Manchester United tekur á móti Newcastle á morgun (miðvikudag) klukkan 20:15. Helgin var dapurleg fyrir United stuðningsmenn, 0-3 gegn City á heimavelli og spilamennskan lítur ekkert mikið betur út. Það þýðir þó ekkert að leggjast í volæði sem er þó það sem United liðið virðist hafa gert allt þetta tímabil. Bikarvörnin heldur áfram í orkudrykkjakeppninni Carabao cup, en 4.umferð býður upp á úrslitarimmuna frá keppninni í fyrra, þar sem United sigraði Newcastle 2-0. Newcastle byrjaði tímabilið fremur hægt en eftir 3 töp í 4 fyrstu leikjunum hóf liðið að rétta úr kútnum og hafa einungis tapað einum leik síðan þá. Það eru nokkrir af lykil leikmönnum Newcastle meiddir þ.á.m. Sven Botman, Alexander Isak, Harvey Barnes og þá er Sandro Tonali í keppnisbanni vegna veðmála. United ætti vonandi að geta nýtt sér fjarveru Sven Botman en Jamal Lascelles sem kom með krafti inn í lið Newcastle eftir meiðsli Botman er farinn að sýna sínar gömlu mistæku hliðar. Meiðslakrísan hjá United er aðeins farin að skána en þó eru þeir leikmenn sem eru á meiðslalistanum eiginlega allir byrjunarliðsmenn: Casemiro, Martinez, Shaw, Wan-Bissaka og Malacia.
United liðið hefur verið heillum horfið á þessu tímabili, ákefðina og baráttuvilja virðist alveg vanta í leikmennina. Leikmenn hreyfa sig lítið án bolta til þess að opna svæði fyrir samherja sína, oft á tímum nenna þeir ekki að hlaupa til baka í vörn og svo virðist liðið slökkva á sér 6-7 sinnum í leik. Besti og eiginlega eini góði leikur United á tímabilinu var þó í Carabao cup gegn Crystal Palace þar sem liðið sigraði sannfærandi 3-0. Ég held að Erik Ten Hag gæti breytt liðinu talsvert eins og hann gerði gegn Crystal Palace, leikmenn eins og Mainoo, Mejbri, Garnacho eða Pellistri gætu mögulega byrjað leikinn. Þá er talsvert líklegt að Varane byrji leikinn fram yfir Jonny Evans og að Reguilon komi inn í liðið í stað Lindelöf.
Líkleg byrjunarlið
United:
Ég er algjörlega að giska á byrjunarlið, ég held að Ten Hag hvíli Rashford sem hefur verið slakur allt tímabilið og mögulega byrji Mainoo. Amrabat hefur verið tekinn snemma útaf tvo leiki í röð og það gæti vel verið að McTominay byrji í stað hans. Eins og ég sagði þó þetta er bara gisk og til gamans gert.
Newcastle
Ég tel að Eddie Howe stilli upp frekar sterku liði þar sem þetta er ein af keppnunum sem Newcastle á virkilegan séns á að vinna.
Dómari: Robert Jones
Að lokum
Ég bið ekkert um sérstaklega mikið úr þessum leik og miðað við spilamennsku þessara tveggja liða undafarið þá býst ég ekki við miklu. Ég bið þó um að United liðið fari að sýna betri hliðar og spili af einhverri sannfæringu, það er orðið talsvert þreytt að horfa upp á lið sem virðist stundum varla reyna. Fjölmiðlaathyglin á United hefur vægast sagt verið neikvæð á þessu tímabili, hvort það sé eignarhald liðsins, spilamennska, leikmenn í fýlu eða lögsóttir leikmenn. Undirritaður vill taka það fram að þó að hann finni fyrir ákveðinni þreytu á að horfa á liðið þá skrifar hann þreytuna ekki á Erik Ten Hag. Það er hál brekka að ætla alltaf að reka þjálfara, fá nýjan, standa sig vel í eitt tímabil, byrja tímabil illa, reka þjálfara og endurtaka. Ábyrgðin liggur líka hjá leikmönnum sem margir hverjir virðast stundum varla nenna að klæða sig í United treyjuna. Mesta ábyrgðin hvílir þó hjá eigendunum sem virðast ekki vilja reka félagið almennilega heldur frekar kaupa 80 milljóna punda leikmann í lok hvers leikmannaglugga eða reka þjálfara til þess að beina athyglinni eitthvert annað.