Mathjis de Ligt og Lisandro Martínez misstu sætin eftir frammistöðuna gegn Porto og Jonny Evans og Harry Maguire mættu til leiks.
Það var Marcus Rashford sem bjó til fyrsta færi leiksins, vann boltann sjálfur úti á kanti, og kom upp og alla leið inni í teig, skotið var ágætt en Emi Martínez sá við því nokkuð örugglega. Hinu megin kom mun einfaldari sókn, Watkins sótti á Maguire sem lokaði hann ekki vel af, Watkins gaf á Rogers og Jonny Evans sömuleiðis bakkaði og leyfði skotið en hafði lokað nógu vel á þannig skotið fór í hliðarnetið.
Leikurinn var síðan frekar tíðindalítill, bæði lið reynu að halda boltanum og áttu erfitt með að búa eitthvað til fram á við. United voru ef eitthvað var aðeins sterkari og vörnin var örugg þegar Villa reyndi eitthvað, Jonny Evans bestur þar. Þannig leið leikurinn fram að hálfleik, engin færi sem hægt var að nefna, en á síðustu mínútu hálfleiksins haltraði Harry Maguire af velli og þurfti að hætta leik. Í hálfleik kom Mathijs de Ligt inn á yfir hann og sömuleiðis var Victor Lindelöf sendur inná fyrir Mazraoui.
Villa byrjuðu seini hálfleik betur og pressuðu United upp að teig. Onana varði fyrsta skot þeirra á markið í horn.
Dómarinn hafði verið duglegur að spjalda United menn og rétt eftir að hann fékk spjald sparkaði Rashford til Bailey og hefði getað fengið seinna gula fyrir en slapp. Ten Hag kippti honum þá útaf sem og Höjlund, og Zirkzee og Antony komu inná.
Skömmu seinna vann Garnacho aukaspyrnu rétt utan teigs VIlla, reyndar alveg án snertingar varnarmanns. Bruno tók flotta spyrnu sem small í slánni og Antony hamrarði svo frákastið framhjá.
Áfram hélt þetta að vera mjög slakur leikur af beggja hálfu en þegar kmið var fram í viðbótartíma kom fyrirgjöf frá hægri inn á teig United, De Ligt tókst að hrasa og láta boltann fara gegnum klofið á sér og boltinn kom til Jhon Duran, en skot hans fór í Dalot og framhjá.
United vann boltann úr horninu og Garnacho óð upp allan völl en þegar kom að því að senda boltann á Bruno sem var á svipaðri ferð og dauðafrír skaut Garnacho í varnarmann.
Leikurinn leið svo út og markalaust jafntefli niðurstaðan. Þetta var arfaslakur leikur af beggja hálfu þó vissulega væri vörn United þéttari en stundum áður. Það var hins vegar hvergi að sjá að liðið gæti skapað eitthvað að ráði hvað þá skorað mörk. Þetta var kannski ekki tapið sem sum bjuggust við og yrði banabiti Ten Hag en þetta var á engan hátt frammistaða sem sannfærir einhvern um að framtíðin sé hans.
Nú er bara að bíða eftir títtnefndum stjórnarfundi á þriðjudaginn.