Maggi, Hrólfur, Bjössi og Ragnar settust niður og fóru yfir febrúarmánuð þar sem aðaláherslan var á leikina gegn Barcelona og deildarbikarsigurinn gegn Newcastle.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 109. þáttur
Magnús Þór skrifaði þann | 1 ummæli
Maggi, Hrólfur, Bjössi og Ragnar settust niður og fóru yfir febrúarmánuð þar sem aðaláherslan var á leikina gegn Barcelona og deildarbikarsigurinn gegn Newcastle.
Rauðu djöflarnir á:
Apple Podcasts
Spotify
MP3 skrá: 109. þáttur
Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann | 4 ummæli
Erik ten Hag mætti brosmildur en ákveðinn á Wembley í kvöld og stillti upp sínu sterkasta liði enda mikið í húfi. Sem betur fer sást Rashford á leikskýrslunni en liðið leit svona út:
Á bekknum voru þeir Heaton, Lindelöf, Maguire (’88), Wan–Bissaka (’46), Malacia, McTominay (’69), Sabitzer (’69), Garnacho og Sancho (’82).
Eddie Howe mætti ekki síður ákveðinn til leiks og fyrir utan Nick Pope sem var í banni stillti hann sínu sterkasta liði upp í von um að tryggja Newcastle fyrsta titil sinn í hálfa öld (fyrir utan það að vinna Championship deildina):
Á bekknum voru Gillespie, Lascelles, Ritchie, Targett, Isak (’46), Manquillo, Murphy (’79), Willock (’79) og Anderson.
Leikurinn fór vel af stað og var frekar kaótískur til að byrja með. Bæði lið skiptust á að missa boltann og virtist skjálfti í mönnum. Það rjátlaðist fljótlega af mönnum og við tók æsispennandi hálfleikur. Það kom í hlut Wout Weghorst að fá fyrsta færi leiksins þegar hann stóð rétt aftan við vítateigspunktinn og fékk boltann á lofti en það sem hann gerir sjálfsagt betur en nokkur annar leikmaður liðsins er að gera sig stóran og halda boltanum. Honum tókst með nokkrum snertingum að ná skoti með vinstri fæti á markið en boltinn skoppaði í grasinu og reyndist skotið hvorki hnitmiðað né fast og Loris Karius ekki í nokkrum vanda með að grípa hann.
Á 15. mínútu komst Diogo Dalot upp allan hægri kantinn með boltann, alveg upp að endalínu og átti hættulega fyrirgjöf út í teiginn en einhvern veginn virtist engum rauðklæddum detta í hug að ráðast á það svæði og Newcastle náðu að hreina frá. Næst átti Antony færi einungis fáeinum mínútum síðar en hann fékk boltann við vítateigshornið, lagði boltann pent fyrir sig og hamraði á markið en beint í fangið á Karius sem varla þurfti að hreyfa sig.
En Newcastle voru einnig hættulegir og jafnvel meira með boltann en United á stórum köflum í fyrri hálfleiknum. Þeir skiptust á að sækja á Allan Saint-Maximin og Trippier og Almirón á hinum helmingnum. Dalot fékk gult spjald snemma leiks og var augljós að Saint-Maximin ætlaði að keyra duglega á Portúgalann. Leikurinn stöðvaðist svo um stund þegar Lisandro Martinez og Fabian Schar skullu saman eftir fyrirgjöf frá hægri kantinum.
Næsta færi Newcastle kom þegar Trippier átti fínan samleik við Longstaff sem endaði með hættulegri fyrirgjöf eftir grasinu en boltinn endaði hinu megin á vellinum hjá Saint-Maximin sem fíflaði Dalot upp úr skónum og átti fast skot á nærstöngina en David de Gea var vel vakandi og bjargaði í horn. Þá loksins dróg til tíðinda þegar Rashford fékk boltann á vinstri vængnum og ætlaði að keyra á Trippier en Longstaff kom eins og eimreið og keyrði hann niður og aukaspyrna dæmd. Rétt einsog svo oft áður stóðu þeir Bruno og Luke Shaw yfir boltanum en Englendingurinn tók spyrnuna sem var fullkomin frá a-ö rétt eins og hlaupið frá Casemiro sem reis manna hæst og stangaði boltann í fjærhornið framhjá Karius í markinu. 1-0 og andrúmsloftið á vellinum varð yfirþyrmandi.
Newcastle-menn blésu til sóknar í kjölfarið oog juku sóknarþungann jafnt og þétt. En aftur refsuðu okkar menn því stuttu síðar átti de Gea útspark sem eftir smá darraðadans endaði hjá Rashford sem flikkaði boltanum pent með fætinum á Weghorst sem tók á rás. Hollenski skriðdrekinn stefndi að vítateignum en Rashford stakk sér inn fyrir vörnina, fékk sendinguna og skaut út þröngu færi. Boltinn hrökk af fætinum af Sven Botman og tók fallegan sveig yfir Karius í markinu og endaði í netmöskvanum. 2-0 fyrir United en markið síðar skráð sem sjálfsmark þótt boltinn virðist hafa verið að stefna á markið.
En Newcastle létu ekki deigan síga og fengu til að mynda ágætisfæri þegar Trippier átti hornspyrnu sem rataði á skallann á Dan Burn sem stýrði boltanum framhjá markinu. Mótherjarnir héldu áfram að banka og banka á dyrnar en enginn svaraði. Rétt undir lok fyrri hálfleiks átti Weghorst svo ágæitsfæri eftir að Antony leysti vel pressu mótherjanna á hægri kantinum og fann Weghorst í lappirnar. Sá brunaði í átt að markinu með varnarmann á hælunum sem fljótlega náði honum. Hollendingurinn skoðaði hvað var í kringum sig en ákvað svo að skjóta frá vítateigshorninu en Karius átti sjónvarpsvörslu og bjargaði í horn.
Antony var svo aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann fíflaði Burn á kantinum aftur og aftur þar til Joelinton kom og keyrði hann útaf vellinum en endaði á því að brjóta á Casemiro og næla sér í gult spjald. Þetta var það síðasta sem gerðist fyrir hálfleik.
Erik ten Hag gerði breytingar í hálfleik, Aaron wan-Bissaka kom inn á fyrir Dalot sem var á gulu spjaldi og augljóst að þeir svarthvítu voru að leita mikið að Saint-Maximin til að keyra á hann. Eddie Howe gerði líka breytingu og setti Alexander Isak inn fyrir Sean Longstaff og fór í 4-4-2.
Strax eftir um 30 sekúndna leik fékk United gott tækifæri. Rashford brunaði þá upp kantinn og renndi boltanum fyrir vítateigsbogann þar sem Fred kom valhoppandi og tók innanfótar skot en lang framhjá markinu. Antony átti líka skot örskammri stund síðar en það var nánast eins og afritað af færinu í fyrri hálfleik, skot fyrir utan og beint í fangið á Karius. Hinu megin á vellinum komst Saint-Maximin enn og aftur á auðan sjó og virtist alltaf líklegur til að láta hlutina gerast en lítið sem ekkert kom út úr því sem hann reyndi. Varnarmenn United höfðu mjög góðar gætur á honum allan leikinn og það hélst allar 95 mínúturnar.
Það hættulegasta sem skapaðist frá Frakkanum voru hornspyrnurnar en á þessum fyrstu 20 mínútum í síðari hálfleik átti United mjög erfitt með að losa pressuna og þó þeir hafi ekki verið í nauðvörn þá komust þeir lítið fram á völlinn. Mesta hættan fyrir framan mark United fram til þessa skapaðist eftir rúmlega klukkustundarleik þegar David de Gea kom út og kýldi fyrirgjöf út fyrir teiginn en aftur barst boltinn inn í teiginn. Þar fengu Newcastle tvö góð skotfæri en bæði skotin hrukku af varnarmönnum áður en þau komust að de Gea.
Á 69. mínútu gerði ten Hag fleiri breytingar, Marcel Sabitzer og Scott McTominay komu þá báðir inn fyrir Weghorst og Fred. Rashford virtist færast þá upp á toppinn. Skömmu síðar skapaðist hætta við mark United þegar Guimaraes átti stórgóða sendingu inn fyrir vörn United og Trippier náði til boltans og kom með lága fyrirgjöf en de Gea skaust eins og köttur úr markinu og sló boltann út í teig. Hins vegar var Trippier flaggaður rangur en það virtist mjög tæpur dómur og því mikilvægt varsla hjá spænska kettinum þó hún telji ekki inn í tölfræðina.
Loksins tókst United að fikra sig framar á völlinn og þegar Newcastle snéri vörn í sókn tókst Sabitzer að vinna boltann á miðjum vellinum og stakk boltanum inn fyrir á Rashford á fleygiferð í átt að markinu. Karius þurfti að hafa sig allan við að verja og gerði það meistaralega og bjargaði í horn. Á 77. mínútu komu svo þeim Joe Willock og Jacob Murphy inn fyrir Saint-Maximin og Guimaraes en á þessum tíma voru United menn dottnir mjög aftarlega og voru að reyna halda fengnum hlut. Newcastle fékk urmul af færum og hornspyrnum en náðu ekki að nýta sér þær en United hins vegar skapaði sér oft hættuleg færi einmitt eftir hornspyrnur Newcastle þar sem þeir neyddust til að ýta mörgum leikmönnum ofar á völlinn og taka áhættu.
Bruno komst á skrið eftir eina slíka með Rashford sér við hlið gegn einum varnarmanni og hefði sjálfsagt átt að nýta færið betur því þegar hann komst inn í vítateiginn ákvað hann að senda boltann yfir á Rashford en boltinn hafði viðkomu í varnarmanninum og beint til Karius. Sancho kom þá inn fyrir Antony þegar um átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Varamaðurinn Jacob Murpphy átti næsta færi þegar hann setti bylmingsskot með utanfótarsnúning rétt framhjá markinu og United stálheppnir að snúingurinn á tuðrunni var of mikill því boltinn virtist vera stefna í bláhornið og de Gea var steinrunninn á marklínunni. Næsta hættulega færið kom þegar Newcastle fengu aukaspyrnu á vinstri kantinum og úr henni kom ágætis fyrirgjöf sem rataði á pönnuna á Joelinton sem oft hefur átt betri leik. En skalli hans var ekki fastur en þó stefndi hann í sveig upp í vinkilinn á fjærstönginni. En enn og aftur kom spænski kötturinn okkur til bjargar og stökk á boltann eins og hann væri girnilegasti hnykill sem nokkur hefur séð og blakaði honum frá markinu.
Loks fengu United aðra skyndisókn þegar Bruno, McTominay og Sabitzer voru komnir þrír á einn varnarmann en Bruno dundaði sér of lengi við að koma boltanum fyrir sig og Karius tókst að loka vel á hann og verja í horn. Leikurinn fjaraði svo út og United héldu áfram að vera þéttir og sigldu sigrinum þægilega í höfn.
Loksins skilar Manchester United titli í hús eftir tæplega sex mögur ár þar sem liðið hefur ýmis glímt við undanúrslitagríluna eða þá misst leikinn frá sér í úrslitunum sjálfum. Það að vera eina liðið sem er enn í öllum keppnum hefði ekki haft mikla merkingu lengur ef þessi leikur hefði tapast. Núna geta bjartsýnir og óraunsæir stuðningsmenn talað um fernuna áfram en staðreyndin er sú að við erum áfram í öllum keppnum og eigum tölfræðilegan möguleika á að gera nokkuð hreint út sagt magnað. Erik ten Hag neitaði því í viðtali á dögunum að vera hlynntur opinberum fagnaðarlátum ef liðið myndi einungis vinna deildarbikarinn en það mætti skoða það ef liðið myndi vinna tvo titla af þessum fjórum sem í boði eru.
Hins vegar er ljóst að það er mun öflugra fyrir sjálfstraust liðsins og allra sem koma að því að hafa klárað þessa keppni með sigri. Undanfarnar vikur hefur það verið á allra vörum að eitthvað áhugavert er að gerjast hjá United og kvöldið í kvöld hefur undirstrikað það. Liðið hefur öðlast baráttuanda og sjálfstrú sem hefur ekki sést síðan liðið vann síðast deildina og það að vera búnir að gera þetta lið að sigurvegurum á hálfu ári er ekkert minna en kraftaverk. Ten Hag og hans teymi hefur tekið liðsandann í klefanum upp í nýjar hæðir og framtíðin virðist gríðarlega björt fyrir þetta lið með hann við stýrið.
Eflaust hafa fleiri stuðningsmenn setið sveittir í stresskasti fyrir leikinn en áhrif Hollendingsins á leik United hefur gert það að verkum að eftir að mörkin tvö voru komin virtist allt stress fjara út eða svo til þar sem liðið skellti í algjöran lás. Casemiro og Fred hlífðu vörninni eins og við værum að spila með 7 varnarsinnaða miðjumenn og Newcastle tókst ekki að skapa nein færi í síðari hálfleik sem virkilega fengu hjartað til að slá hraðar. Newcastle voru miklu meira með boltann en þrátt fyrir að liðin hefðu átt jafnmörg skot (14) þá rötuðu einungis tvö þeirra á rammann hjá United á meðan níu þeirra fóru á rammann hinu megin.
Maður leiksins var án efa Casemiro, þvílíkur heimsklassa leikmaður sem hann er sama hvað Graeme Souness tautar og raular. Burtséð frá markinu sem hann skoraði þá leysir hann hlutverk sitt af svo mikilli yfirvegun að það færist stóísk ró yfir alla sem eru fyrir aftan hann á vellinum. Miðvarðarparið okkar, Varane og Martinez voru líka eins og þrepaskipt víggirðing fyrir framan vítateiginn og hleyptu hart nær engum boltum framhjá sér og eiga stór hrós skilið fyrir frammistöðu sína rétt eins og oftast.
En liðið spilaði frábærlega og var sigurinn aldrei í raunverulegri hættu að því manni fannst. United hefur núna einungis tapað tveimur af síðasta 31 leik í öllum keppnum og það er hreint út sagt magnað í ljósi þess að ekkert annað lið í toppdeildum Evrópu er að spila jafn þétt og United um þessar mundir. Næsti leikur er núna á miðvikudaginn 1. mars en þá mætir David Moyes á Old Trafford með West Ham í bikarnum og ekkert annað á teningnum en sigur þar til að komast í 8-liða úrslitin. En hvernig sem svo sá leikur fer þá fáum við a.m.k að njóta í bili!
Friðrik Már Ævarsson skrifaði þann | 4 ummæli
Þá er stundin runnin upp því það er komið að stærsta leik United á leiktíðinni til þessa. Bikarúrslitaleikurinn gegn Newcastle United í deildarbikarnum – Carabao Cup og verður þetta fyrsti úrslitaleikur United frá því liðið mætti Villareal fyrir tæpum tveimur árum síðan og tapaði á grátlegan hátt í vítaspyrnukeppni.
2013 dagar eru hins vegar liðnir frá því United vann síðast úrslitaleik en það gerðist síðast þegar José Mourinho stýrði liðinu til sigur gegn Ajax í úrslitum Evrópudeildarinnar 2017. Af núverandi leikmannahóp United sem voru í hópnum fyrir þann úrslitaleik eru einungis Anthony Martial, Marcus Rashford og De Gea sem eftir standa en Rashford var sá eini sem byrjaði þann leik. Það er því svo sannarlega kominn tími á að skila málmi í hús fyrir hópinn okkar í dag og þó margir í núverandi hóp United hafi gert það annars staðar þá skiptir það okkur litlu sem engu máli því eins og Casemiro sagði í viðtali á dögunum þá kom hann hingað til að vinna fleiri titla.
En það er enn lengra frá því mótherjar okkar frá Newcastle fengu að upplifa úrslitaleik því það gerðu þeir síðast þegar þeir mætti þrennuliði Sir Alex Ferguson fyrir 24 árum síðan. Vissulega hefur margt vatn runnið til sjávar síðan en bæði þessi lið hafa verið á flugi að undanförnu á leiktíðinni og eru sem stendur í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti í deildinni. United mætir til leiks eftir sögulegt einvígi við Barcelona sem lauk með 2-1 sigri á Old Trafford og 4-3 í heildina en Newcastle hafa haft rúma viku til undirbúnings. Vonandi verður þó ekki þreyta í fótum leikmanna því það stefnir svo sannarlega í skemmtilegan baráttuleik milli tveggja af mest spennandi liðum Englands um þessar mundir!
United hefur unnið þennan bikar í fimm skipti, árin 1992, 2006, 2009, 2010 og 2017 en einungis Man City og Liverpool státa af betri árangri í deildarbikarnum. Þá hefur United hafnað í öðru sæti í fjórgang, síðast 2004 þegar United tapaði 2-0 í úrslitaleiknum gegn Liverpool en maður leiksins var engu að síður Dudek í rammanum á móti okkur.
Newcastle aftur á móti hefur ekki unnið þennan bikar áður en hafa í eitt skipti komist inn í úrslitaleikinn en töpuðu þá gegn Man City árið 1976. Þeir státa af reyndar af ágætis árangri í hinni bikarkeppninni, en þeir hafa unnið hana sex sinnum en síðasti sigur þeirra kom 1955. Þeir hafa hins vegar þrettán sinnum komið við sögu í úrslitaleik bikarsins nú síðast 1999. Þá hafa þeir unnið Championship-deildina 1993, 2010 og 2017 en þeirra stærstu afrek felast líklega í því að lenda í tvígang í öðru sæti í Úrvalsdeildinni (1996 og 1997) og fyrrnefndum bikarsigrum.
Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, á skilið rækilegt hrós fyrir þá þróun sem hefur átt sér stað í herbúðum þeirra svarthvítu á undanförnum mánuðum. Eddie Howe tók við liðinu þegar það sat í 19. sæti deildarinnar, fimm stigum frá öruggu sæti og án sigurs í síðustu 11 deildarleikjum. Hreint út sagt algjörar brunarústir og ekki nóg með það heldur greindist Howe með covid-19 sama dag og hann mætti til starfa. En með undraverðum hætti tókst honum að taka liðið sem vann einn af fyrstu tuttugu leikjunum í deildinni og bjarga þeim þægilega frá falli. Það gerði hann með því að vinna tólf af síðustu átján leikjunum, þar á meðal leik gegn Arsenal í næst síðustu umferðinni sem hafði gífurlega mikil áhrif á endanlega stöðu liða í Evrópubaráttunni.
En hvernig fór Howe að þessu?
Það þarf kannski ekki að taka það fram en Newcastle gekk í gegnum eigendaskipti þann 7. október 2021 þegar Mike Ashley seldi liðið til núverandi eigenda fyrir 305 millj. punda. Kaupendurnir reyndust moldríkir aðilar frá Sádí-Arabíu, sem voru með mun háleitari hugmyndir um þróun liðsins en fyrrum eigandi. Ashley hafði svelt Newcastle United og eytt sáralitlu í leikmannakaup sem gerði nýjum eigendum auðvelt um vik varðandi FFP (finacial fair play) og því gátu þeir opnað veskið um leið. Hingað til hafa þeir eytt um 250-260 millj. punda í leikmannakaup ef mér skjátlast ekki.
Það hafa margir velt því fyrir sér hver ástæðan er bakvið þessi kaup á Newcastle og hver tilgangur Saudi-Arabia Public Investment Fund (PIF) sé og það er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að United stendur frammi fyrir mögulegum eigendaskiptum miðað við nýjustu fréttir. Margir vilja meina að þetta sé leið til að blása ryki í augu fótboltaáhugamanna varðandi mannréttindabrot og aðra misgóða hluti sem Sádí-Arabía hefur verið gagnrýnt fyrir en talsmenn eigendanna halda því fram að þetta sé góð fjárfesting og sjá mikinn hag í því að gera Newcastle aftur að stórveldi í enskum fótbolta.
En hvort sem tilgangurinn sé til að bæta ímynd og orðspor lands sem áður hefur verið þekkt fyrir mannréttindabrot og fleira eða til að hagnast seinna meira þá er mun málefnalegra að einbeita sér að fótboltahliðinni um sinn.
Það fyrsta sem Howe lagði upp með þegar hann kom inn var að styrkja vörn liðsins, Kieran Trippier, nýkrýndur Spánarmeistari, mætti galvaskur og stútfullur af sjálfstrausti í hægri bakvarðarstöðuna. Stóri og stæðilegi „vinstri bakvörðurinn“ Dan Burn kom frá Brighton og tók sér stað í hinni bakvarðarstöðunni og eignaði sér hana á mettíma en hann er einmitt gallharður Newcastle stuðnignsmaður frá unga aldri.
En vandamálin sem Steve Bruce náði ekki að leysa á sínum tíma voru ekki einungis varnarlega því liðinu gekk mjög ill að skora undir hans stjórn og með Callum Wilson með annan fótinn á meiðslalistanum ákvað Howe að fá til liðsins Chris Wood frá Burnley sem varaskeifu í meiðslavandræðum sínum. Hins vegar munaði mestu um Bruno Guimarães sem hefur haft sambærilega sterk áhrif á þetta Newcastle lið og Casemiro hefur haft fyrir United á þessari leiktíð.
Brasilíski miðjumaðurinn kom til liðsins frá Lyon á 40 milljónir punda og miðað við áhrifin sem hann hefur haft er hann hverrar krónu virði. Brassinn getur spilað sem hefðbundin átta eða sexa og vinnusemin, sköpunargáfan og leikskilningurinn er á efsta kaliberi. Guimarães er til að mynda sá sem hefur átt hvað mestan þátt í upprisu Almirón og hefur lagt upp og skapað færi fyrir Paragvæann eins og hann fái borgað fyrir það.
En Bruno lét reka sig af velli með rautt spjald í leik gegn Southampton 31. jan og á meðan hann hefur verið í banni hefur liðið verið að hiksta og ekki tekist að vinna í þessum þremur leikjum sem hann hefur misst af. Fyrsti leikurinn sem hann getur spilað frá þeim leik verður því úrslitaleikurinn gegn okkar mönnum um helgina.
En Howe hélt áfram að styrkja liðið í sumar enda eru nýjir, vellauðgir eigendur á bakvið liðið. Í sumar komu svo þeir Matt Targett (á láni), Nick Pope, Sven Botman, Loris Karius og Alexander Isak á meðan Anthony Gordon var sá eini sem var keyptur fyrir einhverja alvöru upphæð í janúarglugganum. En ástæðan fyrir því að ég nefni Loris Karius sem alla jafnan er þriðji markvörður aðalliðsins er sú að Newcastle er í verulegum vandræðum með markmenn fyrir leikinn á morgun.
Martin Dubravka var á láni hjá United og spilaði í keppninni fyrir hönd United og má því ekki spila fyrir liðið. Nick Pope, aðalmarkvörður liðsins, ætti öllu jafna að byrja þennan leik en gerði sig sekan um hlægileg mistök á laugardaginn var gegn Liverpool. Hann var kominn langt út úr vítateignum og misreiknaði flugskallann sinn og endaði á að skófla boltanum með höndunum til sín áður en hann sparkaði svo Trippier niður þegar hann var staðinn upp. Beint rautt, hárréttur dómur fyrir viljandi hendi utan teigs þrátt fyrir að margir sem lyklaborði gátu valdið hafi komið honum til varnar og sýnt honum vorkunn. Það kemur því í hlut Karius að verja rammann á Wembley.
Það munar auðvitað um þessa leikmenn sem Howe hefur keypt til liðsins en það sem Howe á hins vegar mikið hrós skilið fyrir er hve miklu hann hefur náð út úr leikmönnunum sem fyrir voru. Miguel Almíron, Joelinton og Fabian Schar hafa verið að spila eins og enginn sé morgundagurinn. Almíron er kominn með 10 mörk og eina stoðsendingu í deildinni og Joelinton, sem íþróttafréttamenn og fótboltaáhugamenn kepptust nánast um að gera grín að þegar hann kom í enska boltann fyrir slaka frammistöðu sína og markaþurrð, er orðinn einn af sterkustu miðjumönnum deildarinnar. Því fengu United menn að kynnast fyrr á leiktíðinni þegar sá brasilíski átti stórleik og átti 2 skot sem enduði í tréverkinu og uppskar mikið lof fyrir leik sinn.
Fabian Schar hefur svo verið nánast óaðfinnanlegur í sterkustu vörn deildarinnar en hún hefur einmitt verið stór þáttur í velgengni Newcastle en liðið hefur einungis fengið á 15 mörk í deildinni, sem er rétt helmingurinn af því sem næstu fjögur lið hafa fengið á sig: Fulham (30), Brighton (29), Liverpool (28) og Brentford (30). Liðin fyrir ofan Newcastle hafa sömuleiðis fengið á sig mun fleiri mörk: Arsenal (23), Manchester City (24), Manchester United (28) og Tottenham (35).
En þetta er bikarleikur og gengi í deildinni hefur oft ekkert að segja með bikarævintýri. Leið Newcastle inn í úrslitin er samt ekki búin að vera auðveld þrátt fyrir að þeir hafi byrjað á sigri gegn Tranmere Rovers sem leika í d-deildinni á Englandi. Eftir þann leik mættu þeir Crystal Palace, því næst Bournemouth og að lokum Leicester City til að tryggja sig inn í undanúrslitaleik gegn Southampton.
Þeir þurftu vítakeppni til að leggja Palace en fengu ekki á sig mark í neinum af þessum leikjum þar til í síðari viðureigninni við Southampton þegar þeir voru komnir með 3-0 forystu í heildina og þá líklega farnir að slaka af bensíngjöfinni. Það veit því ekki á gott hversu sterkir þeir hafa verið varnarlega í þessari keppni sem hefur greinilega verið lykillinn að velgengni Newcastle í bikarnum líka.
Það verður því mikill missir fyrir Newcastle liðið í heild sinni ef þeir verða án máttarstólpa eins og Nick Pope og Joelinton sem er glíma við smávægileg meiðsli en Howe lét hafa eftir sér að hann gæti komið til baka gegn United. Guimarães verður klár en vonandi örlítið ryðgaður en það er klárt mál að baráttan á vellinum verður inn á miðjusvæðinu. En í ljósi nýlegra ummæla Howe um alvarleika meiðsla Joelinton spái ég því að hann verði í liðinu. Howe stillir alltaf upp í 4-3-3 sama um hvaða mótherja eða keppni ræðir svo ég geri fastlega ráð fyrir að liðsuppstillingin verður eitthvað á þessa leið:
Leikmenn United fá einungis tvo daga á milli leiksins við Barcelona í Evrópudeildinni og úrslitaleiksins gegn Newcastle og því þarf eitthvað að hrófla til í leikmannavalinu fyrir leikinn. Það sem gefur stuðningsmönnum hins vegar von er að Erik ten Hag hefur sýnt fram á það að hann getur gert miklar breytingar á liðinu án þess að það komi niður á úrslitunum sem er gríðarlega mikilvægt sé tekið mið af því að United virðist vera fara sambærilega leið og Liverpool á síðustu leiktíð og eru eina enska liðið sem er í öllum keppnum ennþá.
Það voru eflaust ansi margir sem fundu fyrir létti þegar ljóst var að ekki þyrfti framlengingu á fimmtudagskvöldinu þegar leikurinn var flautaður af. United er komið áfram í 16 liða úrslitin og mætir þar Real Betis frá Spáni, fyrst á Old Trafford 9. mars og síðan úti á Spáni þann 16. mars. En höldum okkur í núinu, Newcastle á morgun og United verður án Eriksen, Martial og Donny van de Beek eins og áður en ég spái liðinu svona:
Varnarlínan velur sig nánast sjálf fyrir utan hægri bakvörðinn, þar sem ég tel líklegt að Diogo Dalot byrji í stað Aaron Wan-Bissaka sem hefur engu að síður átt mjög gott tímabil að undanförnu í fjarveru Portúgalans. Casemiro er jafn öruggur inn í þetta byrjunarlið eins og ég er öruggur um að vera það ekki en vandamálið flækist örlítið þegar við förum að skoða það sem er þar fyrir framan. Fred spilað ekki vel í fyrri hálfleiknum gegn Barcelona en það var eins og maðurinn hefði gengið í gegnum hamskipti í hálfleik því hann var líklegast besti leikmaður liðsins í þeim síðari og gerir sterkt tilkall til þess að byrja þennan leik.
Hins vegar sat einn Marcel Sabitzer á bekknum allan þann leik og ætti því að vera leikfær og klár í þennan leik og eflaust einhverjir sem hafa beðið eftir því að sjá hann leika með Casemiro sér við hlið. Mig grunar því að Austurríkismaðurinn byrji þennan leik á kostnað litla brassans þar sem ten Hag mun líklega vilja ögn meiri líkamlegan styrk á miðjuna gegn mönnum eins og Joelinton, Longstaff og Guimarães.
Fyrsta nafn á blaðið þegar horft er til framlínu United er Marcus Rashford og það er tímaeyðsla að fara rökstyðja það afhverju en spurningin er hins vegar hvar mun hann byrja og það fer eftir því hvaða sóknarmenn fylgja honum út á völlinn. Bruno og Sancho hafa verið að rótera úr tíu-hlutverkinu og á hægri kantinn og ég held að þeir muni gera það áfram. Wout Weghorst tel ég líklegan á blað líka einfaldlega til að mæta líkamlegu atgervi mótherjanna en þeir eru með einstaklega hávaxið og sterkbyggt lið. Sven Botman, Alexander Isak og Dan Burn eru til að mynda allir yfir 190 cm og verulega mikil ógn í loftinu.
En þrátt fyrir að Rashford gæti átt auðveldar með að stinga Burn og Botman á hægri kantinum held ég að með tilkomu Dalot með Bruno/Sancho á hægri kantinum sé mun líklegra að það muni opnast svæði fyrir aftan Trippier fyrir öskufljótan og áræðinn argentínskan táning til að valda usla í á meðan Rashford fái frjálsara hlutverk upp á topp með Weghorst í tíunni. Ég hugsa að Sancho verði bekkjaður og fái að spreyta sig í síðari hálfleik rétt eins og ten Hag hefur verið að gera undanfarið.
Það er mikið undir í þessum leik, fyrsti bikar United undir stjórn Erik ten Hag gæti kórónað og undirstrikað þann algjöra viðsnúning sem liðið hefur tekið undir hans stjórn allar götur síðan liðið lá 4-0 gegn Brentford og tók út refsingu í formi 13,6 km hlaups þar sem Hollendingurinn leiddi hópinn. Það er samt ekki allt fyrir bí ef þessi leikur tapast.
Við erum komnir í 16 liða úrslit Evrópudeildarinnar þrátt fyrir að hafa þurft að yfirstíga stærstu hindrunina á móti liði sem er að rúlla upp spænsku deildinni og hefur fengið á sig einungis 7 mörk (0,33 mörk í leik). United er nær toppi deildarinnar en 5. sætinu og virðist stefna á Meistaradeild á næsta tímabili þrátt fyrir brösótt gengi í upphafi leiktíðar.
Erik ten Hag hefur náð að koma liðinu inn í fyrsta úrslitaleikinn sem hann hafði möguleika á og það er nokkuð sem reyndist forvera hans, Solskjær, þrautin þyngri og tók margar tilraunir sem sýnir svart á hvítu að Hollendingurinn er sigurvegari í húð og hár (no pun intended). United á svo heimaleik gegn West Ham í bikarnum þar sem liðið verður örugglega talið annað af tveimur sigurstranglegustu liðunum í keppninni ef liðið fer áfram á miðvikudaginn n.k.
Newcastle hefur ekki sigrað í síðustu þremur leikjum sínum (0-2 gegn Liverpool, 1-1 gegn Bournemouth og West Ham) og vonandi halda þeir uppteknum hætti áfram. Þeir hafa hins vegar einungis tapað þremur leikjum yfir alla leiktíðina og tveir af þeim komu gegn Liverpool, hinn var leikur gegn Sheffield Wednesday í bikarnum. Í heildina hafa Newcastle spilað 30 leiki og eru með 16 sigra, gert 11 jafntefli og þrívegis tapað.
United hefur aftur á móti spilað talsvert fleiri leiki eða 39 talsins. Af þeim hafa 28 unnist, fimm sinnum endað með jafntefli og sex þeirra hafa tapast. Hins vegar hefur Manchester United einungis tapað 2 af síðustu 30 leikjum og annar þeirra var naumt tap á útivelli gegn vel hvíldu, toppliði Arsenal án okkar sterkasta leikmanns. Hitt var afhroð gegn Unai Emery og Aston Villa í fyrsta leiknum hans með liðið.
Erik ten Hag virðist ekki bara vera búinn að smella í lás og gera Old Trafford að vígi sínu heldur hefur hann sýnt fram á að hann getur haft gríðarleg áhrif á leiki, bæði með taktískum breytingum í hálfleik og með skiptingum sínum. Með því að færa menn um stöður og breyta/aðlaga taktík í miðjum leik nær hann fram ótrúverðum árangri sem fæstir kollegar hans hafa svör við. Þegar liðið hefur verið að tapa stigum hefur það yfirleitt mátt rekja til þreytu, einstaklingsmistaka eða stórkostlegra einstaklingsframtaka mótherjanna eins og aukaspyrnumark Olise fyrir Palace, en hann hefur staðið sig býsna vel í að móta liðið eftir eigin höfði og sínum „meginreglum“ um það hvernig eigi að spila fótbolta og fá alla leikmennina um borð á Ten Hag-vagninn.
Lestin heldur áfram að malla áfram á sunnudaginn og flautað verður til leiks klukkan 16:30 á Wembley þar sem David Coote verður flautuleikari og sér um að halda utan um spjöldin.
Björn Friðgeir skrifaði þann | Engin ummæli
Dregið verður í 16 liða úrslit Evrópudeildarinnar á eftir kl 11.
Liðin sem komust beint áfram úr riðlunum eru í efra styrkleikaflokki, en liðin átta sem komust áfram í gær í þeim neðra og mætast þau innbyrðist. United getur ekki mætt Arsenal
Neðri styrkleikaflokkur
Leikir fara svo fram 9. og 16. mars
Björn Friðgeir skrifaði þann | 5 ummæli
Lið United í þessum leik kom ekki á óvart
Varamenn: Heaton, Maguire, Lindelöf, Dalot (67′), Malacia, Sabitzer, Antony (45′), Pellistri, Elanga, McTominay (88′), Garnacho (67′), Mainoo
Lið Barcelona er svona:
Það var varla liðin tvær og hálf mínúta af leik þegar Casemiro vann boltann og gaf fram á galopinn Bruno sem lék inn í teig en skaut ekki alveg nótu mikið til hliðar og Ter Steken komst fyrir það, Leikurinn opinn frá fyrstu spyrnu og United pressaði vel á Barcelona, Weghorst var fremstur, Sancho í tíunni, Bruno vinstra megin og Rashford hæra megin eins og myndin að ofan sýnir. Þetta var mjög fjörugt og bæði lið sóttu á og á 15. mínútu kom fyrirgjöf inn á teig United, Varane skallaði frá, og Bruno greip í hendi Balde og hálf snéri hann niður og dómarinn var ekki í nokkrum vafa. Lewandowski tók lélegt víti og De Gea slæmdi hendi í boltann en sló hann bara í hliðarnetið. 1-0 fyrir Barcelona
Hrikaleg slakt hjá Bruno, dómgreindarleysi. Hann var á hinn bóginn ógnandi uppi við mark Barcelona, kom sér í ágæta stöðu og fékk sendingu frá Marínez, reyndi viðstöðulaust skot sem var ekki nógu fast og Ter Stegen tók það.
United voru mun betri eftir þetta, Barcelona dró sig til baka og United sótti á og pressaði vel þegar vörn Barcelona var með boltann. Þeim gekk samt illa að finna glufur og sóknir Barcelona þó færri væru voru hins vegar meira ógnandi. Rétt fyrir hlé var De Gea næstum búinn að gefa mark með að senda beint á Roberto, en nauðvörn fyrst Martínez og svo Casemiro bjargaði því.
Það þurfti að hressa við sóknarleikinn og Wout fór útaf í hálfleik fyrir Antony, þá fór Sancho vinstra megin, Rashford upp á topp og Bruno í tíuna.
Og það þurfti ekki níutíu sekúndur til að jöfnunarmarkið kæmi. Af öllum mönnum var það Fred sem fékk sendingu frá Bruno við vítahringinn, hafði opna línu inn í teiginn og svo skotið af sköflungnum í ristina og inn, Ter Stegen of seinn að skutla sér.
Rétt á eftir var Antony næstum kominn í gegn en Christensen elti hann vel og náði að nikka í boltann þannig hann færi í Antony og útaf. Fjör strax í upphafi leiks og United réði ferðinni, meiri hraði í sóknunum þeirra en vandaði upp á færin og lokahnykkinn.
Barcelona var ekki að sýna mikið en á 64. kom fyrirgjöf og Kounde komst í skallann en De Gea varði frábærlega yfir.
Ten Hag gerði svo tvöfalda skiptingu, Wan-Bissaka og Sancho fóru útaf og Dalot og Garnacho komu inná. Þetta hressti enn upp á leik United og stíf sókn þeirra sem byrjaði vinstra megin og reyndi á blokkir varnarmanna endaði úti á Antony sem smellti boltanum í fjær hornið afskaplega snyrtilega. 2-1!!
United var áfram mun öflugra liðið þó Barcelona reyndu meira. Garnacho fór í gegnum þrjá leikmenn á eigin vallarhelmingi og Busquets greip um háls hann aftanfrá og hefði átt að sjá annan lit á spjaldi en gulan.
McTominay kom inn á undir lokin fyrir Rashford til að loka leiknum, og jafnvel hvíla Rashford. Barcelona sótti stíft, Lewandowski komst í gegn og skaut framhjá De Gea en Varane komst fyrir skotið og svo var dæmd rangstaða þannig að það var í lagi
En síðasta sóknin var United og þegar hún brotnaði niður flautaði dómarinn.
Frábær sigur í höfn. Erfiður fyrri hálfleikur en flottur seinni. Ten Hag skipti eins og kóngur og varamennirnir stóðu sig af snilld.
Núna er það bara dráttur í næstu umferð á morgun kl 11:00 og leikir 9. og 16. mars. Dagskráin er stíf og þannig viljum við hafa hana! Áfram í öllum keppnum!
Vertu með í Fantasy leiknum okkar!