Manchester Utd og Wigan mættust í dag í leiknum um Samfélagsskjöldinn (Góðgerðaskjöldurinn hét hann þegar ég byrjaði að fylgjast með fyrir alvöru). Þessi leikur var ekki og mun ekki verða einn af þeim spennandi sem United hefur leikið. Það var nokkuð ljóst að töluverður gæðamunur er á þessum liðum frá byrjun. Augljóst að Wigan án Roberto Martínez mun ekki spila mest sexí boltann í Championshipdeildinni. Það tók ekki nema 6 mínútur fyrir okkar menn að skora fyrra markið og þar var á ferðinni efnilegur hollenskur framherji sem heitir Robin van Persie eftir stoðsendingu frá Patrice Evra. Staðan 1:0 í hálfleik.
Rafael fór útaf meiddur í hálfleik og í hans stað kom Chris Smalling sem fór í miðvörðinn og Phil Jones tók bakvarðarstöðuna. Robin van Persie skoraði svo annað mark sitt og leiksins á 59.mínútu eftir smávægilega hjálp frá varnarmanni Wigan. Meira var ekki skorað í þessum leik en United sótti þó talsvert en tókst ekki að bæta við mörkum, 2:0 sigur því staðreynd.
Þó að leikurinn hafi ekki verið kynþokkafyllsti knattspyrnuleikur sögunnar þá var þessi sigur gríðarlega mikilvægur fyrir Moyes og líka með þessum yfirburðum. Man ekki eftir jafn fáránlegri og allt að því heimskulegri gagnrýni á æfingaleiki sem skipta akkúrat engu máli og þessi maður hefur þurft að þola. Tímabilið var bara búið áður en það byrjaði. Sir Alex sagði að verkefni okkar allra sem styðjum þetta stærsta lið í heimi væri að styðja knattspyrnustjórann. Allir klöppuðu fyrir því en efndirnar voru ekki meira en þetta. Þetta mun verða erfitt tímabil, Chelsea og City hafa styrkt sig og munu gera atlögu að titlinum. En við erum Man Utd og eins og einn frægasti stuðningsmannasöngurinn segir: „We’ll Never Die.“
Menn leiksins: Michael Carrick og Robin van Persie
Byrjunarliðið:
De Gea
Rafael Jones Vidic Evra
Zaha Cleverley Carrick Giggs
Welbeck van Persie
Bekkurinn: Lindegaard. Evans. Anderson. Smalling. Valencia. Kagawa. Januzaj
Wigan: Carson, Boyce, Barnett, Perch, Crainey, Watson, McArthur, McCarthy, McClean, Holt, Maloney