Ef það er eitthvað að gerast hjá United þessa daga fer það fram bak við tjöldin. Louis van Gaal er auðvitað á fullu að vinna með Hollendingum fyrir HM og við reiknum fastlega með að Ed Woodward sé að vinna á fullu í leikmannamálum.
Það er rétt að benda á að það að undirritaður tók þátt í sérstakri hringborðsumræðu í podkasti hjá kollegum okkar á kop.is. Þar var, aldrei þessu vant, lítið sem ekkert talað um Liverpool og fókusinn aðallega á United og önnur lið í deildinni. Þess virði að kíkja á það fyrir þá sem eru í algjöru svelti hvað varðar umræðu um enska boltann.
Það er líklega helst að frétta af United að Malcolm Glazer, faðir Glazer-fjölskyldunnar, lést í gær, 85 ára að aldri. Hann fékk heilablóðfall fyrir nokkru. Ólíklegt er að þetta hafi mikil áhrif á eignarhald United eða starfsemi félagsins þar sem synir hans Avram og Joel hafa að mestu séð um eignarhald Glazeranna á Manchester United. Menn hafa tekið þessum fregnum misvel, eigandi Derby telur að Glazerarnir hafi rutt brautina fyrir aðra erlenda eigendur á meðan Twitter var ekkert sérlega fallegur staður svona rétt á meðan fregnir af fráfalli Malcolm Glazer voru að brjótast út.
Það er lítið kjöt á beinunum hvað varðar leikmannamál, að minnsta kosti opinberlega. Louis van Gaal endaði auðvitað áhuga United á Toni Kroos og við gerum fastlega ráð fyrir því að eltingarleikurinn við Luke Shaw haldi áfram en fregnir hafa borist af því að það verði klárað eftir Heimsmeistarakeppnina. Eitthvað hefur verið hvíslað um að United hafi áhuga á Fabregas og Marca greindi frá því í gær að David de Gea sé á fullu að sannfæra Fabregas um að ganga til liðs við United. De Gea var auðvitað virkur í því að fá Mata til liðs við félagið í janúar, ekki slæmt að hafa svona markmann sem moonlightar sem umboðsmaður. Í vikunni var Twitter fullt af sögusögnum að United ætli sér að kaupa Miranda, miðvörð Atletico Madrid, en svo hefur ekkert heyrst meira af því.
Það verður líka þess virði að fylgjast með hollenska landsliðinu á HM, ekki bara til þess að sjá Louis van Gaal að störfum heldur einnig til að fylgjast með mögulegum leikmönnum United. Slúðrið á Englandi segir að van Gaal vilji fá miðvörðinn Bruno Martins Indi og Jordan Clasie frá Feyenoord en þeir munu báðir taka þátt í HM. Það eru þá hæg heimatökin fyrir van Gaal ef hann hefur áhuga á þessum leikmönnum.
Það hafa margir orðið til að spá í hvað við þurfum í sumar. Michael Cox frá Zonal Marking er ansi naskur sérfræðingur og greinir hvað United gæti þurft.
Við vonum auðvitað að hægt verði að klára eitthvað fyrir HM en við verðum þó ef til vill að sætta okkur við það að HM muni líklega koma í veg fyrir það.