Þegar fyrsta hlaðvarpið okkar kom út við spurðu einhverjir hvers vegna lítið var farið í fyrstu leikina í haust. Leikurinn gegn QPR svaraði þeirri spurningu nokkuð vel: Fyrstu leikirnir skiptu ekki máli fyrir framtíðina (nema auðvitað sem töpuð stig). Sömuleiðis sýndi leikurinn svo ekki var um villst að öll umræðan um 3-5-2 kerfið var á algerum villigötum. Kerfið sem Van Gaal tók skýrt fram að var valið vegna þeirra leikmanna sem hann hafði í höndunum þegar undirbúningstímabilið hófst var einfaldlega ekki eitthvað sem þurfti þegar fimm nýjir leikmenn eru komnir inn. Því varð tígulmiðjan fyrir valinu í síðasta leik og ef einhver hélt að Van Gaal væri búinn að gleyma hvað sé uppáhaldsleikkerfið hans þá taka þessi ummæli hans um Januzaj á blaðamannafundi í gær af allan vafa:
With this system he has to compete with a lot of potentially very strong strikers. When we play 4-3-3 then he should have maybe more chances. It depends on the system we play
Sem sé þegar, en ekki ef, við spilum 4-3-3. Þannig að við getum farið að hafa aðeins minni áhyggjur af 3-5-2 og hugsa meira um spilamennsku og frammistöðu.

Við spiluðum ‘bara’ við QPR í síðustu viku og nú er komið að Leicester og það er ekki hægt að segja ‘bara’ Leicester. Þeir hafa staðið sig vel það sem af er, náð jafnteflum á heimavelli gegn Everton og Arsenal og stóðu í Chelsea á Stamford Bridge þrátt fyrir 2-0 tap. Síðan unnu þeir Stoke 1-0 í síðasta leik. Það er ansi hreint stór hópur fyrrverandi United leikmanna í liðinu, en engu að síður er það bara Richie de Laet sem er fastur í liðinu. Matty James mun víst taka sæti líka eftir meiðsli. Markmannsnafnið þekkjum við vel og sum muna eftir myndum af Kasper Schmeichel sem litlum strák að leika sér. Stjarna Leicester í þessum fyrstu leikjum hefur samt verið Leonard Ulloa, keyptur frá Brighton í sumar og búinn að skora þrjú mörk í þessum fjórum leikjum. Það verður því ágætis prófraun fyrir vörnina að fá að taka á honum og sýna að QPR leikurinn er í raun ný byrjun. Að lokum má búast við að Esteban Cambiasso muni spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik og koma með gríðarlega reynslu inn í Leicester liðið, eina spurningin er hvort hann sé að verða búinn á því, orðinn 34 ára.
Á blaðamannafundinum í gær gaf Van Gaal skýrt út að enginn ætti öruggt sæti í liðinu. Eða nær enginn:
I don’t think any player is fixed. Only the captain has more privileges, but no other player has privileges I think.
Þannig að það má búast við að Wayne Rooney fái að halda sínu sæti. Það er hins vegar alveg ljóst að hann má ekki misstíga sig mikið miðað við hvernig Juan Mata hefur staðið sig þegar hann fær tækifæri í tíunni. Sömuleiðis verður Van Persie að sýna meira en hann hefur gert hingað til. Þessir fjórir leikmenn munu berjast um þrjú sæti og hver sem er af þeim gæti misst sætið. Það flokkast sem lúxusvandamál fyrir Louis van Gaal.
Að því sögðu þá hlýtur Falcao að byrja á morgun og líklegast þykir mér að Mata dragi stutta stráið og Rooney fái tíu stöðuna.
Að öðru leyti er ekki ástæða til að hræra í liðinu frá síðasta sunnudegi (vissuð þið að enski boltinn er í beinni í Íran? óþarfi að missa af leikjum þar) nema Shaw fær hugsanlega tækifærið. Smalling er kominn úr meiðslum en ég sé enga ástæðu til að láta hann taka sæti Blackett.
Það er ekki hægt að kvarta undan þessu liði, ég býst við og vonast til að sjá sömu spilamennsku og síðast og ef svo er þurfum við ekki að spyrja hvernig þessi leikur fer.
Leikurinn hefst klukkan 12:30 á morgun.