Tölfræðirýnir nokkur tísti eftirfarandi stigatöflu í gær.

Þetta er taflan eins og hún hefði litið út í fyrra eftir fimmtán leiki ef leikjaröð hefði verið sú sama og hún er í ár!
Björn Friðgeir skrifaði þann | 8 ummæli
Tölfræðirýnir nokkur tísti eftirfarandi stigatöflu í gær.
Þetta er taflan eins og hún hefði litið út í fyrra eftir fimmtán leiki ef leikjaröð hefði verið sú sama og hún er í ár!
Björn Friðgeir skrifaði þann | 19 ummæli
Louis van Gaal kom enn á óvart og endurvakti enn á ný 3-4-1-2
Á varamannabekknum: Lindegaard, Evans, Herrera, Fletcher, Januzaj, Wilson, Falcao
Lið Southampton:
Björn Friðgeir skrifaði þann | 11 ummæli
United liðið er komið á suðurströnd Englands þar sem þeir mæta liðið Southampton á morgun. Ásamt með West Ham sem tyllti sér í 3ja sætið tímabundið í dag er lið Southampton spútniklið haustsins. Eftir sölur sumarsins kom Southampton út í 35m punda hagnaði, seldu menn fyrir 93m en keyptu á móti fyrir 58 milljónir.
Flestir bjuggust við döpru gengi Southampton eftir að margir bestu leikmenn liðsins höfðu verið seldir en það hefur sannarlega ekki komið á daginn. Nýr framkvæmdastjóri liðsins, Ronald Koeman, hefur sett saman þrælskemmtilegt lið þar sem þessar 57 milljónir hafa nýst vel og nýju mennirnir Dušan Tadić, Graziano Pellè, Shane Long og markvörðurinn Fraser Forster hafa allir komið sterkir inn. Vörn Southampton hefur verið sú þéttasta í vetur og augljóst að Dejan Lovren var ekki ómissandi. Gamli jaxlinn José Fonte er nú lykilmaður þar.
Það var þó vitað að Southampton hafði lengi framan af hausti ekki þurfti að spila móti sterkustu liðunum. Nú er hins vegar komið að því og síðustu tveir leikir þeirra hafa verið á móti Manchester City og Arsenal og hafa báðir tapast, 0-3 og 0-1. Að auki hefur meiðsladraugurinn gert vart við sig svo um munar og þá reynir á lítinn hóp. Dušan Tadić verður reyndar með á morgun eftir að hafa farið af velli gegn Arsenal, og miklar líkur á að varnarmaðurinn Toby Alderweireld verði líka með eftir af að hafa meiðst í sama leik. Miðjumennirnir James Ward-Prowse, Jack Cork og Morgan Schneiderlin eru hins vegar allir meiddir. Graziano Pellè, sem skoraði og skoraði í haust hefur ekki skorað frá í lok október en Shane Long og Sadio Mané geta alveg skorað líka. Southampton verður því ágætlega mannað.
Meiðslavandræði United eru aðeins að minnka. Wayne Rooney verður með á morgun, og Jonny Evans án efa í hóp. Rafael fór með liðinu suðreftir, verður svo að koma í ljós hvort hann er í hóp eða ekki. Falcao hlýtur svo að vera treyst fyrir byrjunarleik núna.
Ég ætla því að spá nær óbreyttu liði frá Stoke leiknum nema frammi. Sókndjarft lið en þetta er leikur sem við viljum vinna.
Flest liðin sem við megum búast við að verði í meistaradeildarbaráttunni í vor töpuðu stigum í gær og nú setur sigur okkur í þriðja sætið. Annars sitjum við áfram í því fimmta en Southampton hoppar í þriðja. Sigur væri líka fullkomið veganesti fyrir stórleikinn gegn Liverpool um næstu helgi.
Það er vel þess virði að líta aðeins á stjóra liðanna annað kvöld. Þeir Louis van Gaal og Ronald Koeman þekkjast vel frá fyrri tíð.
Líkur eru á að hlakkað hafi í Van Gaal þegar Koeman tók við nýbökuðum Hollandsmeisturum AZ Alkmaar af Van Gaal en var rekinn eftir sex mánuði.
En þíða komst í samskipti þeirra þegar Van Gaal tók við hollenska landsliðinu og þurfti að fara að nota leikmenn frá Feyenoord undir stjórn Koeman og í dag segir Koeman hann ekki bera kala til Van Gaal, en vinir verði þeir ekki. Allt er þetta nánar rakið í grein Independent.
Koeman og Van Gaal eru fimmtu og sjöttu Hollendingarnir til að taka við liði í úrvalsdeildinni. Engu að síður er þetta í fyrsta sinn sem hollenskir þjálfarar mætast í leik í deildinni enda voru þeir Ruud Gullit, Guus Hiddink, Martin Jol og René Meulensteen vinur okkar aldrei samtíða.
Leikurinn hefst kl. 8 annað kvöld en að lokum bendum við enn einu sinni á hlaðvarpið okkar frá í síðustu viku!
Björn Friðgeir skrifaði þann | 6 ummæli
Allt virðist benda þess að Edward Woodward hafi slegið á þráðinn til helstu blaðamanna því síðla kvölds í gær voru þeir allir með sömu fréttina: Louis van Gaal fær 100-150 milljónir punda til að leika sér með í sumar og jafnvel í janúar ef réttur maður losnar.
Blöðin léku sér svo að nefna þá sem þau halda að séu á innkaupalistanum svo sem Nathaniel Clyne, hægri bakvörð Southampton, Diego Godín miðvörð Atlético, Mats Hummels, Kevin Strootman, Arjen Robben og Gareth Bale. Síðan verður það auðvitað spurning hvað verður um Falcao.
Við ræddum væntanlega leikmannakaup stuttlega í hlaðvarpinu okkar í gærkvöld, og erum almennt sáttir við þessi nöfn. Reyndar var það svo að í hamingjunni eftir þessa síðustu fjóra sigra voru sumir (les: ofanritaður) bara ekkert svo stressaðir yfir því að þurfa að fá Strootman/Vidal/kóng á miðjuna. En hann kemur.
Þegar kemur að því að eyða peningum þá er nú orðið svo að fyrsta spurning sem vaknar er „Hvað með Financial Fair Play?“ Ég leit aðeins yfir þetta og við fyrstu sýn er ekki nokkuð sem ætti að koma í veg fyrir þetta hjá United.
Nánari útlistanir á Financial Fair Play má lesa annars staðar, en í meginatriðum snýst þetta um tvennt:
Fyrst að rekstrinum. Ef lið tapar meira en 5 milljónum evra á ári þarf eigandi að leggja til eigið fé og þá má tap nema allt að 45 milljónum evra.
Vissulega hafa tekjur lækkað um ein 10% á fyrsta ársfjórðungi fjárhagsársins 2014-15, þ.e.a.s. í ágúst til október en búist er við að heildartekjur verði á bilinu 385-395 milljónir punda, sem er lækkun úr 433 milljónum árið áður, sem sé, þessi sama 10% lækkun þar. Engu að síður er spáð góðum hagnaði fyrir afskriftir og vaxtagjöld.
Nú er það þannig að leikmannakaup eru ekki færð til gjalda öll í einu heldur afskrifuð yfir samningstímann. Skv. reikningum United þá var afskrift vefna leikmanna á fjárhagsárinu 2013-14 alls 55 milljónir punda, en á fyrsta fjórðungi þessa fjárhagsárs 21 milljón og að óbreyttu því 84 milljónir yfir allt árið. Þá sést að eyðslan í ágúst bætti um 29 milljónum punda í þessa upphæð. Gera verður ráð fyrir að kaupin fyrir 1. ágúst hafi byrjað að afskrifast strax, hvort að það hafi verið hlutfallslega (og þá ekki nema 1/12 af ársafskrift) eða hvort ársskammti af afskriftum hafi verið skellt inn í reikningana, það veit ég ekki.
Búast má við að nýir leikmenn skrifi undir 4-5 ára samninga og því fari vel tæpur fjórðungur af leikmannakaupum inn á reikningana.
Eyðsla uppá 150 milljónir myndi því koma inn sem 35 milljónir punda í ársafskriftir og þá sem aukarekstrargjöld.
Þetta ár verður reyndar örlítið erfitt þar sem hagnaður hefur minnkað en engu að síður er ekki hægt að að sjá að þó við kaupum í janúar þá leið það til taps Að auk kemur inn að nýtt fjárhagsár byrjar 1. ágúst og sama dag hefst samningurinn góði við Adidas, sem gefur litlar fimmtíu milljónir aukalega í kassann á ári og myndi alveg sjá til þess að 35 milljón punda aukaútgjöld myndu ekki leiða til taps í ársreikningi á næsta fjárhagsári.
En sem fyrr segir er það ekki bara spurning um hagnað og tap heldur mega laun ekki hækka úr hófi og þar kemur að hlutum sem eru ekki alveg jafn gagnsæir. Launagreiðslur mega ekki hækka um meira en sem nemur 4 milljónum punda nema á móti komi tilsvarandi hækkun á tekjum. Þetta ár er því frekar erfitt fyrir United því tekjur hafa lækkað. Innanhúss eru samt engin vafaatriði þar, stjórn United ætti að vera með þær tölur alveg á tæru og vita hvað má og má ekki launalega séð þegar við horfum til hugsanlegra janúarkaupa.
Á næsta ári munu hins vegar tekjur snaraukast. Fyrrnefndur Adidas samningur gefur fimmtíu milljórir og ef við komumst í Meistaradeildina má búast við að tekjuskerðing ársins gangi öll til baka og vel það þar sem nýr sjónvarpssamningur fyrir Meistaradeildina tekur gildi næsta haust. Þar gætu verið 100 milljónir bara si svona. Launasamningar sem taka gildi eftir 1. ágúst á næsta ári verða því nákvæmlega ekkert vandamál.
Og ef fótboltabólan springur ekki næstu sex mánuðina verða gerðir nýir og enn stærri sjónvarpssamningar fyrir Úrvalsdeildina eftir hálft ár sem taka gildi 2016.
Ég hef aldrei legið á skoðunum mínum hvað varðar eigendurnar, en eitt er víst þeir hafa alltaf kunnað að reikna. Fyrstu tíu árin sá Sir Alex um það að þeir gátu alltaf reiknað sér í hag og höfðu engar áhyggjur af liðinu. Núna eru þeir loksins búnir að komast að því að það þarf stundum að eyða í liðið og þá erum við svo heppin að fjársog þeirra síðustu tíu árin hefur leitt til þess að félagið stendur undir eyðslunni. Reikningsdæmið hjá þeim verður því fyrst og fremst hvernig klúbburinn stenst Financial Fair Play, og ég held að þó ég treysti þeim í fæstu, þá treysti ég þeim til að reikna það rétt.
Með öðrum orðum: United getur nær örugglega eytt 100-150 milljónum punda í sumar án þess að hafa nokkra áhyggjur af Financial Fair Play.
Eyðsla United í dag er eðlileg, hún tekur mið af því að við erum skuldsettasta liði heims (teljum ekki með lið eins og Real og Barca sem þurfa aldrei að borga skuldir) en engu að síður höfum við fjárhagslegt bolmagn til að kaupa bestu leikmennina. Og erum loksins farnir að gera það.
En það er ekki hægt að skilja við fjármálin á þeim nótum að fólk haldi að eigendurnir okkar séu æði.
Sumarið 2009 seldum við Cristiano Ronaldo á áttatíu milljónir punda. Í staðinn keyptum við þessa pilta:
á samtals nítján milljónir punda.
Ég ætla að leyfa lesendum að ímynda sér hvað við hefðum getað gert ef eyðslan það árið hefði verið nettó, segjum, 50 milljónir og brúttó þá 130, frekar en að vera nettó mínus 60 milljónir.
Þáttur nr. 4 er kominn í loftið! Að þessu sinni mættu Björn Friðgeir, Tryggvi Páll, Magnús, Sigurjón og sérstakur gestur þáttarins Trausti Sig til leiks. Við spjölluðum um síðustu fjóra sigurleiki, Fellaini, Carrick, De Gea, David Beckham, meiðslin, leikina framundan og meira til.
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan auk þess sem hægt er að hala honum niður í gegnum spilarann eða hér að neðan. Jafnframt má gerast áskrifandi að þættinum í gegnum ýmis podcast-forrit:
Gerast áskrifandi í iTunes
Gerast áskrifandi í öðrum forritum
MP3 niðurhal: 4. þáttur
Vertu með í Fantasy leiknum okkar!