Ef einhver segist hafa séð fyrsta áreiðanlega slúðrið um að Radamel Falcao væri hugsanlega á leið til United og samt ekki orði spenntur, þá hlýt ég að ásaka viðkomandi um ýkjur, skreytni eða hreint út sagt lýgi.
Það eru engar ýkjur að segja að fram að meiðslunum í janúar á síðasta ári var Falcao í mörg ár einn mesti og besti markaskorari í Evrópu og hvaða lið sem er hefði viljað fá hann. Og hann kom til United. Það hefði verið eitthvað skrýtið að verða ekki glaður yfir því.
En.
Við vissum að hann var að stíga upp úr erfiðum meiðslum og það var líka ánægjuefni að viðskiptin væru á láns- og leigukjörum. Enda hefur komið í ljós að vonin í haust var nær örugglega villuljós.
Það þarf ekki að vera jafn steiktur og Martin Keown í lýsingunni á Preston leiknum þar sem hann taldi ólíklegt að Falcao sæist aftur í United treyju til að telja nú orðið ólíklegt að hann sýni þau tilþrif sem þarf til að tryggja sér 43 milljón punda færslu til United í sumar. Til þess er tíminn einfaldlega að renna út, þó að öll ritstjórn þessarar síðu séu dyggir stuðningsmenn hans.