Hefð er fyrir að spila þétt í ensku úrvalsdeildinni um jól og áramót, enda fótboltinn lengi helsta afþreying vinnandi fólks í Englandi. Jólatörn Manchester United byrjar á Bournemouth á morgun. Það er hins vegar lítil breyting fyrir lið sem undanfarinn mánuð hefur, eins og oftast, spilað tvo leiki á viku.
Eftir Bournemouth á United leik gegn Úlfunum á öðrum degi jóla og síðan gegn Newcastle þann 30. desember en síðan kemur frí í tæpa viku fyrir heimsókn til Liverpool.
Þegar leikið er þétt skiptir máli að skipta út leikmönnum til að halda þeim ferskum og forðast meiðsli. Ruben Amorim hefur verið óhræddur við það síðan hann tók við liðinu fyrir mánuði og trúlega gert það betur en margir aðrir forverar hans. Út frá því er erfitt að giska á byrjunarliðið, nema að Amad Diallo er orðinn eins og malt og appelsín á jólum – ómissandi.
United hefur séð það svartara í meiðslum. Masoun Mount þurfti þó að fara út af snemma gegn Manchester City fyrir viku og fréttirnar af honum eru ekki góðar, fjarvera í nokkrar vikur. Það gæti opnað pláss í hópnum fyrir Marcus Rashford, sem settur var í skammarkrókinn í síðustu viku. Ef hann verður áfram utan hóps hefur hann trúlega leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester United.
Í vörninni eru brestir. Victor Lindelöf fór út af meiddur í hálfleik gegn Tottenham á fimmtudag og Luke Shaw er meiddur. Mathijs de Ligt var veikur í vikunni og Harry Maguire fer í leikbann við næsta gula spjald. Vörnin velur sig því nokkurn vegin sjálf.
United er fyrir leikinn í 13. sæti með 22 stig en Bournemouth í því sjötta með 25 stig. Sigurinn gegn City fyrir viku skilaði United ekki upp um sæti, en færði það nær þéttum pakka því sex stig eru upp í fjórða sætið. Góð jólavertíð gæti því bætt stöðuna í deildinni verulega. Sigur gegn Bournemouth myndi til dæmis senda United upp fyrir liðið af suðurströndinni.
Hjá gestunum er það að frétta að Alex Scott, Julian Araujo, Luis Sinsterra, Marcos Senesi og Marcus Tavernier glíma við meiðsli og verða varla með.
Leikurinn hefst á morgun klukkan 14:00. Leikið er á Old Trafford.