Maggi og Raggi settust niður og ræddu:
- Leikinn gegn Burnley
- Leikinn gegn Crystal Palace í deildarbikarnum
- Einkunnir leikmanna Man Utd í FC24 (áður FIFA)
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 116. þáttur
Magnús Þór skrifaði þann | 1 ummæli
Maggi og Raggi settust niður og ræddu:
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 116. þáttur
Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann | 4 ummæli
Erik Ten Hag gerði sjö breytingar á liðinu sem sigraði Burnley um helgina, þeir Dalot, Onana, Mejbri og Casemiro voru þeir einu sem „héldu“ byrjunarliðssæti sínu. Amrabat byrjaði sinn fyrsta leik og spilaði sem vinstri bakvörður, þá voru Mount og Maguire báðir komnir úr meiðslum og fengu traustið. Roy Hodgson gerði einnig sjö breytingar á sínu liði en það ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir þær, enda nennir enginn að pæla í því. United hefur titil að verja í keppninni það skal enginn gleyma því að djöflarnir unnu þessa keppni í fyrra. Að því sögðu þá voru talsvert mörg lið í pottinum þegar dregið var í 3. umferð enska deildarbikarsins sem maður hefði viljað fá en Crystal Palace. Sérstaklega í ljósi mikilla meiðsla hjá United, það er þó hægt að hugga sig við það að það hefði líka geta verið talsvert verra. United sigraði Burnley síðustu helgi í ensku úrvalsdeildinni og stefndi liðið að því að vinna annan leikinn í röð í fyrsta sinn á þessu tímabili.
Byrjunarliðið:
Bekkur: Bayindir, Heaton, Evans, Lindelöf, Bruno, Gore, Van de Beek, Hojlund og Rashford
Fyrri hálfleikur
Fyrri hálfleikur byrjaði frekar hægt, United hélt boltanum mikið og lengi án þess að ógna markinu þeirra verulega mikið. Crystal Palace skapaði fyrstu hættu leiksins á 10. mínútu þegar liðið komst í fína sókn en Harry Maguire komst inn í fyrirgjöfina og líklegast eins gott því Mateta var tilbúinn fyrir aftan hann að pota boltanum í markið. United virtist oft sækja í einhverskonar 3-4-3 þar sem Amrabat dróg sig inn á miðjuna og annað hvort Casemiro eða Dalot héldu sig til hlés. Á 19. mínútu (já það gerðist ekkert fyrstu tæpu 20. mínúturnar) þurfti fyrrum United maðurinn Dean Henderson (markmaður Palace) að víkja af velli vegna meiðsla og inn á í hans stað kom fyrrum United maðurinn Sam Johnstone. Það var eins og United liðið hafi skipulagt næstu sókn á meðan skiptingin átti sér stað. Mason Mount átti mjög góða sendingu út á Pellistri sem tók boltann niður setti hann á Dalot sem koma á ógnarhraða og þeystist inn í teig Palace. Dalot skar boltann út í teiginn þar sem Garnacho renndi sér á hann og inn fór boltinn, 1-0 United. Sam Johnstone bókstaflega búinn að vera inn á í u.þ.b. 20 sekúndur, svo sem ekkert við hann að sakast í markinu, en dálítið skondið.
Mínútu síðar kom löng sending fram á Diogo Dalot, portúgalinn tók vel á móti boltanum frekar utarlega í teig Palace og þrumaði á markið en tiltölulega beint á Johnstone sem var vandanum vaxinn. United voru vaknaðir. Eftir brot á Martial á vallarhelmingi Palace á 26. mínútu, boltinn barst til Garnacho, dómarinn lét leikinn halda áfram, Garnacho sendi boltann á Mount inn í vítateig Palace. Mount gerði listavel og renndi honum á Pellistri sem var í dauðafæri en Richards varnarmaður Palace gerði ótrúlega vel í því að renna sér fyrir skot Pellistri sem var aðeins úr jafnvægi. (Innskot daginn eftir: Þetta var ekki góð tækling, Richards brýtur 100% á Pellistri og þetta hefði algjörlega átt að vera víti. En ég skil þó að dómarinn hafi ekki séð þetta og VAR ekki í notkun). United fékk þó horn, Mason Mount tók hornspyrnuna og hver annar en Casemiro mætti og stangaði boltann í netið, 2-0 United. Það gerðist ekki mikið það sem eftirlifði af fyrri hálfleik, Crystal Palace fékk að halda aðeins í boltann en liðið sýndi ekki mikla sóknartilburði og þegar þeir skokkuðu yfir miðju þá átti vörn United ekki í miklum vandræðum með það. United lækkuðu tempóið talsvert, fengu nokkrar hornspyrnur en engin færi að ráði.
Þetta er fyrsti fyrri hálfleikur tímabilsins þar sem undirritaður hefur ekki verið með hjartað í buxum yfir spilamennsku United. Þetta var næstum því eins og fyrri hálfleikur undir Sir Alex, bara halda boltanum skora tvö og vera svo bara rólegir. Það var ákveðin ró og yfirvegun yfir United liðinu ekkert að reyna vinna leikinn í einni sókn og ekki leyfa Crystal Palace að fá neina drauma um að vinna í leikhúsi draumanna. Fyrsta mark United var mjög gott, löng sending út á Pellistri og góður samleikur eftir það. Seinna markið í raun mjög einfald en fínt að fá mark úr föstu leikatriði og gott að Mount sé kominn með assist. United leitaði mikið út til hægri á Pellistri oft langar sendingar, leikplan sem virtist virka ágætlega og Pellistri oft með nóg pláss. Það hefði þó kannski verið áhrifaríkara ef Pellistri gæti sent hann fyrir á einhvern en United menn hópuðust kannski ekkert sérstaklega mikið inn í teig Palace og hár bolti inn á einn Anthony Martial gegn 3-4 Palace leikmönnum er ekkert endilega ákjósanlegur kostur. Sofyan Amrabat leit vel út í fyrri hálfleik, var sterkur varnarlega og sendingar hans fram á við oft mjög fínar.
Seinni hálfleikur
United gerði eina breytingu í hálfleik, Victor Lindelöf kom inn á fyrir Mason Mount vonandi að það hafi verið fyrirfram ákveðin breyting þar sem Mount er að stíga upp úr meiðslum en ekki sé um meiðsli að ræða. Crystal Palace gerði einnig breytingu á sínu liði, inn á kom Marc Guehi í stað Rak-Sakyi bæði lið að setja miðverði inn á fyrir framliggjandi miðjumenn. Sofyan Amrabat virtist fara inn á miðjuna í stað Mount og Lindelöf í vinstri bakvarðar stöðuna. Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri frekar rólega en á 55. mínútu fékk Casemiro boltann rétt fyrir utan vítateig Palace, Old Trafford grátbað hann um að skjóta, Case hlýddi ekki heldur sveigði hann boltann á fjærstöng þar sem Anthony nokkur Martial var mættur á ferðinni og slúttaði boltanum í fjær, 3-0 United. Á 60. mínútu gerði United tvöfalda breytingu, Evans kom inn á fyrir Varane og Dan Gore kom inn á fyrir Sofyan Amrabat. Bæði Amrabat og Varane að stíga upp úr meiðslum og 60. mínútur líklegast það sem var ákveðið fyrir leik, skemmtilegt að fá Dan Gore 18. ára strák úr akademíunni inn á. Þess má geta þegar að Evans spilaði sinn fyrsta leik fyrir United akkúrat fyrir 16. árum síðan upp á dag þá átti Dan Gore þriggja ára afmæli og í dag komu þeir saman inn á. Roy Hodgson gerði einnig tvöfalda skiptingu, inn á komu Eze og Hughes fyrir Cheick Doucoure og Jeffrey Schlupp.
Það koma að því að Crystal Palace ógnuðu marki United. Varnarmenn United tóku sér of langan tíma í stuttu spili nálægt sínum eigin vítateig sem endaði með því að Palace vann boltann. Eze renndi honum inn á Ayew sem átti fínt skot af tiltölulega stuttu færi en Onana varði mjög vel, menn orðnir aðeins of kærulausir. Á 70. mínútu gerði Erik Ten Hag aðra breytingu, útaf fór Hannibal Mejbri (sem var á gulu spjaldi og farinn að reyna á þolmörk dómarans) og inn á koma Donny Van de Beek. United gerði breytinguna þegar liðið átti horn og var liðið nálægt því að skora fjórða markið eftir hornspyrnuna þegar að Jonny Evans átti fínan skalla en Johnstone varði vel. Á 75. mínútu var svo komið að seinustu skiptingu United þegar að Anthony Martial koma brosandi, já brosandi af velli og inn á í hans stað koma Rasmus Højlund.
Á 85. mínútu komust Palace í fínt færi, Mateta slapp eiginlega einn inn fyrir en Maguire hljóp hann uppi og þrengdi skotvinkilinn hans, Mateta náði fínu skoti á markið en Onana verði vel Palace menn fengu frákastið en boltinn framhjá. Á 88. mínútu var sannkölluð orrahríð að marki Crystal Palace, eftir hornspyrnu United barst boltinn út fyrir teiginn þar sem mættu var Lindelöf sem hamraði svoleiðis boltanum að marki en beint á Johnstone semsló boltann upp í loftið boltinn, barst svo aftur inn í markteig þar sem smá darraðardans átti sér stað. Þá barst boltinn út til Garnacho sem var hvattur til þess að skjóta, hann lét ekki segja sér það tvisvar og átti fínt skot sem Johnstone varði í horn. United ógnaði ekki mikið eftir það nema nokkur hálf færi en eftir 3 mínútna uppbótartíma flautaði Michael Salisbury til leiksloka, 3-0 öruggur sigur hjá United.
Að lokum
United spilaði virkilega vel í leiknum og gjörsamlega áttu leikinn frá A-Ö. Yfivegunin er það sem undirritaður tekur helst út úr leiknum, liðið leyfði Palace aldrei að komast inn í leikinn, það var kannski helst alveg undir lok leiksins í stöðunni 3-0 að menn urðu örlítið kærulausir í varnarleiknum en ekkert til að tala um það. Palace menn sáu í raun aldrei til sólar í leiknum, það færðist aðeins líf í þeirra leik þegar Eze koma inn á en það var ekki nóg. Það var mjög mikilvægt að lykilleikmenn fengju að hvíla í þessum leik og að menn sem eru að stíga upp úr meiðslum fengju einhverjar mínútur
. United liðið tikkaði mjög vel í leiknum, í fyrri hálfleik spiluðu þeir mikið upp á Pellistri og virtist Roy Hodgson bregðast við því með því að setja Marc Guehi inn á í hálfleik og fara í þriggja manna vörn. Það virkaði ágætlega það myndaðist ekki jafn mikið svæði úti hægra meginn fyrir Pellistri, það hins vegar tók það litla bit sem Palace hafði í fyrri hálfleik fram á við. United hélt boltanum vel og voru yfirvegaðir á honum, í seinni hálfleik voru Palace þéttir til baka og það þurfti drauma sendingu Casemiro til þess að United næði að setja þriðja markið og loka leiknum. Undir lokin opnaðist leikurinn dálítið og hefðu bæði lið getað skorað seinustu tíu mínútur en svo varð ekki.
Casemiro er án efa maður leiksins hann stjórnaði öllu tempói og þar með leiknum, hann var leikstjórinn á meðan aðrir leikmenn voru leikararnir. Þá skoraði brasilíumaðurinn og lagði upp glæsileg frammistaða hjá honum, hann er ekki dauður úr öllum æðum. Amrabat átti fínann fyrsta leik og verður gaman að sjá framhaldið, Pellistri og Garnacho voru báðir mjög sprækir. Þá má líka alveg nefna Maguire og Martial sem áttu báðir fínann leik, ég hef ekki séð Martial hreyfa sig svona mikið lengi og Maguire var öruggur í flestum sínum aðgerðum.
Flott frammistaða hjá United og liðið komið í 4. umferð enska deildarbikarsins, titilvörninni er alls ekki lokið. United mætir svo Crystal Palace aftur um helgina og þrátt fyrir góðan sigur í dag þá á ég ekki von á sama byrjunarliði í þeim leik. Það er þó vonandi að Roy Hodgson fari líka vonsvikin af Old Trafford á laugardaginn næstkomandi.
Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann | Engin ummæli
Á morgun þriðjudaginn 26. september, klukkan 19:00, hefst titilvörn Manchester United í deildarbikarnum. United tekur á móti lærisveinum Roy Hodgson í Crystal Palace í þriðju 8. umferð keppninnar. Tímabilið hjá United hefur byrjað heldur brösulega en sigur síðustu helgi á Turf Moor gegn Burnley var mjög svo kærkominn. Liðið er enn í miklum meiðsla vandræðum en það var þó hughreystandi að Raphael Varane og Sofyan Amrabat komu báðir inn á í leiknum gegn Burnley. Þá hefur eitthvað kvissast út að Mason Mount og Harry Maguire gætu verið í leikmannahópnum gegn Palace. Það hefur líklegast runnið kalt vatn milli skins og hörunds hjá stuðningsmönnum United þegar Reguilon virtist haltra af velli gegn Burnley um helgina, sérstaklega þegar flest allir bakverðir United liggja á sjúkrabekknum, það virðist vera þó allt í lagi með spánverjann sem eru mjög góðar fréttir.
Þetta verður fyrri leikurinn af tveimur gegn Crystal Palace í þessari viku hjá United en þeir leika einnig við liðið um helgina í úrvalsdeildinni. Þetta er fyrsti leikur United í deildarbikarkeppninni á þessu tímabili, en annar leikur Crystal Palace því liðið sigraði Plymouth Argyle í 2. umferð deildarbikarsins. Crystal Palace lenti 0-2 undir í þeim leik áður en Roy ákvað að hætta að fíflast og setti sína bestu menn inn á og að lokum sigraði Palace, Argyle-menn frekar þægilega 4-2. Palace hefur byrjað tímabilið ágætlega eða a.m.k. á þeirra mælikvarða en liðið hefur sigrað 2 leiki í úrvalsdeildinni, gert 2 jafntefli og tapað 2 leikjum. Liðið keypti 4 leikmenn á markaðnum í sumar; Rob Holding frá Arsenal, Matheus Franca frá Flamengo, Jefferson Lerma frá Bournemouth og að sjálfsögðu Dean Henderson frá United. Það er vonandi að sá síðast nefndi fari nú ekki að sýna einhvern stjörnuleik þ.e.a.s. ef hann byrjar leikinn.
Það er hægt að segja að leikurinn núna á morgun sé ekki alveg jafn mikilvægur og leikurinn gegn Burnley var en að sjálfsögðu vilja stuðningsmenn United og klúbburinn vinna alla bikara sem í boði eru. Erik Ten Hag mun að öllum líkindum breyta liðinu sínu eitthvað bara til þess að hvíla einhverja leikmenn, verst fyrir hann að þá eru flest allir leikmenn United sem hafa ekki spilað síðustu leiki meiddir. Ætli Jonny Evans fá ekki traustið eftir frábæra frammistöðu gegn Burnley sem og Mejbri, þá hefur orðið á götunni (twitter) verið að Bayindir fái að reyna fyrir sig í byrjunarliðinu. Þá er áhugavert að Dan Gore og James Nolan voru á meðal nokkurra ungra leikmanna sem æfðu með aðalliðinu fyrir leikinn, kannski að við sjáum einhvern óreyndan akademíu leikmann fá séns í byrjunarliðinu.
Hugsanlegt byrjunarlið
Það er erfitt að segja hvaða leikmenn Ten Hag ákveður að hvíla. Ég held að hann leyfi Rashford að byrja á bekknum sem og Casemiro, þá held ég að Lindelöf gæti fengið smá hvíld og Varane byrji með Evans. Varane er þó ólíklegur til þess að spila allan leikinn og gæti Maguire spilað einhverja rullu ef hann er orðinn heill. Þá held ég að Martial byrji leikinn og að Amrabat stilli sér upp við hlið Mejbri, Ten Hag gæti þótt það of sóknarsinnað og haft Amrabat og McTominay saman og Mejbri í holunni og ýtt Bruno út á kannt. Þetta er þó allt saman bara gisk.
Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann | 9 ummæli
Erik ten Hag hristi hraustlega upp í hlutunum í kvöld en hann stillti upp í demantsmiðju með Casemiro, Bruno, McTominay og Hannibal Mejbri fyrir aftan Rashford og Hojlund. Þá kom einnig m0örgum á óvart að Martinez var hvergi að finna en samkvæmt Hollendingnum er hann að glíma við eftirmál vegna meiðsla og vildi stjórinn ekki taka séns á því að spila honum. Það kom því í hlut Johnny Evans að stilla sér upp við hlið Lindelöf í hjarta varnarinnar en hann byrjaði síðast deildarleik fyrir United árið 2015.
Það ber þó að nefna það að eftir því sem leið á leikinn virtist liðsstillingin líkjast meira og meir 4-2-3-1 með Bruno á kantinum, í það minnsta þegar liðið var ekki með boltann. Á bekknum voru þeir Bayindir, Varane, Amrabat, Eriksen, Gore, Pellistri, Van de Beek, Garnacho og Martial.
Lið heimamanna var skipað þeim: Trafford, Beyer, Taylor, Brownhill, Jóa Berg, Robert, Ramsey, Cullen, Amdouni, Al-Dakhil og Koleosho.
Fyrsta færið kom eftir 45 sekúndur þegar Hojlund vann boltann hátt á vellinum og boltinn barst á Rashford sem brunaði upp að endalínunni og setti boltann í hliðarnetið úr mjög þröngu færi. Annars fóru fyrstu mínúturnar í þreifingar hjá báðum liðum án þess að nokkur hætta skapaðist á báða bóga. Þar til Rashford fékk boltann frá Mejbri og stakk honum inn fyrir Bruno sem kom askvaðandi inn í teig Burnley og átti skot sem Trafford þurfti að gera vel í að vera.
Aftur tók við rólegur kafli þar til á 10. mínútu þegar heimamenn gerðu sig loksins líklega. Boltinn batrst upp hægri vænginn og smekkleg fyrirgjöf með temmilegri vigt fann pönnuna á Andouni sem skallaði í átt að fjærhorninu en André Onana þurfti að taka á honum stóra sínum til að blaka þeim bolta framhjá stönginni og í horn. Í kjölfarið lágu heimamenn þungt á gestunum en ekkert kom upp úr því.
Hannibal slapp því næst inn fyrir vörnina en þegar hann var kominn að endalínunni reyndi hann að taka hælsendingu á Hojlund sem var fyrir opnu marki en boltinn féll ekki vel fyrir Danann og færið rann út í sandinn. Fyrsta gula spjaldið leit svo dagsins ljós í næstu sókn heimamanna þegar Koleosho stakk Dalot af úti á vinstri kantinum en Portúgalinn sparkaði hann niður. Úr aukaspyrnunni skapaðist skotfæri fyrir Josh Brownhill sem hitti boltann langt yfir markið.
Eftir kortersleik fengu heimamenn svo dauðafæri þegar Andouni fékk stungusendingu frá Ramsey inn fyrir vörn United sem virtist uppteknari af línuverðinum og dómgæslu hans eða skorti þar á, en sem betur fer fyrir okkur fór boltinn í stöngina og aftur út í teig þar sem okkur tókst að hreinsa úr teignum.
Það voru ekki góðar fréttir fyrir Burnley eftir tuttugu mínútna leik þegar Jóhann Berg Guðmundsson þurfti að fara af velli vegna meiðsla en í hans stað kom belgískur kantmaður, Mike Tresor inn á.
Loksins fór eitthvað markvert að gerast í leiknum þegar 25 mínútur voru liðnar. United fékk hornspyrnu þar sem Reguilón skrúfaði inn fyrirgjöf beint á skallann á gamla manninn Evans sem setti boltann inn í markið og breytti stöðunni í 1-0. Eða allt þar til VAR tók til sinna ráða og sendi dómarann í skjáinn sem dæmdi markið af. 0-0 áfram.
Eftir fyrsta hálftímann var Burnley búið að vera mun betra liðið og talsvert meira með boltann (62%). United tókst ekki að halda boltanum mikið og var heldur ekki að beita hættulegum skyndisóknum. Þetta virkaði bitlaust og hægfara. Jafnvel þegar Bruno vann boltann við vítateigslínu Burnley þá mistókst okkur að skapa eitthvað út úr því.
Aaron Ramsey fékk svo fínt skottækifæri rétt undir lok fyrri hálfleiks sem var þó tiltölulega nálægt Onana sem virtist samt eiga erfitt með að grípa boltann og þurfti tvær tilraunir til þess.
Það var hins vegar gegn gangi leiksins þegar Johnny King Evans ákvað að fyrst hann fékk ekki markið fyrr í leiknum ákvað hann að senda eitt stykki heimsklassa langsendingu frá miðjuboganum á Bruno Fernandes sem tók boltann viðstöðulaust og hamraði hann framhjá stjörfum táningnum James Trafford í markinu. 1-0 og þetta verður ekki tekið af með VAR. Þetta mark minnti óneitanlega ögn á samspil Rooney og Robin van Persie þar sem sá hollenski smellti boltanum viðstöðulaust í fjærhornið eftir langa sendingu frá fyrirliðanum. http://gty.im/1697522293
United fékk annað færi rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks en Hojlund setti boltann yfir markið. Besti maður vallarins í fyrri hálfleik var án efa táningurinn Koleosho sem virkar mjög spennandi. Burnley var líka sterkara þessar fyrstu 45 mínútur, þeir átti fleiri sendingar, fleiri skot, fleiri horn og voru meira með boltann en United í fyrri hálfleik.
Það leið ekki á löngu í síðari hálfleik þar til fyrsta marktækifærið hjá United leit dagsins ljós en það kom þegar Diogo Dalot renndi boltanum fyrir markið eftir smá darraðadans í teignum en Hojlund renndi sér á eftir boltanum en rétt missti af honum. Burnley menn virtust vakna af værum hálfleiksblundi og fóru að þjarma meira að gestunum í kjölfarið.
United voru vel skipulagðir en þegar þeir unnu boltann aftur voru þeir sjálfum sér verstir og töpuðu honum mjög gjarnan um leið. Reguilón ákvað svo að næla sér í gult spjald fyrir tuð og að hafa verið að biðja um gult spjald fyrir brot á Casemiro. Þetta var eins tilgangslaust og það gerist því nú voru báðir bakverðir United komnir á gul spjöld.
Rashford var hins vegar næstum því búinn að gera það sem honum tókst ekki í síðasta leik, að finna Hojlund en Englendingurinn fékk fyrirgjöf inn í teig og skallaði boltann á vinstri stöngina þar sem Hojlund var mættur eins og gammur en varnarmaður Burnley náði að pota tánöglinni í boltann og bjarga í horn.
Næstu mínútur voru tíðindalitlar, liðin reyndu fyrirgjafir en tókst ekki að skapa neina hættu svo hægt sé að tala um. Síðustu tuttugu mínúturnar þurftu ekki að vera mjög spennandi til að toppa þessar síðustu 25 mínútur. Vincent Kompany ákvað að gera þrefalda skiptingu þá til að reyna að snúa við taflinu. Jay Rodriguez, Sander Berge og Bruun Larsen komu þá inn í stað þeirraa Andouni, Ramsay og Koleosho.
Það gerðist svo stuttu síðar að Casemiro braut af sér út á miðjum vellinum en úr aukaspyrnunni komst einn varnarmannanna inn fyrir vörn gestanna en Onana stökk á boltann en náði ekki að handsama hann í fyrstu tilraun. Annar varamaður kom þá á ferðinni en Evans setti pressu á hann og gerði Onana kleift að klófesta boltann í annarri tilraun,
Erik ten Hag gerði þá sína fyrstu breytingu þegar Varane kom inn á í stað Reguilón sem virtist ekki vera 100% heill og tilvalið að fá meiri hæð inn í liðið fyrir síðustu mínúturnar. En helsta hætta Burnley kom einmitt eftir hornspyrnur en þeir áttu eina slíka á 82. mínútu en skallinn frá Berge flaug yfir markið en Onana leit ekki vel út þar.
Hannibal þrumaði boltanum fram völlinn á 85. mínútu og setti Rashford innn fyrir en sá enski bar boltann inn í vítateig og beið svo eftir því að fá 4 varnarmenn Burnley fyrir sig áður en hann lét vaða en auðvitað beint í múrinn. Kompany gerði í kjölfarið aðra skiptingu og tók Brownhill útaf og setti inn sóknarmann í hans stað. Á svipuðum tíma henti Erik ten Hag inn á Amrabat.
Aftur komst United í álitlegt færi á síðustu mínútu venjulegs leiktíma þegar Bruno var með boltann við vítateiginn og stakk boltanum á Hojlund en skot hans fór af varnarmanni og í horn. Bruno var svo aftur á ferðinni þegar hann reyndi að taka skæri með varnarmann Burnley vafðan utan um sig en Trafford varði skotið sem var laust en þó sæmilegt. Fleiri urðu færin ekki og leiknum lauk með 0-1 sigri United.
Úrslitin í þessum leik hafa svo sem ekki breytt miklu og það hefur ekki verið nein kúvending í því hvernig stuðningsmenn ættu að horfa á byrjun þessa tímabils. Þetta er ennþá ekki nógu gott og margt sem þarf að breytast. United á til dæmis ekki að mæta á Turf Moor og detta í einhverjar skotgrafir heldur á liðið að geta mætt nýliðum úr Championship og tekið yfir leikinn. Burnley var 62% með boltann, var með hærra xG en United, átti fleiri skot og virkaði mun hættulegra framan af.
United á að setja í næsta gír fyrir ofan þegar þeir komast 1-0 yfir en ekki sitja djúpt og reyna að halda fengnum hlut út leikinn. Vissulega um að ræða útileik en gegn liði sem hefur átt í mestu basli með að halda tuðrunni úr netinu hjá sér.
En svo við einblínum meira á það jákvæða þá var Hojlund svona hérumbil að detta í gang og vantaði lítið upp á að tannhjólin smyllu saman í dag og vélin hrykki í gang, vel smurð og samhæfð. Samstarfið í fremstu víglínu er greinilega að slípast til og mun líklega blómstra síðar á leiktíðinni en við þurfum að sýna því þolinmæði.
Amrabat og Varane eru klárir og ættu að geta byrjað annan hvorn leikinn við Palace á næstu dögum. Það styttist líka í Mount og menn eins og Martial, van de Beek, Pellistri, Eriksen og Garnacho voru allir ónotaði varamenn í leiknum og ættu því flestir að eiga möguleika á því að spila leikinn í miðri viku gegn Crystal Palace sem fyrr í dag gerði markalaust jafntefli við Fulham á heimavelli.
En þrjú stig voru það í dag, vonandi tekst liðinu að komast á beinu brautina núna enda full þörf á til að missa ekki toppbaráttuna frá sér í september.
Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann | 1 ummæli
Eftir uppskerulítið ferðalag til Þýskalands þar sem Rauðu djöflarnir heimsóttu ríkjandi meistara þar á bæ er röðin aftur komin að deildarleik á enskri grund, í þetta sinn gegn Burnley. Síðasti leikur þeirra var viburðarrík viðureign gegn Nottingham Forest sem lauk með 1-1 jafntefli en United spilaði við Bayern í miðri viku. Nú þegar hefur tímabil United verið dæmt dautt og jafnvel einhverjir svartsýnir stuðningsmenn farnir að trúa því að liðið verði mögulega ekki í Meistaradeildarbaráttunni í ár. Liðið situr í 13. sæti deildarinnar og nú þegar orðið 9 stigum á eftir nágrönnum sínum á toppnum. Til að bæta gráu ofan á svart þá er United á botni riðilsins í Meistaradeildinni þar sem FC Kaupmannahöfn og Galatasary gerðu 2-2 jafntefli.
Það er því nokkuð til í því að byrjunin lofi ekki góðu. En batnandi mönnum er best að lifa og ef litið er til næstu leikja liðsins ætti Erik ten Hag að ná að þræða í gegnum næstu vikur og safna sigrum og stigum á töfluna því 6 af næstu 7 leikjum (í öllum keppnum) eru á heimavelli. Eftir leikinn gegn Burnley fylgja tvær viðureignir við Crystal Palace (H), svo Brentford (H), Sheffield (Ú) og loks Man city (H) auk þess að liðið mætir FCK og Galatasary mitt á milli þessara leikja.
Vincent Kompany tók við liðinu eftir að þeir féllu úr deild þeirra bestu eftir að hafa hangið uppi í þónokkur ár með aðferðafræði Sean Dyche sem gekk að mati sumra út á grjótharða, enska knattspyrnu þar sem ekkert var gefið eftir og líkamlegt atgervi og vinnusemi í hávegum höfð.
Margir töldu að það hefðu verið mistök að reka Dyche sem hafði gert ótrúlega hluti með liðið með verulega takmarkaðri fjárhagsaðstoð. En hann var látinn taka pokann sinn og þeir ákváðu að taka áhættu með því að ráða belgíska varnartröllið sem Kompany er og var og margir bjuggust við varnarsinnuðu og vel skipulögðu liði en það plan var ekki það sem Kompany hafði í huga. Í staðinn spilaði liðið glimmrandi fallegan og blússandi einbeittan sóknarbolta og gjörsamlega pakkaði saman Championship deildinni með 101 stig og +52 í markatölu.
Það má því segja að Burnley hafi tekið hraðlestina upp í Ensku úrvalsdeildina aftur og fyrir nýliða í deildinni þá var þeim samt ekki spáð miklu ströggli, svona samanborið við Sheffield og Luton. En byrjun Burnleymanna hefur reyndar verið ansi stembing og sitja þeir sem stendur í næstneðsta sæti deildarinnar með eitt stig úr leiknum á mánudaginn. Það er samt vissara að nefna það að þeir spiluðu ekki í 2. umferðinni þegar þeir áttu leik gegn Luton Town þar sem heimavöllur Luton var ekki tilbúinn.
Burnley spilar heimaleikina sína á Turf Moor sem er 140 ára á þessu ári. Liðið á sér langa sögu og hefur alla jafna verið viðloðandi efstu eða næst efstu deild Englands nánast frá upphafi ef frá er talið tímabilið 1980-2000 þegar liðið barðist fyrir lífi sínu í neðri deildunum (League One og Two í dag). Liðið komst í raun svo nálægt því að hverfa út atvinnumannadeildunum að það var ekki nema fyrir þá staðreynd að þeim tókst að vinna í lokaumferðinni á tímabilinu 1986/87 á meðan fallbaráttufélagar þeirra gerðu ekki svo vel. En síðan þá hefur leiðin legið upp á við þrátt fyrir að liðið hafi daðrað við falldrauginn þessi síðustu ár.
Kompany er vanur að stilla upp í 4-2-3-1 en er frekar sveigjanlegur eftir því hver mótherjinn er. Hann hefur t.a.m. beitt 4-4-2, sem Burnley stuðningsmenn þekkja allvel, en hann hefur líka sett niður 5-4-1 og 4-3-3. Það kann samt að vera að hann leggi upp með að þeir séu þéttir til baka og reiða sig á föst leikatriði og skyndisóknir þar sem búast má við að United verði meira með boltann. Þessi lið mættust í desember á síðasta ári í bikarnum þar sem United fór með sigur af hólmi 2-0 en þrátt fyrir að vera á heimavelli voru yfirburðir United ekki miklir en einstaklingsgæðin skiluðu þeim sigri.
Burnley fengu til liðs við sig í sumar þá James Trafford, Zeki Amdouni, Aaron Ramsey, Jordan Beyer og Sander Berge auk þess að fá Wout Weghorst til baka frá Old Trafford. Eins og með United þá hefur liðinu reynst erfiðast að setja boltann í netið en liðið er einungis búið að skora 4 mörk en United hefur skorað helmingi meira eða 6 mörk en Burnley hafa spilað einum leik færra.
Þegar kemur að liðsuppstillingu tel ég að Kompany stilli upp í 5-4-1 rétt eins og gegn City í 3. umferðinni en það er af og frá að hann fari inn í þennan leik gegn United án þess að telja sig eiga möguleika á öllum þremur stigunum, enda um vængbrotinn og haltan mótherja að ræða. Því spái ég liðinu á þennan veg:
Lyle Foster er í banni eftir að framherjinn náði sér í rautt spjald í uppbótartíma gegn Nottingham Forest á mánudaginn en annars eru Obafemi, Ekdal, Churlinov og Vitinho eru á meiðslalistanum.
Þegar rignir þá hellirignir. Það má segja um United þessa dagana. Slúðrið flýgur út eins og heitar lummur og fátt virðist veita liðinu nokkurn meðvind. Fyrir leikinn gegn Bayern voru eflaust margir stuðningsmenn sem óskuðu sem minnsta tapinu, fáir hafa búist við að liðið væri að fara gera nokkurn skapaðan hlut á þýskri grund. En nú eru liðnir 6 leikir af tímabilinu og fjórir þeirra hafa tapast. Það er hroðalegt á alla mælikvarða. En Erik ten Hag hefur sýnt það áður að honum hefur tekist að snúa við taflinu en það þarf margt að gerast á næstu vikum ef honum á að takast að létta lund stuðningsmanna liðsins.
6 stig eftir 5 leiki er ekki boðlegt en sumir hafa bent á erfitt leikjaprógram og reynt að fela sig bak við slíkar staðreyndir en staðreynd málsins er að United hefur ekki verið að spila nálægt getu og þegar þeim hefur tekist það þá endist það ekki nema í 20-25 mínútur í hverjum leik. Liðið hefur kreist fram tvo sigra með skrautlegum hætti í bæði skiptin og verið langt frá því að vera sannfærandi. Það er því miður bara ein leið til að svara gagnrýninni og það er með því að spila betur og vinna leiki.
Erik ten Hag lét hafa eftir sér að hann hefði aldrei frá því hann kom til United, spilað með „sitt sterkasta lið“ vegna meiðsla. Á þessu tímabili hafa hver meiðslin á fætur annarra dunið á liðinu rétt eins og um bráðsmitandi veiru væri að ræða. Nýju leikmennirnir Amrabat og Hojlund misstu af fyrstu leikjunum eftir að meiðsli komu í ljós við læknisskoðunina og Mount, Dalot, Shaw, Maguire, Malacia, Varane, Martinez, Mainoo og Martial hafa svo líka verið að glíma við meiðsli og misst úr leiki. Svo þarf varla að minnsta á hægri kantmennina okkar sem eru utan hóps.
En eðlisfræðin segir okkur að þegar botninum er náð er einungis hægt að fara upp á við og ekki annað hægt en að United spyrni sér nú af stað inn í tímabilið enda ekki seinna vænna. Í jákvæðni minni ætla ég að vonast til að Amrabat fái að byrja þennan leik gegn Burnley þar sem Eriksen spilaði í miðri viku og McTominay hefur ekki verið að heilla neinn annan en skoska landsliðsþjálfarann og skosku þjóðina að undanförnu.
Rasmus Hojlund kemur svo með ferskleika sem minnir óneitanlega á það þegar Adnan Januzaj var ljósi punkturinn í gegnum skelfingartímabil undir van Gaal. Ung og hrá markaþrá er einmitt það sem hefur vantað og ánægjulegt að sjá hlaupin sem Daninn tekur þó liðið í kring sé ekki ennþá alveg búið að stilla sig inn á sömu bylgjulengd og hann.
Pellistri hefur líka verið flottur og væri synd að sjá hann á bekknum eftir flotta frammistöðu gegn Bayern. Annars spái ég liðinu svona:
Það þarf takmarkað að ræða hvað gerist ef United tekur 3 stig, þá sitjum við uppi með 9 stig í deildinni en allt annað en sigur hlýtur að vera skráð sem tap þegar liðið er komið með bakið upp við vegginn.
Leikurinn hefst kl 19:00 að íslenskum tíma og á flautunni verður sjálfur Tony Harrington.
Vertu með í Fantasy leiknum okkar!