Það er ekki ofsagt að flestir United aðdáendur hafi verið stressaðir fyrir leikinn í dag þegar Chelsea kom í heimsókn. En þó að það hafi tekið tímann sinn fór svo á endanum að jafntefli urðu sanngjörn úrslit leiksins.
Falcao og Jones höfðu meiðst á æfingum og Fellaini fékk tækifærið eftir góða frammistöðu gegn WBA.
á bekknum voru: Lindegaard, Blackett, Fletcher, Carrick, Herrera, A. Pereira og Wilson
Lið Chelsea leit hins vegar svona út, Diego Costa meiddur og Didier Drogba kom inn
Óhætt er að segja að leikurinn hafi byrjað á fullu. Chelsea átti fyrsta færið, Oscar skaut í horn eftir hræðilega sendingu Rojo, Fellaini hreinsaði úr horninu og var svo kominn einna fremstur í hraðaupphlaupið en sú sókn endaði með skoti Di María yfir. Fellaini var svo aftur kominn inn í vörnina til að hirða boltann af Hazard inn í teig og stoppa þannig snyrtilega sókn Chelsea.
Leikurinn róaðist eftir þetta Chelsea voru mun meira með boltann en sóknir þeirra voru frekar varkárar og miðja United var fastari fyrir en búast hefði mátt við og Fellaini var strax að sýna takta sem hann hefur ekki sýnt áður í United treyju
United fékk svo tvö hörkufæri um miðjan hálfleikinn, fyrst varði Courtois frá Van Persie sem var kominn inn fyrir eftir frábæra stungu Januzaj og rétt á eftir skallaði Van Persie aftur fyrir sig beint á Courtois.
Leikurinn var nokkuð jafn eftir þetta, fór að mestu fram á miðjunni en Chelsea voru þó aðeins meira ógnandi, meira af því að vörn og miðja United átti það til að vera frekar holótt. Þar var helst við Rojo að sakast og jafnvel Blind, en Chris Smallinng átti fínan leik. De Gea bjargaði vel á 41. mínútu þegar lélegur skalli Rojo hleypti Hazard í gegn. Hazard gaf í í teiginn á aleinan Drogba en De Gea varði skot hans.
United var hins vegar síst lakari aðilinn og skapaði þó nokkur færi. Januzaj skaut yfir í þokkalegu færi eftir að hafa spilað sig í gegn og rétt á eftir reyndi hann það aftur en þá sparkaði Ivanovic hann niður millimeter utan teigs. Di María átti snilldarsendingu úr aukaspyrnunni þvert út á Mata óvaldaðan, en skot hans fór víðsfjarri markinu, skelfileg sóun þar.
Fyrri hálfleikur því markalaus og alveg ágætur af okkar hálfu, fyrir utan smá veikleika í vörninni. Chelsea hefði getað fengið víti þegar Rojo og Smalling brutu báðir af sér í aukaspyrnufyrirgjöf, en dómarinn sleppti þeim. Nokkuð vel sloppið enda báðir með hálstak á sínum mönnum.
Chelsea byrjaði betur fyrstu mínútur seinni hálfleiks, en United náði að standa það af sér og náði ágætum sóknum. Hinu megin komst Hazard í gegn eftir frábært samspil við WIllian en David De Gea varði frábærlega í horn. Sú hetjudáð hafði þo ekkert að segja því hornið kom á nærstöng þar sem Drogba kom á fleygiferð frá vörninni, Rafael átti að vera að dekka hann en var alltof seinn á eftir honum. Drogba skallaði glæsilega eins og hans var von og vísa og Van Persie var ekki alveg á réttum stað til að hreinsa. 0-1. Eftir leik staðfesti Van Gaal að þarna hefðu verið mistök í samskiptum Fellaini og Rafael, enda stórir og sterkir Chelsea menn öllu fleiri en en stórir og sterkir United menn.
Eftir markið áttu United frekar erfitt uppdráttar. Di María fékk tvídekkun á sig og Chelsea spilaði mun betur. Besta færið var þó langskot WIllian sem De Gea varði ágætlega. Oscar hefði alveg getað fengið ódýrt rautt fyrir að sparka aftan í Smalling. Dómarinn lét þó gult nægja.
Mourinho hefur alltaf verið mikið fyrir að að reyna að loka leikjum á útivelli þegar hans lið er yfir frekar en að reyna að auka muninn. Hann tók Oscar útaf fyrir Mikel og um leið kom James Wilson inná fyrir Mata sem var búinn að vera næsta ósýnilegur.
Chelsea færin þar á eftir voru frá Ivanovic sem sólaði sig gegnum alla vörnina en skaut svo þvert að boltinn fór í innkast, og síðan skaut Willian vel framhjá.
United fór í meiri sóknarham eftir því sem á leið en það vantaði herslumuninn upp við markið. Van Persie komst innfyrir en Courtois varði, Januzaj skaut framhjá utan teigs og James Wilson skallaði fyrirgjöf Rafael hátt yfir. Eins og svo oft síðustu árin fóru þau horn sem fengust undantekningarlaust í hausinn á fyrsta varnarmanni þó að núna heiti spyrnumaðurinn Ángel di María en ekki Nani.
Það sem virtist helst að var að uppbygging spilsins var of hæg og menn tóku sér of mikinn tíma
Á 91. mínútu valdi Gary Neville Thibaut Courtois mann leiksins sem hann átti alveg skilið fyrir ágætar vörslur frá Van Persie, en á 93. mínútu braut Ivanovic á Di María vinstra megin. Hann fékk verðskuldað sitt annað gula spjald fyrir þetta. Aldrei þessu vant kom síðan frábær fyrirgjöf frá Di María, Fellaini besti maður United í þessum leik skallaði að marki, Courtois varði með kattliprum viðbrögðum og Robin van Persie af öllum mönnum skoraði með óverjandi skoti.
Þvílík gleði!
Þó að þetta hafi verið mjög erfitt stig að innbyrða þá er ekki hjá því litið að jafntefli voru sanngjörn úrslit. United var betra í fyrri hálfleik og eftir að Mourinho parkeraði rútunni þá fékk United þau tækifæri sem að lokum skiluðu árangri. Reyndar hefði Ivanovic átt að dekka Fellaini í aukaspyrnunni sem gaf markið en var búinn að láta reka sig útaf og Kurt Zouma, miðvörðurinn sem Mourinho setti inná á 90. mínútu var of seinn í Van Persie í markinu, en það sýnir bara hvernig lið geta gert mistök ef þau eru pressuð nóg.
Besti maður leiksins var án efa Fellaini. Lék stórvel á miðjunni og batt liðið vel saman. Eins átti Chris Smalling ágætan leik, og það fer að verða óþarfi að taka fram að David De Gea átti nokkrar stórkostlegar vörslur.
Van Persie var alveg á leiðinni að fá slæma gagnrýni fyrir leikinn, en í raun var það Courtois sem stöðvaði hann oftar en einu sinni og síðan var það einu skoti of mikið jafnvel fyrir Courtois.
Og gleði Robin var ósvikin!
Við förum með sjálfstraust inní borgarslaginn um næstu helgi, Rooney og Falcao verða vonandi með, og ég er alveg til í að setja smá pening á að Blackett taki sæti Rojo í liðinu. Og þá verð ég bara smá spenntur fyrir góðum úrslitum!