum frá sér. Margoft náði hann að keyra á Valencia og skapa sér pláss en oftar en ekki voru skotin ósannfærandi og nokkuð þægileg fyrir De Gea að verja.
Langbesta færi leiksins kom þegar uppbótartími leiksins var að verða búinn. Þá kom fyrirgjöf frá hægri inn í teig Manchester United. Framherjinn Muriel hafði náð að finna sér pláss á milli Valencia og Smalling þannig að allt í einu var hann dauðafrír og náði opnum skalla á markteigslínunni. Það er enginn markmaður í heiminum með viðbrögðin hans De Gea sem náði á einhvern ótrúlegan hátt að verja boltann yfir markið. Fáránlega vel gert. Stuttu síðar var flautað til leikhlés og þá mátti sjá nokkra leikmenn Sevilla, þ.á m. Muriel, fara til De Gea og sýna honum virðingu sína eftir þessa ótrúlegu björgun.
https://twitter.com/mufcgif/status/966411522338643968
Seinni hálfleikur spilaðist nokkuð svipað og sá fyrri, fyrir utan að stóru færin vantaði. Sevilla var alveg með hugann við varnarleik en reyndi þó meira, sérstaklega að láta vaða úr færum sem voru seint líkleg til afreka. Manchester United á móti reyndi að þétta vel og sækja svo en tókst ekki alltaf vel upp í því. Miðjan var sannarlega þétt og miðverðirnir áttu báðir fínan leik, fyrir utan þegar Sevilla fékk dauðafærið hér að ofan. Það var helst að bakverðirnir væru ótraustir og svo náðist aldrei neinn almennilegur rhythmi í sóknarleikinn. Hann var áfram ómarkviss, menn gripu ekki tækifærin til að koma með stungur, lítið var um hlaup og hreyfingar fram á við og Lukaku ekki öfundsverður af því að þurfa oftar en ekki að reyna að sjá um allt frammi einn.
Sevilla átti mikið af tilraunum í þessum leik, 25 stykki. 10 þessara skota fóru framhjá markinu, oftar en ekki vel framhjá markinu. 7 af skotunum enduðu í varnarmönnum United og 8 þeirra varði De Gea, sum hver frekar þægilega.
Rashford og Martial komu inn á þegar korter og 10 mínútur voru eftir af leiknum. Rashford átti mjög skemmtilega tilraun úr aukaspyrnu af löngu færi. Hann náði þar föstu skoti með mjög flöktandi svifi sem Rico í marki Sevilla var alls ekki öruggur með. Það var eiginlega það markverðasta sem gerðist í seinni hálfleik. Þrátt fyrir allar þessar misgóðu tilraunir þá virkuðu Sevilla líka á vissan hátt varkárir og vildu ekki taka sénsinn á að opna leikinn meira.
Pælingar eftir leik
Þessi heimavöllur Sevilla er sterkur. Reyndar töpuðu þeir deildarleik gegn Real Betis í byrjun janúar á heimavelli en fyrir það höfðu þeir ekki tapað á þessum velli síðan 22. nóvember 2016 (Meistaradeildarleikur gegn Juventus). Að fara af sterkum velli með jafntefli í farteskinu heim á leið er ekki svo galið. Úrslitin sem slík eru góð, þótt vissulega megi deila um frammistöðuna.
Manchester United verður að vinna seinni leikinn. Jafntefli gefur liðinu ekkert, nema í skásta falli framlengingu. Það hlýtur að teljast jákvætt, við getum þá verið viss um það að liðið getur ekki spilað svona passífan bolta í þeim leik (nema mögulega undir lokin til að verja forystu).
Það voru jákvæðir punktar í þessum leik. Scott McTominay átti nokkur óörugg augnablik í fyrri hálfleik, var að missa boltann og gera klaufalega hluti. En hann lét það ekki á sig fá heldur óx mjög vel inn í leikinn. Það var skemmtilegt að sjá, sýndi karakter.
Matic var gríðarlega afkastamikill þegar kom að því að verja vörnina. Hann vann 5 af 6 tæklingum sem hann fór í, 2 skallabolta, komst 8 sinnum inn í sendingar andstæðingsins, átti 3 hreinsanir og átti auk þess flestar heppnaðar sendingar í liðinu.
Miðverðirnir áttu líka góðan leik í dag, heilt yfir. Smalling var sérstaklega flottur og þeir voru góðir í að lesa það þegar Sevilla reyndi stungusendingar og oftast þegar bakverðirnir misstu sóknarmann innfyrir sig. Merkilegt nokk þurfti miðvarðaparið aðeins að vinna einn skallabolta sameiginlega, það var Lindelöf sem sá um það. Hins vegar áttu þeir 9 blokkeringar og 11 hreinsanir. Þeir voru heldur ekki að missa boltann, Lindelöf var með 94% sendingahlutfall (33/35) en Smalling með 100%(23/23).
Það væri auðvelt að velja Matic eða Smalling mann leiksins, þeir unnu báðir vel fyrir því og ættu það skilið. Ef ekki væri fyrir einn mann…
Maður leiksins
Elsku David De Gea, það sem ég elska þig! Þessi gullfallegi markmaður var að halda hreinu í 19. leiknum í vetur, í 33 leikjum. Hann varði 8 skot í kvöld og var kletturinn þegar United þurfti á því að halda. Besti markmaður í heiminum, svo einfalt er það.
Framundan
Framundan eru deildarleikir gegn Chelsea, Crystal Palace og Liverpool, í erfiðri baráttu um sæti 2-4, áður en seinni leikurinn gegn Sevilla verður spilaður. Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig staðan verður eftir þessa fjóra leiki.