Maggi, Ragnar, Hrólfur og Bjössi fóru yfir tapleik gegn Tottenham Hotspur. Einnig var yfir fréttir vikunnar af félagaskiptum, yfirtöku og brottför Mason Greenwood.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 112. þáttur
Magnús Þór skrifaði þann | 1 ummæli
Maggi, Ragnar, Hrólfur og Bjössi fóru yfir tapleik gegn Tottenham Hotspur. Einnig var yfir fréttir vikunnar af félagaskiptum, yfirtöku og brottför Mason Greenwood.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 112. þáttur
Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann | 19 ummæli
Erik Ten Hag gerði engar breytingar á United liðinu sem marði Úlfanna í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Þrátt fyrir frekar slappa frammistöðu var kannski ekki búist við miklum hræringum á byrjunarliðinu en flestir höfðu kannski búist við að Sancho kæmi inn í byrjunarliðið á kostnað Garnacho. Postecoglou nýi stjóri Tottenham gerði tvær breytingar frá jafnteflinu við Brentford en Pape Sarr kom inn fyrir Oliver Skipp og Pedro Porro byrjaði í stað Emerson Royal.
Varamenn: Henderson, Vitek, Dalot, Lindelof, Eriksen, McTominay, Pellistri, Martial, Sancho
United átti fyrsta almennilega færið á annarri mínútu þegar Mason Mount vann boltann hátt á vellinum, boltinn féll fyrir Garnacho utarlega í teig Tottenham, hann sendi boltann á Antony en brasilímaðurinn setti boltann rétt yfir. Tveimur mínútum seinna átti Garnacho fínt hlaup inn á teig Tottenham en skot hans frekar auðvelt fyrir Vicario markmann Spurs, góð tilraun samt sem áður. Spilamennska United fyrstu 10 mínúturnar talsvert mikið betri en gegn Úlfunum á mánudaginn, þó að það segi kannski ekki mikið. Á 13. mínútu þröngvaði Antony boltanum inn fyrir á Marcus Rashford sem sýndi hraða sinn og náði boltanum á undan Vicario en Rashford kominn í mjög þrönga stöðu og Vicario varði skot hans.
Á 22. mínútu á Bruno rabona sendingu inn á teig Tottenham og Rashford í góðu færi en skalli hans yfir markið, kannski fínt þar sem Rashford virtist rangstæður og það hefði eiginlega ekki mátt VAR-a þessa fegurð af. Tottenham átti stuttu seinna hraðasókn eftir lélega sendingu frá Casemiro en skot Kulusevski var ekkert vandamál fyrir Onana. Á 26. mínútu reykspólaði Rashford framhjá Van de Ven, koma boltanum svo á Garnacho sem átti skot í hendi Romero, boltinn útaf í horn í stað þess að fara á markið, höndin alveg útrétt ekki við líkamann en Craig Pawson í Stockley Park sá ekkert athugavert við það. GALIN dómgæsla, í raun grátbrosleg. Stuttu seinna átti Tottenham góða hraðasókn þar sem Son laumaði boltanum á Pape Sarr en Onana varði vel. Á 36. mínútu fékk Bruno dauðafæri og algjörlega DAUÐAFÆRI. Shaw átti glæsilega sendingu inn í teig og Bruno einn á markteig alveg einn, aleinn. Fyrirliðinn skallaði boltann hátt yfir.
Á 40. mínútu áttu Tottenham sína hættulegasta sókn, Son keyrði inn á teiginn lagði hann fyrir Pedro Porro sem hamraði boltann í slána, Tottenham hélt boltanum og áttu fyrirgjöf sem fór af Luke Shaw og þaðan í stöngina. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleiknum þó svo að liðin hafi fengið sín hálf færi.
United voru talsvert betri í fyrri hálfleik og Bruno hefði algjörlega átt að koma United yfir á 36. mínútu með skalla, þá má ekki gleyma augljósu hendinni á Romero sem ég er enn að reyna að skilja afhverju var ekki dæmt sem víti. Það verður þó líklega ekki rætt jafn mikið um þetta og úthlaup Onana gegn Wolves, sem er líklegast búið að gera eins og hálfs klukkustundar heimildarmynd um. Tottenham brögguðust þó aðeins undir lok fyrri hálfleiks og náðu að setja United aðeins undir pressu. Það má þó segja að spilamennska United var sannkölluð hátíð miðað við spilamennsku þeirra gegn Wolves, pressan var fín og menn sendu tuðruna yfirleitt á samherja en ekki andstæðinga líkt og gegn Wolves. Ég vil líka minnast á eitt, Andre Onana var mjög góður í fyrri hálfleik, mjög óvanalegt þegar markmaður United grípur háan bolta inn í teig, þá átti hann sturlaða sendingu á Garnacho sem bjó til mjög hættulega stöðu en fyrirgjöf Garnacho fór af varnarmanni (svo ekki sé minnst á að verja skotin sem komu á markið).
xG í fyrri hálfleik
United: 1.42
Tottenham: 0.51
United byrjuðu seinni hálfleikinn á afturfótunum og Tottenham voru ekki lengi að refsa, Kulusevski komst upp að endalínu, sendi boltann fyrir boltinn skoppaði af varnarmanni og fyrir Pape Sarr sem þrumaði honum upp í þaknetið (Tottenham 1 – 0 United). United reyndi að svara um leið en Antony fékk fínt færi en setti boltann í stöngina, Tottenham átti þá leik og Udogie fékk fínt færi eftir undirbúning frá Son en Onana varði vel. Seinni hálfleikurinn byrjar mjög fjörlega, Tottham menn vildu fá víti eftir að Martinez stuggaði við Romero inn í teig en það hefði verið mjög soft. United fékk svo aukaspyrnu fyrir utan teig á 55. mínútu, Bruno sendi boltann inn í teig og Casemiro átti mjög fínann skalla en Vicario varði glæsilega. Tottenham virtust vera að vakna alltaf meira og meira á 61. mínútu spólaði Son sig inn á teig og átti skot sem Shaw gerði vel í að komast fyrir.
Á 66. mínútu gerði United þrefalda skiptinu Dalot, Sancho og Eriksen komu inn á fyrir Garnacho, Antony og Wan-Bissaka. Postecoglou gerði líka breytingu stuttu seinna og setti Ben Davies og Ivan Perisic inn á fyrir Richarlison og Udogie, virtist ástralski grikkinn ætla að þétta aðeins raðirnar. Það virtist hafa virkað ágætlega a.m.k. róaðist leikurinn talsvert mikið eftir skiptingar Postecoglou. United virðist hafa ákveðið að taka upp spilamennskuna gegn Wolves í seinni hálfleik og á 83. mínútu átti Tottenham sendingu inn í teig laflausa, sem Ben Davies hitti ekki og Martinez eiginlega ekki heldur sem fipaði Onana og boltinn lak í netið, Tottenham 2 – 0 United. Lítið gerðist eftir þetta United fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teig í uppbótartíma en Bruno setti boltann yfir. United var eiginlega hætt fyrir uppbótartímann og þó að hann væri 9 mínútur þá gerðu þeir samt eiginlega ekkert.
United voru ekki í leikformi gegn Wolves og virtust bara vera í formi til að spila einn hálfleik í dag. Ég veit ekki hvort var meira svekkjandi að byrja tímabilið og horfa upp á spilamennskuna gegn Wolves eða sjá spilamennskuna í fyrri hálfleik gegn Tottenham og fá vonarglætu en vera svo kippt harkalega niðrá jörðuna í seinni hálfleik. United menn voru góðir í fyrri hálfleik voru á undan í flesta bolta náðu að vinna boltann oft á vallarhelmingi Spurs. Tottenham unnu sig betur inn í leikinn í lok fyrri hálfleiks. Lundúnarliðið hélt því bara áfram í seinni á meðan United virtist vera missa alltaf meiri og meiri tök á leiknum.
Sendingar fóru að verða lélegri, voru alltaf meira og meira á hælunum og eftir á í alla bolta. Það er stórundarlegt að lið eins og United og leikmennirnir sem þar spila geti komið svona óundirbúið til leiks og þá meina ég ekki taktísklega því miðað við fyrri hálfleik þá var taktíkin ekkert að eyðileggja fyrir United, heldur aðallega bara að geta ekki hlaupið almennilega heilann fótboltaleik. Boltinn sem Ten Hag vill spila virkar ekki ef menn eru of þreyttir í að taka hlaup til þess að opna á sendingaleiðir. Það virðist hafa gerst í seinni hálfleik, leikmenn of búnir á því til þess að taka óeigingjörn hlaup til þess að opna fyrir aðra samherja.
Þá er enn þá alveg augljóst að United þarf almennilegan framherja vonandi fer að styttast í að Rasmus Hojlund geti spilað sinn fyrsta leik. Ekki bara er Rashford ekki nægilega góð nía heldur er Rashford líka bara lang besti kantmaður United og liðið mun hættulegra með hann í þeirri stöðu en upp á topp. Síðast en ekki síst verður að minnast á dómara leiksins, það er gjörsamlega fráleitt að United hafi ekki fengið víti í fyrri hálfleik sem hefði getað breytt leiknum talsvert mikið. Súrindin eru samt ekki jafn mikil og í hálfleik, þrátt fyrir að mörk breyti leikjum þá miðað við spilamennsku United í seinni hálfleik hefði Tottenham samt unnið þó að United hefði leitt 1-0 inn í hálfleik.
Eftir tvær umferðir er United með 3 stig, það er betra en í fyrra en ekki nægilega gott. Leikmenn þurfa að koma sér í almennilegt leikstand fyrir næsta leik. Vonandi geta leikmenn United spilað heilann leik næstu helgi án þess að líta út undir lok leiksins eins og meðal bumbuboltaleikmaður eftir 30 mínútur á sparkvelli.
Ragnar Auðun Árnason skrifaði þann | Engin ummæli
Manchester United heimsækir Tottenham Hotspur á morgun laugardaginn 20. ágúst klukkan 16:30. United vann fyrsta leik tímabilsins síðasta mánudag gegn Wolves. Það var þó ekki alveg byrjunin á leiktíðinni sem stuðningsmenn höfðu verið vonast eftir. Wolves liðið var talsvert betra í leiknum og United slapp í raun með skrekkinn og rúmlega það. Eins og eftir flesta slaka United leiki keppast stuðningsmenn annarra liða að greina liðið á misgáfulega máta, margir virðast t.a.m. vera búnir að afskrifa Casemiro og Mount. Undirritaður telur þó að aðal ástæða fyrir lélegri frammistöðu United í síðasta leik hafi hreinlega verið skortur á leikformi og mögulega dass af yfirlæti. Flestar sendingar rötuðu ekki rétta leið og ef þær gerðu það að þá var fyrsta snertingin léleg og löðurmannleg. Eiginlega allir leikmenn United voru lélegir Andre Onana getur þó gengið teinréttur frá þessum leik, það er góð tilbreyting að hafa markmann sem grýtir sé út í teig og grípur fyrirgjafir.
Það má þó ekki taka neitt af Wolves sem spiluðu mjög vel en virtust ekkert sérstaklega spenntir fyrir því að setja boltann í sjálft netið. Margir sparkspekingar voru farnir að spá þeim falli vegna fjárhagsvandræða og vegna þess að Lopetegui þjálfari þeirra hætti viku fyrir mót, það virðist hafa sett smá blóð á tennur úlfanna. Fjórfaldi meistaradeildarmeistarinn og einfaldi heimsmeistarinn Raphael Varane sótti þó punktana þrjá eftir sendingu köngulóarmannsins Wan-Bissaka og að lokum eru það stigin sem telja.
Ef United ætlar sér að vinna Tottenham á morgun þá er ekki hægt að leyfa sér að spila líkt og gegn Wolves. Tottenham gerði 2-2 jafntefli við Brentford í fyrstu umferð. Harry Kane-lausir Tottenham virtust vera frekar sprækir gegn býflugunum í Brentford en áttu í smá erfiðleikum með að taka yfir leikinn. Ange Postecoglou virðist hafa náð að innleiða smá hugsjón af sínum fótbolta inn í Tottenham þó að það sé kannski enn dálítið langt í land að liðið sé fullslípað. Stærstu félagsskipti Tottenham í sumar hafa verið kaupin á James Maddison, markmanninum Guglielmo Vicario og Manor Solomon frá Shakhtar Donetsk. Þá kláruðu þeir kaupin á lánsmönnunum Kulusevski og Pedro Porro, þeir eru þó sennilega ekki búnir eftir að þeir seldu Harry Kane til Bayern Munich, þá ætti að vera einhver sjóður fyrir Daniel Levy til þess að brúka.
Mér finnst líklegt að United stilli upp svipuðu liði og byrjaði gegn Wolves, ég held þó að Jadon Sancho komi inn í byrjunarliðið en hann var ágætur eftir að hann kom inn á gegn Wolves. Hann myndi þá koma inn á í stað Garnacho en færi í falska níu þar sem hann hefur spilað talsvert á undirbúningstímabilinu. Rashford færi þá út á vinstri kantinn þar sem hann er yfirleitt bestur. Postecoglou mun að öllum líkindum stilla upp sama liði og á móti Brentford þ.e.a.s. ef Romero er búinn að jafna sig eftir höfuðhöggið sem hann hlaut gegn Brentford.
Tölfræði United gegn Tottenham í Premier League:
Ég vil enda upphitunina á orðum Sir Alex „Lads it’s Tottenham“
Magnús Þór skrifaði þann | 1 ummæli
Maggi, Ragnar, Hrólfur og Friðrik fóru yfir fyrsta leik tímabilsins gegn Wolves, félagaskiptagluggann hingað til og mögulega endurkomu Mason Greenwood.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 111. þáttur
Björn Friðgeir skrifaði þann | 12 ummæli
Byrjunarliðið nú í upphafi tímabils velur sig því sem næst sjálft
Varamenn: Henderson, Dalot, Lindelöf (46.), Maguire, Erikssen (67.), McTominay (88.), Pellistri (77.), Martial, Sancho (67.)
Það kann að vera að bekkurinn sé ekki nógusterkur en ef við fáum miðvörð og miðjumann og svo Kobbie Mainoo og Höjlund verður þetta strax betra
Wolves leit svona út
Fyrstu tuttugu mínúturnar í leiknum gekki boltinn fram og til baka en hvorugt lið náði að skapa alvöru færi, Wolves voru svo sem alveg jafn nálægt því og United, reyndu alveg að sækja. Af kantmönnunum sást meira til Antony en hann átti erfitt með að koma með góðar sendingar, hlaup hans enduðu alla jafna á því að hann sendi bolta sem endaði í vörn Úlfanna. Fyrsta skotið að ráði var meira að segja andstæðinganna, Sarabia komst í alveg þokkalega stöðu, skotið fór aðeins í Varane og rétt framhjá fjær stöng. Smá fjör í teignum eftir hornið en ekkert hættulegt. Enn og aftur var það Wolves sem ógnaði, stungusending, Cunha stakk Martines af og skaut, aftur fór skot Wolves rétt framhjá fjær stöng. United langt frá því að vera sannfærandi.
En undir lok hálfleiksins komst aðeins meiri ákafi í sóknir United og þeir fóru að komast meira upp að og inn í vítateig. Það urðu þó engin færi úr því og leikurinn markalaus í hálfleik og ef einhverjir áttu að vera svekktir yfir því voru það Úlfarnir.
Lisandro Martines fékk gult spjald í fyrri hálfleik og Viktor Lindelöf kom inná, en það voru ekki liðnar fjórar mínútur þegar Cunha átti að koma Wolves yfir. Frábær sókn, sending inn á teiginn var framlengt, og Cunha var á markteigshorninu en skaut í stöngina utanverða í opnu færi. United stálheppið þar!
Cunha var svo enn á ferðinni þegar hann óð upp völlinn og fékk að taka skot utan teigs óáreittur, Onana skutlaði sér og hefði átt að gera betur en að stýra boltanum í horn. Úr því varð svo ekkert.
Ten Hag reyndi að hreista aðeins upp í þessu með að setja Eriksen og Sancho inn á fyrir Mount og Garnacho, hvorugur þeirra hafði nokkuð gert af viti. Það verður að segja að það hafi tekist því á 76. mínútu skoraði Varane. United var búið að sækja á og Bruno vippaði boltanum inn á teiginn, Wan-Bissaka tók boltann viðstöðulaust og gaf fyrir og þar var Varane og skallaði inn af markteig. Kannske ekki besta vörnin en fínt mark.
Pellistri kom inná fyrir Antony en sást lítið, því Wolves sóttu mikið á síðasta kortérið. Ten Hag gerði varnarsinnaða breytingu og setti McTominay inn á fyrir Rashford.
Wolves var í stöðugri sókn síðustu mínturnar af sjö mínútna viðbótartíma og voru svekktir að fá ekki víti þegar Onana kom stökk út og fór beint í Kalajdzic án þess að ná til boltans. VAR sleppti því, frekar óvænt og United hélt út
Þetta var vont. Þetta var rosalega vont. Það er varla nokkur leikmaður sem fær plús í kladdann nema Varane að hafa hangið frammi eftir að horn rann út í sandinn og skorað markið eins og hver annar senter af gamla skólanum. Miðja Wolves var sterkari fljótari og grimmari og ef Ten Hag ætlast til að United haldi boltanum og stjórni leiknum eru erfiðir dagar á æfingasvæðinu framundan hjá leikmönnum, það verða engin grið gefin. Onana var þokkalegur en hefði átt að fá á sig víti, eina björgunin er sú að sögulega hafa markmenn fengið að koma svona út og fara í sóknarmenn án þess að dæmt sé á þá en Wolves mega alveg vera súrir.
Betur má ef duga skal, næsti leikur er á laugardaginn á Tottenham Hotspur Stadium. Það gæti orðið langur laugardagur á Ölveri.
Vertu með í Fantasy leiknum okkar!