Sökum anna hef ég dregið lappirnar í að tilkynna útslit í kosningu á leikmanni febrúarmánaðar. Úrslitin reyndar komu ekki mikið á óvart því lesendur Rauðu djöflanna voru sammála flestum öðrum stuðningsmönnum út í heimi í því að David De Gea var besti leikmaður United í febrúar. Hann sigraði þessa kosningu nokkuð örugglega, fékk 43% atkvæða en næstur í kjörinu var Rafael með 21%, en svo kom Giggs með 18%.
Þessi úrslit ættu ekki að koma neinum á óvart, De Gea fékk aðeins á sig tvö mörk í febrúar og hefur eins og staðan er í dag haldið hreinu í ensku deildinni í tæpar 600 mínútur. Hann til dæmis sýndi frábæra takta í fyrri leiknum gegn Real Madrid í Meistaradeildinni og getum við þakkað honum fyrir að Real skoraði aðeins eitt mark í þeim leik.
Um leið og Ferguson hætti að rótera De Gea og Lindegaard í öðrum hverjum leik hefur sjálfstraust De Gea vaxið og fyrir mér hefur hann sýnt það og sannað (enn og aftur) að hann er framtíðar markmaður liðsins. Allt tal um eitthvað annað er bara bull og vitleysa.