Liðið sem hóf leik á sunnudaginn fékk tækifærið til að reka af sér slyðruorðið, Ten Hag stillti upp óbreyttu liðði
Varamenn: Butland, Heaton, Lindelöf, Maguire, Malacia (65′), Wan-Bissaka (45′), Mainoo, McTominay (82′), Pellistri (82′), Elanga, Garnacho, Sancho (65′)
Lið Betis
Wout Weghorst setti boltann í netið með kassanum strax á fjórðu mínútu en Fred var rangstæður þegar hann fékk boltann áður enn hann gaf á Wout. Þetta kom þó ekki að sök því það var tveimur mínútum síðar að United kom í hraða skyndisókn eftir að Betis hafði ógnað en misst boltann. Bruno var með boltann hægra meginn, gaf inn á teiginn, Felipe kom tá í boltann og féll við, boltinn fór beint á Rashford sem fór létt framhjá Felipe og þrumaði yfir Bravo í markinu.
1-0 strax á sjöttu mínútu.
United stóð svo af sér áhlaup Betis og tók svo aftur á leiknum. Weghorst átti ágætt færi, skot framhjá og við endursýningu sást að boltin sleikti varnarmann, og rétt síðar kom Bravo vel út og bjargaði þegar Rashford komst inn í slæma sendingu varnarmanns.
United voru almennt betri og ógnuðu í öllum sóknum en Betis varðist vel. Sóknir Betis voru færri og ekki sérlega beittar. Engu að síður náðu þeir að refsa United þegar Ajoze Perez fékk boltann aleinn utarlega í teig, tók skotið og í fjær stöng og inn. Slök dekkning þar og alger óþarfi. Jafnt eftir rétt rúman hálftíma.
Leikurinn var í svipuðum gír, United betri, Betis sótti samt, og undir lok hálfleiks var Betis næstum búið að skora, De Gea gaf boltann beint út á Juanmi, sending inn á Perez sem skaut í Fernandes sem kom á skriðtæklingu, boltinn í boga framhjá De Gea og í stöngina út. Þar slapp De Gea vel, búinn að vera skelfilegur að gefa boltann í leiknum.
Í hálfleik kom Wan-Bissaka inn á fyrir Dalot og United sótti að mestu og eftir sex mínútur kom markið. United sótti upp, Fernandes tók snúning og gaf út á Antony sem gerði hvað? Jú setti boltann yfir á vinstri, sveiflaði fætinum og boltinn snerist í markið fjær. Einhvers staðar í Hollandi situr Arjen Robben og hugsar um það hvort ekki mætti sækja um höfundarlaun.
Pellegrini var um það bil að taka tvöfalda skiptingu en fyrst tók United horn. Luke Shaw sveiflaði boltanum rétt yfir fremsta mann og Bruno kom alveg óvaldaður og skallaði inn. 3-1 og ekki átta mínútur liðnar af seinni hálfleik.
Áfram hélt þetta, frábær sending Bruno inn á Antony sem hefði bara þurft að renna boltanum til hliðar á samherja en reyndi sjálfur að vippa yfir Bravo og boltinn fór yfir. Erfitt fyrir senter að sleppa svona tækifæri en verður að kalla þetta mistök.
Rashford og Sancho fengu svo hvíld, skynsamlegt, en United réði nú lögum og lofum. Wout Weghorst var sem fyrr alveg lánlaus, þegar Felipe átti misheppnaða hreinsun komst Weghorst í boltann en Felipe komst fyrir skotið og það endaði í höndunum á Bravo. Rétt á eftir rann Carvalho til, Weghorst hirti boltann, gaf innfyrir á Antony sem var aðeins of fljótur á sér og skotið ekki nógu gott og Bravo varði vel.
Svo voru það Pellistri og McTominay sem komu inná fyrir Antony og Fred og þeir létu strax að sér kveða. United átti horn og Pellistri fékk boltann og snéri af sér tvo varnarmenn og fór upp að endamörkum, gaf út í teiginn, McTominay skaut, Bravo varði og loksins loksins skoraði Wout Weghorst á Old Trafford. Prýðileg afgreiðsla.
United hefði jafnvel getað bætt við, Betis var alveg heillum horfið eins og liðið hafði verið allan seinni hálfleikinn en 4-1 voru lokatölur og seinni leikurinn næstum formsatriði.