Liðið gegn Cardiff var svona, nær eins og ég spáði í gær.:
De Gea
Smalling Evans Ferdinand Evra
Valencia Cleverley Fellaini Januzaj
Rooney
Chicharito
Varamenn: Anderson, Giggs, Nani, Young, Welbeck, Büttner, Lindegaard
Leikurinn var átta mínútna gamall þegar Rooney fékk gult eftir átta mínútur fyrir pirringsbrot úti á kanti, sparkaði í mótherja sem hafði unnið af honum boltann og hefði að mínu mati átt að vera rautt. Mjög lélegt hjá Rooney en eins gott að hann var inn á því hann skoraði fyrsta markið. Valencia komst inn í sendingu, gaf inn á Hernandez sem framlengdi snyrtilega. Rooney þurfti að taka hringsnúning til að hrista af sér varnarmann og skotið fór síðan af varnarmanni og inn. Cardiff hafði byrjað aðeins betur en eftir brotið hjá Rooney tók United öll völd þangað til markið kom.
Cardiff var ekkert að gefa eftir þó og náðu að jafna á 33. mínútu. Stungusending kom upp og Frazier Campbell stakk Evans af og skoraði. Gamli United maðurinn Campbell sem var með klúbbnum frá 10 ára aldri var ekkert sérlega að fagna þessu ágæta marki. Vörnin opnaðist illa og Evans var sofandi.
Eftir þetta var eitt lið á vellinum. Miðja United var algerlega ósýnileg og Cardiff fór sínu fram eins og þeir vildu. United náði þó að skella í eina sókn undir lok hálfleiksins og horn Rooney endaði á enninu á Evra og þrumuskalli hans endaði í netinu. Verulega móti gangi leiksins og frábærlega tímasett.
United menn komu eitthvað ferskari úr hléinu, áttu nokkrar góðar sóknir, sérstaklega voru það hornin sem voru hættuleg. Campbell var hins vegar nálægt því að jafna þegar skot hans sveif yfir De Gea, virtist stefna inn en small í stönginni.
Leikurinn varð síðan verulega daufur, Cardiff voru síður en svo slakara liðið og United náði ekki tökum á leiknum og innkoma Danny Welbeck (fyrir Januzaj) og Giggs (fyrir Hernandez) breytti ekki miklu þar um. Welbeck fékk tvö hálffæri, missti boltann of langt frá sér til markmanns í annað skiptið og þurfti að teygja sig of langt í seinna skiptið og skaut yfir. Fellaini hafði verið skárri en Cleverley og bætti nokkuð í þegar Giggs kom inná til að vera fremri miðjumaðurinn.
En þetta var aldrei annað en óöruggt og á 90. mínútu fengu Cardiff aukaspyrnu úti á kanti útaf klaufalega broti Smalling. Inni í teig var mikið japl jaml og fuður, Medel sló Fellaini í andlitið og svo þegar aukaspyrnan kom fyrir sló einn leikmaður Cardiff í boltann. En dómarinn hafði víst ekki flautað og kallaði Fellaini og Medel til sín, til þess eins að veita þeim tiltal. Eftir allt þetta var aukaspyrnan endurtekin nú var það Patrice Evra sem svaf og Kim Bo-kyung sem svaf ekki og skoraði með skalla. Það er líklega þannig að þó Medel hefði fengið rautt hefði aukaspyrnan verið endurtekin… en þá með færri Cardiffi mönnum. Ekki dagur dómarans.
Það hefur oft verið merki United að skora í uppbótartíma og nú var eins og þeir vöknuðu… en árangurslaust.
Mínútu eftir markið fékk Rooney sending aleinn inn á teig og ætlaði að vera alltof flottur og gefa til baka á Welbeck en sendingin laus og léleg og markvörðurinn hirti hana. Smalling hefði svo getað skorað líka en hann skaut framhjá í þvögu inn í teig eftir aukaspyrnu Giggs. Þessar tilraunir voru til einskis og sanngjarnt jafntefli raunin.
Þessi leikur endurspeglar að mörgu leyti tímabilið. United skoraði tvö mörk með harðfylgi, náði engan veginn tökum á leiknum og var refsað. Lykilatriðið í þessu hlýtur að vera að miðjan hjá United er gagnslaus. Við höfum lengi vitað að þetta samsafn miðjumanna hjá okkur er ekki það besta. Cleverley virðist ekki ætla að taka skrefin upp sem alveg hefði mátt gera ráð fyrir miðað við frammistöðu hans fyrir tveim árum. Fellaini lætur enn bíða eftir sér (og eins og ég sagði í upphituninni í gær, verður ekkert sparkað á næstunni), Giggs er of gamall fyrir aðalhlutverk og Anderson er Anderson. Næstu tveir deildarleikir verða gegn Tottenham sem verða grimmir eftir skelfilega útreið gegn City í dag og svo Everton. Miðað við leikinn í dag gætu þeir reynst erfiðir.
En fyrst er það Leverkusen á miðvikudag