David Moyes, kallinn. Hann er augljóslega að ná tökum á starfinu. Í fyrsta lagi er hann búinn að banna fyrsta blaðamanninn sinn og í öðru lagi var hann bara að fokka í öllum þegar hann sagði að Rooney væri meiddur fyrir jólaleikina því að hann mætti beint í byrjunarliðið sem var svona:
De Gea
Rafael Evans Smalling Evra
Jones Cleverley
Valencia Rooney Januzaj
Welbeck
Bekkur: Johnstone, Giggs, Hernandez, Young, Kagawa, Buttner, Fletcher
Fjórði sigurinn í röð staðreynd og ljóst að spilamennska liðsins hefur batnað mjög mikið síðan í byrjun desember. Það er miklu meiri ákefð í leikmönnum og meiri hraði í leik liðsins. Liðið mætti mjög ákveðið til leiks og pressaði stíft á fyrstu mínútunum. Tom Cleverley, sem hefur heldur bætt leik sinn undanfarið var mjög nálægt því að skora strax á 2. mínútu.
United sótti vel í fyrri hálfleik og uppskar tvö mörk. Fyrra skoraði Danny Welbeck, sitt þriðja í jafnmörkum leikjum, eftir fína sendingu frá Wayne Rooney. Mark nr. 2 var ekki af verri endanum. United vann boltann hátt uppi á vellinum, Januzaj og Welbeck tóku léttan þríhyrning áður en að sá fyrrnefndi fíflaði varnarmann West Ham upp úr skónum og lagði hann glæsilega í markið. Frábært mark og kórónaði frammistöðu Januzaj í leiknum sem geislaði af sjálfstrausti.
Seinni hálfleikur var rólegri, United menn voru miklu meira með boltann og stýrðu leiknum frá A-Ö. Þriðja markið kom svo frá Ashley Young sem kláraði fína viku hjá sér með því að klína boltanum upp í samskeytin eftir sendingu frá Wayne Rooney. 3-0. Leik lokið.
Ekki alveg því að jólasveinninn Büttner var í góðu skapi og færði Carlton Cole eitt mark í skóinn eftir að hann spilaði hann réttstæðann um fleiri tugi metra. Cole gerði vel og klárað færið. 3-1. Leik lokið.
Þetta var skemmtilegur leikur og þetta var klassísk Old Trafford frammistaða hjá okkar mönnum. Ekkert kjaftæði og leiknum var lokið löngu áður en dómarinn flautaði hann af. Það er eitthvað sem hefur vantað uppá og ég við bara endilega um meira svona.
Liðið spilaði eiginlega 4-3-3 á köflum þar sem Wayne Rooney dró sig mjög niður á miðjuna. Það virðist vera vænlegt til árangurs og hentar t.d. Tom Cleverley afar vel að hafa tvo á miðjunni með sér. Vörnin var virkilega örugg og það er alveg morgunljóst að Moyes á að reyna að forðast það að spila Vidic og Rio mikið meira. Það virðist allt vera öruggara með Evans og Smalling saman í miðverðinum. Rio og Vidic eru farnir að draga sig svo svakalega neðarlega á völlinn að allt liðið þarf að verjast mun aftar á vellinum.
Næsti leikur er svo 26. desember gegn Hull á útivelli.