Á morgun eigast við Manchester Untied og Chelsea á Old Trafford. Þessi tvö lið hafa lengi vel eldað grátt silfur saman en viðureignir liðanna hafa gjarnan reynst mikilvægar í toppbaráttunni.
Sú er þó ekki raunin í dag enda sjaldan ef nokkurn tímann sem þessi lið hafa setið jafn neðarlega á þessum tímapunkti leiktíðarinnar. United situr í 7. sæti deildarinnar eftir 1-0 tap á útivelli gegn Newcastle í síðustu umferð en Chelsea er í því tíunda og mæta galvaskir eftir 3-2 heimasigur á Brighton í leik þar sem þeir spiluðu einum færri allan síðari hálfleikinn.
Chelsea
Það er ótrúlegt að segja að segja það en Chelsea hefur farið aftur frá því Boehly tók við þrátt fyrir að eigandi hafi dælt meira en milljarði punda í leikmannakaup á undanförnum misserum. Liðið er með fimm sigra, jafnmarga ósigra og fjögur jafntefli og er því sem stendur með 19 stig. Það sem hins vegar er áhugavert er að þeir hafa sótt flest stigin á útivelli í ár en 10 af þessum stigum hafa komið úr útileikjum.
Mauricio Pochettino tók við liðinu í sumar en hann var lengi vel orðaður við United á sínum tíma. Eflaust voru margir sem töldu hann vera rétta manninn og með svona sterkan fjárhagslegan stuðning myndi hann keyra Chelsea liðið upp í toppbaráttuna aftur en spilamennska liðsins hefur verið langt frá því að vera ásættanlegt. Liðið hefur náð í úrslit gegn City, Liverpool og Arsenal á þessu ári (allt jafnteflisleikir) en að sama skapi legið gegn Newcastle, West Ham, Nottingham Forest, Brentford og Aston Villa.
Miðjuparið Enzo Fernandes og Moises Caicedo, sem samanlagt kostuðu meira en Crystal Palace, Fulham, Everton, Nottingham Forest, Luton og Wolves eyddu samanlagt í leikmenn í sumar, hafa engan veginn staðist væntingar og virðist kaupstefna Boehly vera að kosta liðið á vellinum. Það að sleppa því að festa kaup á Maddison vegna aldurs og leitast nánast eingöngu eftir því að kaupa unga og spennandi leikmenn og setja þá á rétt tæplega ævilanga samninga skapar meiri vandamál en það leysir. Vissulega hefur Pochettino úr stórum hóp að moða en það kann líka að vinna gegn honum. Annars spái ég liðinu svona á morgun:
Chelsea virðast þó vera að hrökkva í gang en við vonum svo innilega að þeir haldi áfram að hökkta að minnsta kosti að sinni.
Manchester United
Lengi getur vont versnað. United hefur ekki náð að heilla neinn að undanförnu og kraftleysið og skortur á dugnaði virðist gegnsýra allt og alla sem klæðast treyjunni núna. Ef það eru ekki vandamál utan vallar þá eru vandamálin í klefanum og ef það eru ekki klefavandamál þá eru það vandamál á grasinu sjálfu. Erik ten Hag getur ekki með nokkru móti náð í stig á útivöllum nema það sé gegn minni spámönnum og það hriktir í stoðum hvert sem litið er.
En liðið er á heimavelli núna og það er því möguleiki á því að United takist að kroppa í stig en líklegast verður leikurinn ekki nein gífurleg skemmtun ef marka má deildarleiki liðsins undanfarið. Liðið hefur þó haldið hreinu í mörgum leikjunum en það hefur komið á kostnað sóknarleik liðsins því liðið virðist eiga í stökustu vandræðum með að koma tuðrunni í netið.
Rasmus Hojlund sem hefur verið funheitur á Evrópukvöldum fyrir United er kaldari en frostpinni í deildinni og á enn eftir að skora þar þrátt fyrir að hafa spila 680 mínútur þar. Ef við berum það saman við Meistaradeildarformið hans þar sem hann er með sjö mörk og eina stoðsendingu á undir 600 mínútum þá er eins og við séum ekki að ræða um sama leikmanninn. Marcus Rashford virðist vera farinn í jólafrí og þannig mætti lengi telja leikmenn sem eru engan veginn að standa undir nafni né getu.
En það eru nokkrir litlir ljósir punktar í annars drungalegri tilveru United stuðningsmanna. Kobbie Mainoo hefur gefið okkur örlítinn vonarneista og hefur farið fram úr björtustu vonum okkar þó auðvitað sé hann ekki að fara draga vagninn fyrir United. Luke Shaw og Aaron Wan-Bissaka eru komnir til baka eftir meiðsli og Martial er ekki meiddur (þetta var ritað rétt fyrir 3 á þriðjudegi svo takið með fyrirvara). Annars vona ég að við sjáum þetta lið á morgun:
Enginn Rashford, þar sem liðið þarf að spila með 11 menn á móti 11 á morgun. Lindelöf og Maguire með Shaw og Wan-Bissaka sitthvoru megin við sig í vörninni segir sig sjálft. Onana þar fyrir aftan en Erik ten Hag hefur greinilega tekið þá ákvörðun að standa með honum þrátt fyrir aragrúa af mistökum. Á miðjunni verðum við að sjá Mainoo en hvorki Amrabat né McTominay hafa staðið sig nægilega vel að undanförnu og því erfitt að segja til um hver eigi að byrja við hlið táningsins.
Framlínan má svo samanstanda af Pellistri, Garnacho og Hojlund. Áreiðin, spennandi og fersk framlína sem getur kryddað upp á einhverju sem við höfum ekki endilega séð margoft áður. Það er líka ekki út í hött að fá Fernandes inn á miðjuna og spila Mejbri í holunni en þá vantar okkur kannski reynsluna í fleiri stöður.
Leikurinn hefst korter yfir átta annað kvöld og Chris Kavanagh. Síðasta viðureign liðanna á þessum velli endaði 4-1 en ég efast stórlega að við fáum aðra eins veislu en það má alltaf leyfa sér að dreyma.