Þessum leik var beðið með mikilli eftirvæntingu vægast sagt. Það er líklega enginn Manchester United maður jafn dáður og Ryan Giggs. Maðurinn er goðsögn og er lifandi dæmi um allt það sem Manchester United stendur fyrir. Á blaðamannafundinum í gær talaði hann mikið um að láta liðið leika meira eins og United á að gera. Hann var líka ekki lengi að sækja Paul Scholes í þjálfarateymið og það gladdi alla stuðningsmenn.
Giggs var ekkert að hafa þetta flókið í dag. Hann stillti upp í 4-4-2 og var vörnin skipuð af þeim Phil Jones, Nemanja Vidic, Rio Ferdinand og Patrice Evra. Það er ekki hægt að segja að þeir félagar hafi haft mikið að gera í leiknum og þegar eitthvað gerðist þá sjaldan sem það gerðist þá var David de Gea traustur að vanda. Miðjuspilinu var stjórnað af Michael Carrick sem hafði Tom Cleverley sér við hlið en Giggs ákvað að gefa honum sjensinn í dag. Michael Carrick var betri en hann hafði verið lengi en mikið vantar honum almennilegan valkost sér við hlið því Tom Cleverley er því miður nokkrum númerum of lítill. Hann hefur staðið í stað á meðan Danny Welbeck hefur vaxið mikið. Antonio Valencia var líklega að spila sinn besta leik í langan tíma og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Shinji Kagawa lék vinstra megin en sótti reyndar mikið inná völlinn og átti fínan leik. Sóknin var skipuð þeim félögum Wayne Rooney og Danny ‚Dat Guy‘ Welbeck. Rooney var í fantaformi í dag og Welbeck líflegur og er með þann hraða sem er svo nauðsynlegur fyrir þetta lið.
Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað verður að segjast en liðið hélt boltanum mjög vel en skapaði fá færi og sennilega verið einhver spenna í liðinu og það skiljanlega. Norwich átti engin færi né neinar marktilraunir í fyrri hálfleik þannig að de Gea fylgdist bara með leiknum eins og við aðdáendurnir. Það var svo loks á 41.mínútu að United fékk dæmda einu augljósustu vítaspyrnu sem pistlahöfundur hefur séð þegar Stephen Whittaker togaði Danny Welbeck niður þegar sá síðarnefndi var kominn í dauðafæri eftir að bolti frá Phil Jones lak í gegnum mannþvöguna í vítateig Norwich. Whittaker slapp á einhvern ótrúlega hátt við rautt spjald en hann var aftasti varnarmaður og rændi sóknarmann upplögðu marktækifæri. Wayne Rooney steig á punktinn og skoraði örugglega og var leikmönnum augljóslega létt. Staðan í hálfleik var Manchester United 1 Norwich City 0.
Það var greinilegt að Giggs hafði ekki verið alveg sáttur við spilamennsku sinna manna í fyrri hálfeik því liðið var miklu beittara í seinni hálfleik og það tók Wayne Rooney ekki langan tíma að auka forystuna í 2-0. Hann laglegt skot fyrir utan teig og rann í skotinu en það kom alls ekki að sök. Fyrsta skipting leiksins kom á 59.mínútu en þá kom Juan Mata inná fyrir Danny Welbeck. Það má segja að það hafi verið rétt ákvörðun hjá stjóranum því það tók Mata ekki langan tíma að skora eftir laglega fyrirgjöf frá Phil Jones. 10 mínútum síðar var Mata aftur búinn að skora en hann skallaði fyrirgjöf/skot frá Antonio Valencia í fjærhornið og staðan var því 4-0 og var leikurinn búinn. Javier Hernandez fékk frábært tækifæri einn á móti Ruddy í Norwich markinu en setti boltann framhjá á ótrúlegan hátt.
Ég veit að Norwich er langt frá því að vera nokkur mælikvarði á getu United en það var eitthvað við spilamennskuna í seinni hálfleik sem hefur ekki sést lengi á Old Trafford. Það var ákefðin og ástríðan sem Giggs vildi sjá en líka leikgleði og hungur. Liðið var aldrei satt þrátt fyrir að vera 2,3 eða fjórum mörkum yfir. Það má vera að pressan sé farin af liðinu en ég held að það sé ekki eina ástæðan. Leikmennirnir vildu spila fyrir Giggs og vildu einnig spila fyrir hvern annan. Ég er kannski tilfinningasamur og má það vera en ég vil hreinlega að Giggs fái næsta tímabil til að sýna hvað hann getur. Alls ekki að sætta sig við van Gaal sem er 4. eða 5. val.
Að lokum menn leiksins: