Darren Fletcher er búinn að fara í þriðju aðgerðina á skömmum tíma við sáraristilbólgunni sem hrjáir hann. Að aðgerðirnar væru þrjár var samkvæmt áætlun, og nú mun endanlega koma í ljós hvort Fletcher getur snúið til baka sem atvinnuknattspyrnumaður.
Íþróttadagblaðið Sport í Barcelona sló því upp á forsíðu að Thiago væri búinn að semja til fimm ára við United og þetta yrði tilkynnt í vikunni. Ekkert nýtt svo sem þar, en ætli sé ekki óhætt að gera ráð fyrir að samningar séu á því stigi að flestir sem skipti máli vilji að þetta gerist. Ekki er samt sopið kálið þau í ausuna sé komið og enn getur þetta farið gjörsamlega út um þúfur, enda væri það ekki í fyrsta skipti í leikmannasölum sem slíkt gerðist.
Eftir mjög svo skemmtilegan uppslátt eins götublaðsins í Englandi um síðustu helgi að United væri að fylgjast með stöðunni hjá Messi eftir að Neymar gekk til liðs við Barcelona er kominn annar nær skondinn orðrómur á kreik. Skv. gersamlega óstaðfestum heimildum af Twitter á Daniel Levy, formaður Tottenham að vera að íhuga tillögu United um að Wayne Rooney verði skiptimynt í kaupum United á Gareth Bale. Ég get ekki sagt að ég væri afhuga slíku, en milligjöfin mætti ekki vera of mikil.
Í örlítið-en-ekki-mjög-svo-líklegri slúðurdeildinni á United að þiggja 25m evra, 21,5m pund plús David Villa frá Barcelona fyrir Wayne Rooney. Villa er nú helst til gamall fyrir svona held ég.
Fyrir þau sem furða sig á að slúður um Rooney hafi ekki hætt þegar Moyes lýsti því yfir að hann væri ekki til sölu, er skýringin einföld: Moyes kom sér alfarið framhjá því að svara hvort Rooney sjálfur vildi vera áfram hjá United.
Orðið er laust.