Þetta var ljúft. Þetta var klikkað. Þetta var öruggt og þetta var tæpt. Þetta var klassískt evrópukvöld á Old Trafford. Manchester United þurfti að gera eitthvað sem aðeins einu liði hafði tekist áður í sögu Meistaradeildarinnar, að snúa við 2-0 tapi í fyrri leik liðanna.
Byrjunarliðin voru svona
De Gea
Rafael Rio Jones Evra
Carrick Giggs
Valencia Rooney Welbeck
RvP
Bekkur: Lindegaard, Fellaini (91.), Fletcher (81.), Januzaj, Kagawa, Young (77.), Hernandez.
Olympiakos: Roberto, Maniatis, Holebas, Manolas, Marcano, Salino, N’Dinga, Perez, Fuster, Campbell, Dominguez
Það var ljóst að liðið þurfti að sækja frá fyrstu mínútu og liðsvalið kom nokkuð á óvart. Valencia kom aftur á kantinn ásamt Danny Welbeck, Rio fór í vörnina og Ryan Giggs sneri aftur á miðjuna eftir langa pásu. Fyrstu mínúturnar gáfu tóninn fyrir þennan leik. United sótti hratt þegar liðið fékk boltann og Ryan Giggs var miðpunktur í öllu spili liðsins. Það var augljóst að menn voru mættir til leiks til þess að skora að minnsta kosti þrjú mörk því að það var allt annar bragur á leik liðsins en hingað til í stjóratíð David Moyes. Menn litu upp og horfðu fram á við þegar þeir fengu boltann. Menn sóttu af ákefð og umfram allt, menn sóttu með miklum hraða. Þetta skilaði árangri og Ryan Giggs var drifkrafturinn. Hann var búinn að eiga frábæra fyrirgjöf á Wayne Rooney sem skallaði í stönginna áður en hann gaf glæsilega sendingu innfyrir á Robin van Persie. Hollendingurinn tók á móti boltanum með bringunni, varnarmaður Olympiakos keyrði inn í hann. Aðeins eitt í stöðunni. Víti. Van Persie steig sjálfur á punktinn og dúndraði boltanum í netið. 1-0. 25 mínútur liðnar. Allt hægt.
Svona hélt þetta áfram. United sótti af miklum krafti og hraða og náðu að pota inn öðru marki á besta tíma, rétt undir lok fyrri hálfleiks. Ryan Giggs átti aðra draumasendingu á Wayne Rooney sem kom boltanum fyrir á Robin van Persie. 2-0. Allt hægt. Í millitíðinni hafði David de Gea haldið okkur inní þessari viðureign með fáranlegri tvöfaldri vörslu eftir fína sókn Olympiakos þar sem hver annar en Patrice Evra hafði slökkt á sjálfum sér í vörninni.
Seinni hálfleikur spilaðist aðeins öðruvísi. Í fyrri hluta hans spilaði United af sömu ákefð enda enginn áhugi fyrir því að fara í framlengingu. Það bar árangur þegar hver annar en Robin van Persie fullkomnaði þrennu sína beint úr aukaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks. 3-0. 8-liða úrslitin í sjónmáli.
Eftir þetta þriðja mark kom hið kunnulega Moyes-lið fram. Liðið bakkaði og David Moyes á hliðarlínunni hvatti þá áfram til þess. Það bauð bara upp á endurteknar sóknir frá Olympiakos og síðasti hálftíminn var ansi taugastrekkjandi fyrir United-aðdáendur. Old Trafford eins og hann leggur sig hvatti United-menn til að sækja í fjórða markið en menn sátu bara til baka og buðu Olympiakos upp á að skora. Sem betur fer er Olympiakos ekkert sérstakt lið og vörnin hjá United réði við verkefnið að þessu sinni.
Eftir fimm mínútna uppbótartíma flautaði dómarinn af og tuttugufaldir ríkjandi Englandsmeistar Manchester United eru því komnir áfram í hóp 8-bestu liða Evrópu á þessu tímabili. Ekki slæmt. Hreint ekki svo slæmt.
Hvað getum við tekið frá þessum leik? Ég vona að Moyes átti sig núna á því hvað hraði skiptir miklu máli. Þetta var ekki þessi týpíski göngubolti sem við höfum séð á tímabilinu hingað til. Menn voru ákafir, til í verkefnið og spiluðu af miklum krafti og hraða. Robin van Persie elti hvern einasta bolta og bauð sig eins og hann ætti heima í Amsterdam í staðinn fyrir að hanga í teignum eins og oft áður. Wayne Rooney var allstaðar. Antonio Valencia fékk að finna fyrir því í leiknum en hætti aldrei að reyna. Það merkilegasta var þó að Ryan Giggs spilaði eins og hann væri 25 ára á ný. Hann kom með sköpunarkraft inn á miðjuna og það er merkilegt að sjá hvað það getur breytt miklu. Fyrstu tvö mörkin urðu til vegna Ryan Giggs og þvílíkt unaðsleg tilbreyting sem það var að hafa miðjumann á miðjunni sem getur skapað færi í staðinn fyrir að gefa boltann bara áfram 2 metra á næsta mann.
Hvað þýðir þetta? Yfirleitt þegar liðið hefur hefur tekið skref fram á við hefur það tekið tvö til baka. Við skulum vona að David Moyes læri af þessum fyrsta hálfleik og fari að hvetja liðið til þess að spila með ákefð og hraða á nýjan leik. Það er eitthvað sem hefur einkennt öll meistaralið Manchester United.
Að lokum legg ég til að Robin van Persie og Ryan Giggs deili nafnbótinni maður leiksins. Þeir voru einfaldlega frábærir.
Það verður svo dregið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar á föstudaginn.