De Gea
Smalling Ferdinand Vidic Evra
Fellaini Giggs
Valencia Rooney Kagawa
Chicharito
Bekkurinn: Lindegaard, Jones, Anderson, Nani, Young, RvP, Buttner.
Það eina sem kom á óvart varðandi þetta byrjunarlið var að Robin van Persie var á bekknum. Hitt var nokkurn veginn samkvæmt bókinni.
Fyrri hálfleikur var nokkuð rólegur. United voru meira með boltann og klárlega betri aðilinn en voru ekki að skapa sér mikið af færum, enda átti liðið aðeins 2 skot að marki í öllum hálfleiknum. Eins og endranær reyndi liðið að komast upp kantana, sérstaklega vinstra megin. Smalling kom sér oft í ágæta stöðu á kantinum með góðum hlaupum en sýndi afhverju hann á ekki að vera í hægri bakvarðarstöðunni þar sem fyrirgjafir hans og sendingar voru frekar lélegar. Það vantaði meiri kraft og áræðni í leik United.
Real Sociedad byrjaði af meiri krafti í seinni hálfleik og ógnaði meira en í fyrri hálfleik. Það var þó United sem átti að taka forystuna á 49. mínútu þegar Chicharito negldi boltanum yfir af um tveggja metra færi eftir góðan undirbúning Kagawa. Ég held að hann hafi aldrei klúðrað viðlíka færi á ferli sínum hjá United. Þetta var fyrsta hættulega færið sem United skapaði sér í öllum leiknum.
Fyrir utan þetta færi spilaðist leikurinn eins og í fyrri hálfleik þangað til að Robin van Persie og Ashley Young komu inná fyrir Chicharito og Rooney á 62. mínútu. Kagawa færði sig í sína uppáhaldsstöðu fyrir aftan framherjann og um leið fóru fóru hlutirnir að gerast. Robin van Persie átti fínt skot í stöngina og annað skot rétt framhjá skömmu eftir það. Við þessa skiptingu opnaðist svo leikurinn aðeins. Kannski áttuðu Real Sociedad menn sig á að ef þeir töpuðu þessum leik væri þetta Meistaradeildar-ævintýri þeirra lokið. Kagawa var einnig meira í boltanum á miðjunni og það skapaði örlítið meiri usla en áður í leiknum.
Á 70. mínútu fengum svo víti þegar brotið var á Ashley Young. Þetta var frekar ódýrt víti enda datt Ashley Young eftir litla snertingu frá varnarmanni Real Sociedad. Robin van Persie fór á punktinn og hamraði boltanum í stöngina. Staðan því ennþá 0-0.
Eftir vítið gerðist fátt markvert, nema hvað að Fellaini fékk seinna gula spjaldið undir lok leiksins fyrir algjört óþarfa brot. Klaufalegt en samt alveg í anda frammistöðu United í þessum leik.
0-0 var því niðurstaðan í frekar slöppum leik. Ágætis stig svosem en svekkjandi engu að síður þar sem United fékk nógu góð færi til að klára þennan leik. 3 stig hefðu verið einkar vel þegin hér sérstaklega þar sem Shakhtar og Leverkusen gerðu 0-0 jafntefli í hinum leik riðilsins. Gríðarlega spennandi kvöld í A-riðlinum í kvöld semsagt.
Við getum þó endanlega tryggt okkur áfram með sigri á Leverkusen í næsta leik sem fer fram 27. nóvember í Þýskalandi.
Nokkuð erfitt að velja mann leiksins þar sem fáir sköruðu eitthvað framúr. Vörnin var fín og De Gea stóð fyrir sínu í markinu. Kagawa var sprækasti leikmaðurinn og var alltaf að reyna þó að það gengi ekki alveg upp hjá okkar mönnum. Hann skapaði dauðafærið hjá Chicharito og var miðpunkturinn í því litla sem liðið skapaði í öllum leiknum. Hann fær því nafnbótina maður leiksins í kvöld.
Næst er það svo gríðarlega mikilvægur leikur gegn Arsenal á sunnudaginn.