Ath: Evrópa færði klukkuna í nótt og leikurinn á morgun er kl. 11:30!
Mér skilst að við séum með þokkalega forystu í deildinni, en á morgun skiptir það litlu máli.
Við förum til London og mætum Chelsea í aukaleik í átta liða úrslitum bikarsins eftir að hafa verið nokkuð heppnir að halda jöfnu gegn þeim í fyrri leiknum. Bæði lið verða eitthvað breytt eða þreytt eftir leiki gærdagsins. United fór eins og við vitum þokkalega auðveldlega í gegnum leik móti Sunderland en Chelsea tapaði fyrir Southampton á útivelli.
Benítez hvíldi eitthvað af leikmönnum, og þurfti svo að kasta þeim inn á til að reyna að vinna leikinn, en það virðist sem hann meti það meira að vinna bikara fyrir sjálfan sig en að koma Chelsea í Meistaradeildina. Við kvörtum ekkert ef hið síðarnefnda mistekst, en þurfum að sjá um að hið fyrra takist ekki, a.m.k. hvað varðar enska bikarinn.
Byrjum á okkar liði. Það hlýtur að hafa verið áhyggjuefni eftir fyrri leikinn hversu auðveldlega Chelsea tókst með skiptingum að breyta þeim leik í sér í hag. Carrick og Cleverley á miðjunni eru einfaldlega ekki hörðustu miðjumenn sem vitað er um. Og þess vegna ætla ég að spá einni breytingu frá liðinu í fyrri leiknum, og segja að Phil Jones spili þennan leik ef hann er heill.
De Gea
Rafael Ferdinand Evans Evra
Nani Carrick Jones Kagawa
Rooney Hernandez
Þarna er ég að vona að það sé allt í lagi með Rafael, og miðað við hvernig Kagawa er að spila þá er hann líklegri en Welbeck. Þetta telja heilar 7 breytingar frá leiknum í gær og sýnir sem fyrr breiddina í hópnum
Af Chelsea liðinu sem byrjaði gegn okkur voru Luiz, Cole, Ramirez og Ba á bekknum í gær. Hazard líka og miðað við frammistöðuna í seinni hálfleik gegn okkur er hann klárlega að fara að byrja. Hann var svo sá eini af þessum fimm sem kom inn á. Búumst því við a.m.k. fjórum breytingum hjá Chelsea, ekki svo viss að Ramirez sé að fara að byrja.
Þetta ætti að gefa okkur forskot, en ég er hræddur fyrir þennan leik. Þegar kemur að síðustu mánuðum leiktíðarinnar koma stóru leikirnir… og ef við vinnum næstu þrjá leiki gæti þetta orðið eitt besta tímabilið okkar. En þriðji leikurinn verður þá og því aðeins alvöru að við vinnum á morgun. Og það er sama hvað okkur hefur gengið vel í vetur, það er alltaf smá púki á öxlinni sem er að reyna að segja mér hvað þetta sé allt ósannfærandi. Eigum við ekki bara að spá að þetta ráðist í vítakeppni?
p.s. Chelsea var fjórum stigum á eftir okkur þegar Di Matteo var rekinn. Núna er munurinn 22 stig. Ef þú getur hugsað um þetta án þess að hlæja þá ertu líklega Chelsea stuðningsmaður. Gaman að sjá þig!