Það er ekkert sem netstuðningsmaður fótboltaklúbbs elskar meira en góða krísu. Þegar hægt er að kalla stjórann trúð (já þennan sem kom klúbbnum í Meistaradeildina), og líka alla þá sem keyptir hafa verið nýlega. Svo er hægt að skamma stjórann fyrir að spila ekki með manninn sem hefur verið rakkaður niður stöðugt síðustu tvö árin. Ekki er það verra þegar einhver leikmaður þarf að spila úr stöðu vegna fjölda meiðsla og gerir þar ein mistök. Markmaður sem er fenginn til að spila nýja boltann er svo hengdur af því að hann er að spila fyrir aftan vörn sem rétt svo man hvað hinir heita, þess þá síður að þeir hafi spilað saman sem heild. Svo er auðvitað alger firra að hugsa dæmið til enda og íhuga hvaða stjóri eigi að taka við þegar búið er að reka enn einn stjórann. Að vísu er hér upp á Íslandi maður sem búinn er að vinna tvær tvennur á þremur árum, en jafnvel ofanritaður myndi setja örlítið spurningamerki við það að hann væri tilbúinn að taka skrefið. Þó vissulega væri hann í topp fimm bestu kostunum. Er það ekki annars?
Það virðist vera sterk tilfinning hjá þeim sem einhverjar fréttir úr innsta hring að starf Ten Hag sé öruggt, sama hvað á gengur næstu vikur. Er það vel. Klúbburinn er vissulega í heilmiklum vanda innan vallar, sem utan og svo lekur þakið líka. En það vita flest að það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn og það sem gildir núna er að þrauka.
Á morgun kemur Brentford á morgun og það gæti verið erfiðara lið. En enginn leikur er auðveldur þegar krísan geisar og Brentford á sælar minningar frá leik United á Gtech Community Stadium í ágúst í fyrra þegar þeir skelltu United 4-0. En þeir hafa ekki staðið sig neitt sérlega vel í haust, einn sigur í deild, gegn Fulham, fjögur jafntefli og töp gegn Everton og Newcastle úti, síðarnefndi leikurinn sá eini gegn toppliði. United verður því að finna sigurviljann í sér á morgun.
Það er ekki spurning hver komst frá leiknum á þriðjudag með beint bak og höfuðið hátt. Rasmus Höjlund skoraði tvö mörk og tvö næstum því mörk. Allt í einu virðist sem hann geti staðið undir væntingum, en það er þung byrði sem er allt í einu komin á tvitugar herðar, að bera heilt lið á bakinu. Mason Mount hefur fengið það óþvegið frá nethetjunum en þó að vissulega megi setja spurningamerki við hvaða stöðu hann eigi nákvæmlega að gegna, var hann alveg fínn á þriðjudag. Shaw, Martínez, Wan-Bissaka og Malacia verða allir frá áfram og Sergio Reguilon er ekki orðinn góður. Það er því óbreytt vörn. Kobbie Mainoo er líka frá og Amrabat upptekinn annars staðar þannig að miðjutvennan verður líklega Mount og Casemiro. Markahæsti maður síðasta tímabils hefur átt erfitt uppdráttar og það eru auðvitað aldrei nein grið gefin á netinu, en Ten Hag mun halda Rashford í liðinu. Svo kemur í ljós hvort Garnacho eða Pellistri verða fyrir valinu
Brentford er líka í meiðslaveseni, misstu Rico Henry út tímabilið, Ben Mee er enn frá og Kevin Schade sem þeir keyptu í sumar eftir fínt lán kemur til baka um áramótin. Josh Dasilva sem skoraði fyrsta markið fyrir ári er líka meiddur. Svo er Ivan Toney auðvitað í banni.
Liðinu er spáð svo
Senterinn er Keane Lewis-Potter sem var maður ársins hjá Hull í fyrra en hefur ekki skorað enn í deild fyrir Brentford. Það gæti því verið að Neal Maupay fái tækifæri til að byrja og reyna að skora eftir 29 markalausa leiki í deild. Yoane Wissa hefur spilað sem fremsti maður en verður líklegast á kantinum á morgun og hefur átt það til að skora.
En það á enginn að efast um það: Jafnvel í mestu meiðslavandræðum á Manchester United að vinna þennan leik á morgun. Leikmenn verða að gjöra svo vel að girða upp um sig buxurnar, og spila eins og menn. Leikurinn hefst á slaginu tvö og flautuleikarinn er Andy Madley
En við ljúkum þessari upphitun á að gera eins og United mun gera fyrir leik á morgun og minnast lafði Cathy Ferguson. Án hennar hefði enginn Sir Alex Ferguson verið og ef ekki fyrir inngrip hennar hefði Sir Alex hætt 2002, og ekki fært klúbbnum 6 titla, Evrópumeistaratitil og nokkrar dollur í viðbót.
Every single one of us loves Cathy Ferguson