Spennan er farinn að aukast. Enn eru sex stig í það að Manchester United tryggi sér Englandsmeistaratitilinn og á morgun kemur Aston Villa í heimsókn á Old Trafford og United ef allt væri með felldu ætti United að ná þar helmingnum af þeim stigum sem þarf.
En okkar menn hafa ekki beinlínis verið sannfærandi upp á síðkastið. Það er engin ástæða til að örvænta um niðurstöðuna í lok tímabilsins, en það er ekki hægt að segja að United sé að storma í átt að titlinum. Það er afskaplega þreytt að draga það upp að lliðið hefur ekki verið samt við sig frá Real Madrid leiknum, en sú er engu að síður raunin. Það er hægt að grafa upp nokkrar ástæður fyrir því. Robin van Persie hefur dregið verulega úr markaskorun, Rooney hefur ekki verið svipur hjá sjón síðustu vikur og miðjan okkar er síður en svo stabíl og auðveljanleg. Hver svo sem ástæðan er þá hafa varla valist tveir ‘venjulegir’ miðjumenn saman í miðjunni nýlega. Giggs spilaði þar á móti City, Rooney á móti Stoke og Jones á móti West Ham. Cleverley og Anderson hafa ekki sést í síðan móti Chelsea í bikarnum (Cleverly) og Sunderland (Anderson) um síðustu mánaðamót. Kantvandræðin halda áfram, Nani hefur verið meiddur allt tímabilið meira eða minna og ekkert náð sér á strik og núna er Young meiddur út tímabilið. Semsagt, allt við það sama þar fyrir leikinn á morgun.
Stillum samt upp liði
De Gea
Rafael Evans Jones Evra
Valencia Cleverley Carrick Welbeck
Kagawa
Van Persie
Smalling er eini í skammtímameiðslum, og ég gafst bara upp á að giska á hvor þeirra Rio eða Vidic myndi verða notaður 5 dögum eftir síðasta leik sem er í það fyrsta fyrir þá báða (Vidic þó líklegri).
Vona hreinlega að Cleverley fái sénsinn, og miðað við frammistöðu í síðasta leik þá er það engin spurning að Kagawa eigi líka að fá að spila. Sir Alex enda búinn að viðurkenna að það hafi verið mistök að taka hann útaf á miðvikudaginn. Hvað þetta segir um stöðu Rooney hjá klúbbnum skulum við láta götublöðin um í þetta skiptið
Leikmaður ársins valinn af leikmönnum
Á föstudaginn var tilkynnt um sex efstu menn í kjöri leikmanna á leikmanni ársins. Nei, þetta eru EKKI tilnefningar. Tilnefning myndi þýða að einhver klíka hefði valið sex leikmenn, sem svo væri kosið um, en það er alls ekki raunin, þetta eru einfaldlega sex efstu menn.
Michael Carrick og Robin van Persie voru báðir meðal sex efstu en líklegt verður að Gareth Bale hirði þetta.
Í flokki ungra leikmanna var Danny Welbeck meðal sex efstu sem kemur ýmsum á óvart, en er góð viðurkenning fyrir óeigingjarnan leik á tímabilinu þar sem hann hefur nær aldrei fengið að spila sína réttu stöðu.
Mótherjarnir á morgun: Aston Villa

Villa er búið að vera í tómu tjóni þetta tímabil og er nú einu sæti og þrem stigum frá fallsæti. Að þeir skuli ekki vera neðar er einum manni að þakka
Benteke er búinn að skora 15 mörk í 30 leikjum í deildinni í vetur, vel af sér vikið hjá liði í blússandi fallbaráttu. Villa hefur unnið þrjá af síðustu 5 leikjum, en þeir sigrar voru á móti fallbaráttukandídötunum QPR og Reading, og slöku liði Stoke. Þannig verðum við að segja að ef að United getur haldið Benteke niðri þá er langmesta hættan farin. Nema Andreas Weimann taki upp á að skora á móti okkur, eins og hann gerði tvisvar í fyrri leiknum. Þá náðum við að breyta stöðunni úr 0-2 í 3-2 í seinni hálfleik. Eins og liðið er að spila núna tel ég afskaplega ólíklegt að við myndum að ná eins góðum árangri eftir að lenda undir núna eins og við vorum reglulega að gera þá. Á móti kemur að Aston Villa hefur ekki haldið hreinu síðan 8. desember þannig að við hljótum að reikna með að United setji eins og tvö mörk. Spái því 2-0 sigri.
Önnur mál
Eitthvað annað lið sem kennir sig við Manchester á leik núna klukkan hálf eitt við Tottenham. Ég geri ekki ráð fyrir að úrslitin í þeim leik hafi nokkur áhrif á hvað United þarf að gera til að vinna titilinn. [UPPFÆRT]: Framangreint flokkast nú undir sem Besta ‘Reverse-jinx’ alla tíma. Tottenham vann 3-1. Sigur á morgun tryggir titilinn!